Everton – Swansea 3-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Swansea í kvöld og tóku öll þrjú stigin og þar með 16 stig af 18 mögulegum í öllum keppnum. Fyrri hálfleikur slakur af hálfu Everton en þeir gerðu nóg í seinni til að slökkva vonarneista Swansea.

Uppstillingin: Pickford, Martina, Holgate, Williams, Kenny, Gana, Schneiderlin, Gylfi, Rooney, Lennon, Calvert-Lewin. Varamenn: Robles, Keane, Jagielka, Ramirez, Davies, Vlasic, Lookman.

Swansea urðu fyrir nokkurri blóðtöku strax í upphafi leiks þegar Bony fór meiddur út af strax á 4. mínútu. En þrátt fyrir að Everton liðið hefði undirtökin sköpuðu þeir engin færi og það kom lítið á óvart þegar Swansea komust yfir.

Það gerðist á 38. mínútu með marki eftir hornspyrnu. Ashley sleppir dekkun á Leroy Fer til að skalla frá en missir af skallaboltanum og Leroy Fer potar inn við fjærstöng. Allt of auðvelt.
Ekkert að gerast eftir það þangað til Lennon sótti víti sekúndum fyrir lok hálfleiks. Rooney á punktinn en Fabianski varði í stöngina. Calvert-Lewin náði frákastinu og þrumaði inn. 1-1 í hálfleik.

Schneiderlin var skipt út af fyrir Davies á 60. mínútu enda furðuðum við okkur á því fyrir leik af hverju þyrfti tvo djúpa miðjumenn á móti Swansea og það var eins og við manninn mælt að leikur Everton batnaði nokkuð við þessa skiptingu.

En það var svo Gylfi sem tók af skarið og kláraði leikinn. Lék á einn varnarmann utan teigs vinstra megin og setti boltann með glæsilegum sveig í hliðarnetið hægra megin. Óverjandi fyrir Fabianski í markinu. Staðan orðin 2-1 eftir 64 mínútur.

Nokkrum mínútum síðar var þetta svo gulltryggt þegar dómarinn dæmdi aftur víti á 71. mínútu, þegar Kenny var felldur eftir að hafa komist í gegn. Mjög erfitt er að meta það hvort brotið var innan eða utan teigs. Þurfum að sjá það aftur á morgun.

Lookman var svo skipt inn á fyrir Lennon á 79. mínútu og Rooney fór út af fyrir Sandro Ramirez á 90. mínútu en þess á milli var bara eitt markvert færi. Það kom eftir að Gylfi stal boltanum af varnarmanni Swansea á 85. mínútu og setti Calvert-Lewin inn fyrir vörnina. Skotið frá Calvert-Lewin var hins vegar afleitt.

En það breytti því ekki að Everton tóku þrjú stig í kvöld, nokkuð sem er smám saman að verða að venju.

Sam Allardyce effect still in full force.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Kenny (6), Holgate (7), Williams (6), Martina (7), Gueye (8), Schneiderlin (7), Lennon (7), Rooney (7), Sigurdsson (7), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Davies (6), Lookman (5). Leikmenn Swansea voru með einkunnina 5 á rétt rúmlega hálft liðið nema hvað þrír voru með 6 í einkunn og tveir með 4 (reyndar, fimm leikmenn með fjóra í einkunn ef við teljum varamennina með).

20 Athugasemdir

 1. Gestur skrifar:

  Það eru alltof margir farþegar í þessu Everton liði.

 2. þorri skrifar:

  hvað áttu við Gestur

  • Ari S skrifar:

   Segi það sama, hvað áttu við Gestur?

  • Gestur skrifar:

   Á þessum tímapunti var Everton ekki að spila vel og menn eins og Lennon, Martina, Gana og Calvert-Lewin ekki að spila vel eins og þeir gerðu mest allan leikinn. Góður sigur en ekki góður leikur hjá okkar mönnum. En það eru framfarir hélt reyndar þegar Swansea skoraði að lélega tímabilið væri byrjað aftur.

   • Orri skrifar:

    Sæll Gestur.Ég sá ekki leikinn en mér var sagt af góðum Everton manni að við hefðum ekki verið góðir,það kemur í ljós á Þorlák úr herju liðið er gert.Stigin 3 eru í húsi í kvöld.

 3. Elvar Örn Birgisson skrifar:

  Ansi rólegur fyrri hálfleikur hjá Everton en allt annað lið í þeim seinni. Sannfærandi 3-1 sigur og Everton komnir í 9 sætið og bara 1 stig í það 8unda.
  Verður áhugavert að sjá Everton mæta Chelsea á laugardaginn á Goodison, ekki það að maður sé neitt að deyja úr bjartsýni að klárleg batamerki á liðinu og væri ekki leiðinlegt að taka sigur gegn meisturum Chelsea.
  Geggjað mark hjá Gylfa í dag og gaman að Rooney hafi skorað sitt 10 mark eða jafn mörg mörk og Lukaku já og jafn mörg mörk og allt Swansea liðið reyndar.

  Hefði viljað sjá Ramirez koma fyrr inná en í raun hissa að sjá ekki Niasse á bekknum í hans stað. Finnst Niasse eiga skilið að fá að spila eitthvað.

  • Gunnþór skrifar:

   Elvar ekki eftir liverpoolleikinn hann var sorglega lélegur heppinn ef hann fær að vera í vatninu hjá stóra sam.

   • Elvar Örn Birgisson skrifar:

    En það voru allir fyrir utan vörnina í þeim leik (gegn Liverpool) daprir og líklega allir að spila úr stöðu, líka Niasse ef ég man rétt.

    Menn verða að skoða tölfræðina líka er kemur að Niasse þar sem hann er að mig minnir enn með fæstar mínútur á milli marka í deildinni.
    Enda er ég bara að segja að Niasse er búinn að sýna miklu miklu miklu meira en Ramirez og á skilið að spila meira.
    Var samt á því að Ramirez átti að koma fyrr inná í þessum leik.

 4. Ari S skrifar:

  Eftir sigurinn í kvöld þá er Everton liðið aðeins 9 stigum á eftir meistaradeildarsætinu sem er 4. sætið. Og mótið ekki hálfnað, 20 leikir eftir!

 5. Georg skrifar:

  Mikilvæg 3 stig í kvöld. Liðið var helst til rólegt í fyrrihálfleik en það var allt annað að sjá liðið í þeim seinni. Frábært mark hjá Gylfa sem er farinn að skora eða leggja upp nánast í hverjum leik. Rooney heldur svo uppteknum hætti með marki og stoðsendingu

  Væri gaman að sjá Everton mæta ákveðna til leiks gegn Chelsea. 3 stig þar væru frábær.

  Það verður bara að segjast að Big Sam er að gera frábæra hluti með liðið. Hann er búinn að koma sjálfstrausti i liðið. Auk þess finnst mér áberandi hvað það er mikil barátta og dugnaður í liðinu sem sást ekki í haust.

 6. Gestur skrifar:

  Á þessum tímapunti var Everton ekki að spila vel og menn eins og Lennon, Martina, Gana og Calvert-Lewin ekki að spila vel eins og þeir gerðu mest allan leikinn. Góður sigur en ekki góður leikur hjá okkar mönnum. En það eru framfarir hélt reyndar þegar Swansea skoraði að lélega tímabilið væri byrjað aftur.

  • Ari S skrifar:

   En þú talaðir um að það væru allt of margir farþegar, hvað áttir þú við og UM hvaða leikmenn ertu að tala?

   „Á þessum tímapunkti“ er ekkert svar Gestur. Mig langar að skilja þig betur við hvað þú áttir… 🙂

   Kær kveðja, Ari.

   • Gestur skrifar:

    Þetta er svar við spurningu hér að ofan en fór tvisvar inn. Leikmeninna nefni ég í svarinu og á þessum tímapunti voru búnar þrjátíu mín.

 7. Gunni D skrifar:

  Ekkert hissa á þessu kommenti þínu Gestur, alveg hræðilegt að horfa á þennan fyrri hálfleik. Þetta var eins og að horfa á Völsung og Sindra á slæmum degi, með fullri virðingu fyrir þeim ágætu liðum. Seinni var ekki meira en svona lala. Þetta var nú bara Swansea, neðstir á töflunni,Gylfa-lausir ,Lorente-lausir,Bony-lausir og hálf lánlausir sjálfsagt líka.

 8. Orri skrifar:

  Fer ekki að koma spenningur í menn fyrir morgudaginn ?????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????

 9. þorri skrifar:

  sælir félagar er mönnum ekki farið að hlakka til fyrir leikinn á eftir sem er hádeigisleikur. Mig hlakkar til en get ekki horft á hann því miður en vonar að það verði sigur ég spái 2-1 fyrir EVERTON KOMA SVO ALLIR .Verum kátir og glaðir

%d bloggers like this: