Chelsea vs Everton

Mynd: Everton FC.

Það er gaman að segja frá því að markið sem Gylfi skoraði í gær hefur verið bókstaflega á allra vörum hér á landi í dag og greinilegt að Gylfi hefur gert Everton miklu sýnilegra landsmönnum. Og er það vel. Facebook hópurinn okkar stækkaði um 10% á einu bretti við undirskrift Gylfa og er enn að stækka. En Facebook er bara einn angi af þessu — við höfum líka fengið fyrirspurnir um hvernig er hægt að ganga formlega í stuðningsmannaklúbb Everton á Íslandi og eru allar upplýsingar um það að finna hér.

En nú er enginn tími til hvíldar fyrir leikmenn Everton því næsti leikur er strax á sunnudaginn kl. 12:30 við núverandi Englandsmeistara Chelsea á þeirra heimavelli. Þetta er gríðarlega erfitt verkefni, ekki eingöngu vegna styrks mótherja, heldur verður þetta fjórði leikur Everton á 10 dögum. Undir venjulegum kringumstæðum myndi Koeman rótera mannskapnum til að takast á við álagið, en nú er svo komið að ansi margir eru meiddir og því erfiðara um vik. Fyrir utan þá sem eru á langtímalegunni (Coleman, Bolasie og Funes Mori) þá eru Klaassen, Barkley, McCarthy og Sandro meiddir, Schneiderlin í banni og Gana tæpur (verður metinn á leikdegi). Þegar kemur að leikjum gegn Chelsea undanfarið er tölfræðin ekki með okkar mönnum, en kominn tími til að breyta því.

Við ætlum að skjóta á að Gana verði orðinn heill og líkleg uppstilling því: Pickford, Baines, Jagielka, Keane, Holgate, Gana, Davies, Gylfi, Mirallas, Calvert-Lewin, Rooney.

Chelsea hafa leikið þrjá keppnisleiki á tímabilinu og tapað tveimur þeirra. Þeir töpuðu upphafsleiknum, um Góðgerðarskjöldinn, og svo aftur gegn Burnley á heimavelli, þar sem tveir Chelsea menn voru reknir af velli. En þeir sneru taflinu við gegn Tottenham á Wembley í næsta leik og unnu þar öflugan 1-2 sigur á útivelli. Gary Cahill er enn í banni eftir Burnley leikinn en Fabregas er kominn aftur. Eden Hazard er hins vegar að vinna sig upp úr meiðslum (beinbrot) og verður líklega ekki með.

Stóru fréttir dagsins eru þær að dregið var í riðla í Europa League og fékk Everton sæmilega sterka mótherja. Everton er í riðli með Lyon frá Frakklandi, Atalanta frá Ítalíu og Apollon Limassol frá Kýpur. Lyon er í 28. sæti, skv. UEFA stuðlinum yfir besta árangur félagsliða í Evrópu undanfarið, Atalanta í 127. sæti og Apollon Limassol í 136. sæti. Everton, til samanburðar, er í 63. sæti.

Það er til nokkurs að vinna því hver sigur færir Everton 360þ evrur (45M ISK) og jafntefli 120þ evrur (15M ISK). Sigur í riðli er jafngildi 600þ evra (76M ISK) og annað sætið gefur helming þeirrar upphæðar. Leikur í 32ja liða úrslitum er svo jafngildi 500þ evra (63M ISK).

Í öðrum fréttum er það helst að Jordan Pickford og Michael Keane voru valdir í enska landsliðshópinn sem mætir Möltu og Slóvakíu en Rooney hefur þegar tilkynnt að hann hafi lagt landsliðsskóna á hilluna. Að auki voru 6 valdir í enska U21 árs landsliðið: heimsmeistarar U20 ára liða, þeir Dominic Calvert-Lewin, Jonjoe Kenny, Ademola Lookman og Kieran Dowell, munu nú leika með U21 árs landsliðinu og að auki heldur Mason Holgate sæti sínu í hópnum og Tom Davies var kallar til liðs við hópinn í fyrsta skipti.

En Chelsea menn eru næstir á sunnudaginn kl. 12:30 og er leikurinn í beinni á Ölveri!

Ekki má heldur gleyma því að þér gefst (í takmarkaðan tíma) færi á að spyrja Gylfa nokkurra spurninga. Við förum von bráðar að taka saman spurningarnar. Er ekki eitthvað sem þig hefur alltaf langað að vita um Gylfa? Í góðu lagi að senda inn margar spurningar.

1 athugasemd

  1. Ari G skrifar:

    Ég hef miklar áhyggjur hvað margir leikmenn eru meiddir. Evrópukeppnin er að taka sinn toll. Ég héld að það borgi sig ekki að selja neina leikmenn nema Barkley þótt ég vilji halda honum en vill ekki mann sem vill ekki spila fyrir Everton. Bíð eftir Ben Gibson finnst meira atriði að fá góðan varnarmann en að kaupa einhvern lélegan sóknarmann á okurverði. Sammála uppstillingunni nema ég hef miklar efasemdir að láta Holgate spila sem bakvörð á móti svona sterku liði.

%d bloggers like this: