Everton – Hajduk Split 2-0

Mynd: Everton FC.

Everton vann sannfærandi 2-0 sigur á Hajduk Split í kvöld í fyrri umspilsleik fyrir riðlakeppnina í Europa League. Keane og Gana Gueye með mörkin fyrir Everton en mestu máli skipti að halda hreinu á heimavelli og liðið er nú í mjög góðri stöðu fyrir seinni leikinn.

Uppstillingin: Pickford, Baines, Williams, Keane, Martina, Gana, Schneiderlin. Klaassen, Mirallas, Lookman, Rooney. Varamenn: Stekelenburg, Jagielka, Lennon, Besic, Calvert-Lewin, Davies, Holgate.

Meistari Elvar tók að sér leikskýrsluna í kvöld. Við þökkum honum kærlega fyrir og gefum honum orðið:

Góður 2-0 sigur Everton á heimavelli gegn Hajduk Split í fyrri umferð útsláttarkeppni Evrópu en sigur í þessum viðureignum tryggir þáttöku í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Leikurinn var sýndur á Youtube þar sem hann var ekki sýndur í beinni í UK og var því í opinni dagskrá (og hægt að horfa á hann hvenær sem er geri ég ráð fyrir [innskot: hægt að sjá hér]). Kynning Everton á Gylfa fyrir leik var því miður ekki sýnd í beinni en geri ráð fyrir að hægt verði að sjá kynninguna á EvertonTV síðar. Everton mikið betri aðilinn í fyrri hálfleik og án efa besti hálfleikur Everton á þessu tímabili þó með séu taldir leikirnir á undirbúningstímabilinu.

Allt liðið spilaði vel og erfitt að velja sterkustu menn í því samhengi en mér fannst Gana og Schneiderlin svakalegir þar sem Gana stoppaði allt sem hægt var að stoppa og Schneiderlin var frábær einnig og átti hann fjölmarga langar þversendingar á kantana sem virtist brjóta upp varnarkerfi þeirra all verulega. Lookman var eins og raketta í fyrri hálfleik og var ansi ógnandi, Rooney ansi ógnandi líka og Klaassen fannst mér frábær. Sá sem kom kannski einna mest á óvart var Martina sem átti frábæra spretti upp kantinn og fjölmargar magnaðar sendingar í teiginn. Vörnin flott og Hajduk Split ógnuðu marki Everton ekkert að neinu marki í fyrri hálfleik utan við tvö langskot beint á markmann.

Bæði mörk Everton komu í fyrri hálfleik og það fyrra kom á 30. mínútu þar sem Everton áttu horn sem markmaður Split setur hnefann í og boltinn fer út fyrir vítateig. Þar fær Baines boltann og setur beint á Klaassen í miðjum teig sem pikkar honum til hliðar aftur á Baines sem þá er kominn að endalínu og vippar yfir markmanninn, fyrir markið, þar sem Keane er mættur og skallar boltann inn. Sanngjarnt 1-0 fyrir Everton.

Nokkrum mínútum síðar á sér stað sjaldgæf sjón á Goodison þar sem áhangendur andstæðingana láta öllum illum látum og henda inn stólsetum, flöskum og blysum á völlinn sem gerir það að verkum að dómarinn stöðvar leikinn og leikmenn beðnir að fara af vellinum þar sem lögreglan mætir í tugatali til að stöðva þessa vitleysu. Það náðist fljótlega að róa mannskapinn með aðstoð leikmanna aðkomuliðsins og eftir um 5 mínútur hefst leikur að nýju.

Everton heldur áfram að sækja en byrjar nokkuð rólega eftir þessa vitleysis-uppákomu en á 45 mínútu kemst Klaassen inní sendingu og pressar á leikmann Hajduk, nær boltanum og fer framhjá honum, sendir á Rooney sem tekur smá snúning og sendir flotta sendingu á Gana sem er rétt að stinga sér innfyrir vörn Hajduk manna með því að vippa boltanum rétt yfir seinasta varnarmann og snýr sér og setur boltann fallega í fjærhornið. Frábær sókn og staðan 2-0 fyrir Everton. Á 50. mínútu (5 mínútur í uppbótartíma) þá á Klaassen magnaða sendingu á Rooney sem er dauðafrír og setur boltann í fjærhornið en markmaður Hajduk ver mjög vel. Sanngjörn staða í hálfleik þar sem Everton leiðir 2-0.

Í síðari hálfeik skiptir Koeman Schneiderlin útaf og inná kemur Tom Davis þar sem Schneiderlin fékk gula spjaldið í fyrri hálfleik, engir sénsar teknir. Everton spilaði ágætlega fram að 62 mínútu þegar Koeman setur Calvert-Lewin inná í stað Klaasen. Þarna tel ég að réttast hefði verið að skipta Rooney útaf og setja Calvert-Lewin í framlínuna í staðinn fyrir að setja Rooney aftar og Calvert-Lewin fram eins og raun bar vitni. Rooney átti bara að fá hvíld þarna þar sem erfitt prógram er framundan.

Everton áttu fá færi það sem eftir var og sóttu Hajduk í sig veðrið og áttu líklega um 3 fín marktækifæri þar sem Pickford varði ansi vel og líklega má telja að án hans hefðum við fengið á okkur mark.

Sanngjörn úrslit samt sem áður og þeir sem álíta að Everton séu ekki að byrja nægilega vel (vísun í spjallið hér) þá verður maður að benda á það að við unnum báða leiki í seinustu umferð Evrópu með 1-0 á miðju undirbúningstímabili, unnum Stoke 1-0 í fyrsta leik í deildinni og í dag 2-0. Everton hafa því ekki fengið á sig mark í þessum 4 leikjum. Ekki slæmt það. Samt sem áður svakalegt prógram framundan en engin ástæða að vera smeykur við þá leiki. Næsti leikur er úti gegn Man City á mánudaginn og verður í beinni á Stöð2 Sport2.

10 Athugasemdir

  1. RobertE skrifar:

    Virkilega flottur fyrri hálfleikur. Lookman að standa sig vel og Rooney að lesa leikinn vel. Veit ekki hvort það sé hárið en Klaassen er með smá Naismith takta í sér, verður erfitt að taka hann í sátt. Síðan vil ég að Mirallas spili alla leikina svona.

    • Ari S skrifar:

      Klaassen átti algerlega seinna markið. Það verður ekkert mál að taka hann í sátt. Hann var betri núna heldur en í síðasta leik. 🙂

    • Elvar Örn skrifar:

      Alls ekki sammála með Klaassen.
      Everton átti 3 alvöru færi og Klaassen átti þátt í þeim öllum.
      Second assist á Baines sem sendir hann á Keane í fyrsta markinu.
      Í öðru markinu var það Klaassen sem stal boltanum og átti second assist á Rooney sem setur boltann á Gana sem skorar.
      Klaassen átti síðan magnaða sendingu á Rooney á 50 mínútu og kom Rooney í dauðafæri einn á móti markmanni en markmaðurinn las Rooney algerlega.
      Fannst Klaassen skila ansi miklu fyrir okkur og heldur ekki sammála þér með Mirallas, fannst hann allt í lagi á fyrstu 20 mín en varð meira og meira ósýnilegur eftir það. Ég horfði á fyrri hálfleik aftur sko 🙂

      • Ari S skrifar:

        Þetta var eiginlega bara frábær leikur hjá Klaassen, hans besti leikur hingað til.

  2. RobertE skrifar:

    Mjög góður leikur, Pickford öruggur í markinu og Lookman og Rooney að pressa vel á vörnina. Baines á nóg eftir, Gana stóð sig mjög vel og Keane opnaði markareikninginn sem er jákvætt. Tom Davies og Calvert-Lewin komu sprækir inn en hefði viljað sjá fleiri mörk eftir að þeir komu inná.

  3. Ari S skrifar:

    Flottur leikur hjá okkar mönnum. 2-0 gott veganesti í seinni leikinn. Michael Keane er alltaf að heilla mig meira og meira. Og Pickford er frábær… 🙂

  4. Ari G skrifar:

    Frábær fyrri hálfleikur. Klaassen er magnaður leikmaður fannst leikur Everton detta niður eftir að hann fór útaf. Nýjasta slúðrið núna er að Everton er að spá að reyna að leigja Diego Costa gott að fleiri séu sammála mér magnaður framherji. Vonandi gerir Everton ekki þau mistök að kaupa Benteke eða ruslið frá Arsenal. Við þurfum að vanda okkur vel að kaupa rétta framherjann. Pickford og Keane líka frábær kaup. Erfitt að velja bestu menn leiksins en ég vel Klaassen og Keane. Miðjan hjá Everton á eftir að vera mögnuð en sammála Koeman þurfum frábærann sóknarmann í viðbót.

    • Elvar Örn skrifar:

      Algerlega sammála þessu með Klaassen og samantektin er að koma inná hér að ofan þar sem ég nefni akkúrat þetta moment þegar Klaassen fer útaf.
      Pickford og Keane eru svo tilbúnir að það hálfa væri nóg, algerlega magnaðir í dag þeir félagar.
      Fannst Gana geggjaður í dag, Klaassen líka. Lookman magnaður í fyrri hálfleik en hvarf í þeim seinni. Davis inn fyrir Schneiderlin var einnig verra en skiljanlegt að taka Schneiderlin útaf í hálfleik með gult spjald.
      Þarf aðeins að melta þetta með framherjann, þe hvern ég vil til Everton í þá stöðu fyrir lokun gluggans.

  5. Ari G skrifar:

    Það væri frábært hjá Everton að kaupa Ben Gibson hjá Middlesboro 24 ára varnarmann á besta aldri kostar kannski 20 millur yrðu frábær kaup. Skil ekki að umræðan um Gibson hafi dottið niður. Leigja svo Diego Costa fram í janúar eða jafnvel næsta sumar ef illa gengur fyrir Chelsea að semja um söluverð hans til Athetic Madril. Fá þessa 2 í viðbót þá ætti Everton mjög góðan sjens að ná 4 sætinu má ekki gera of miklar kröfur of margir nýjir leikmenn þurfa að púsla þeim saman en byrjunin lofar mjög góðu. Látum ekki Arsenal plata okkur. Frábærir leikmenn hafa oft slæma galla með skapið stundum er það kostur líka með Diego Costa.

  6. Elvar Örn skrifar:

    Merkilegt að Everton gat ekki notað þennan gæja meira en raun bar vitni. Set hér samantekt úr leik Barcelona í dag. Eina var að ég taldi alltaf að hann yrði bara í 2 ár hjá okkur, jamm er að tala um Deulofeu.

    „Barcelona byrjar tímabilið í La Liga með 2-0 sigri á Real Betis.

    Alin Tosca fær skráð á sig sjálfsmark í fyrra marki Barcelona, en hann átti síðustu snertinguna á skot Gerard Deulofeu og stýrði boltanum í netið.

    Aðeins þreumur mínútum seinna, á 39. mínútu, tvöfaldaði Sergi Roberto forystu Barcelona. Sergio Leon var kominn í færi hinu megin á vellinum en Javier Mascherano stelur af honum boltanum og kemur honum fram völlinn á Delofeu sem átti stoðsendinguna inn á Roberto.

    Sigur Barcelona var aldrei í hættu en átti Real Betis ekki eitt einasta skot á markið í leiknum. Barcelona átti reyndar aðeins tvö skot á markið, en í heildina voru marktilraunirnar 15 hjá Barcelona.“