Everton – Leicester 4-2

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Englandsmeisturum Leicester á Goodison Park í bráðskemmtilegum leik en þeir voru búnir að vera eldheitir frá því að þeir ráku stjóra sinn, Claudio Ranieri, og unnið 6 leiki í röð. Töluvert var af færum í leiknum og 6 mörk litu dagsins ljós.

Uppstilling Everton: Joel, Baines, Jagielka, Pennington, Holgate, Davies, Schneiderlin, Gana, Mirallas, Barkley, Lukaku. Varamenn: Stekelenburg, Barry, Valencia, Calvert-Lewin, Lookman, Kenny, J.Williams. Gott að sjá Schneiderlin aftur í liðinu.

Fyrri hálfleikur gersamlega ótrúlegur og líklega einhver besti fyrri hálfleikur á öllu tímabilinu í ensku Úrvalsdeildinni, eins og þulurinn minntist á. Mikill hraði í leiknum, mjög hátt tempó á leikmönnum og enginn friður gefinn á bolta nokkurn tímann. Leikurinn fyrir vikið mjög skemmtilegur á að horfa.

En það tók Everton aðeins 20 sekúndur að skora. Mirallas brunaði frá miðju í átt að marki og fór framhjá hverjum leikmanni Leicester á fætur öðrum þangað til hann var felldur á D-inu. Dómarinn leyfði leiknum að halda áfram þar sem Davies náði boltanum og lagði hann fyrir sig í einni snertingu og þrumaði inn. Davies hafði gert vel í að fylgja Mirallas alla leið, í stað þess að hægja á sér og spara orkuna. 1-0 Everton.

En Leicester svöruðu strax á fjórðu mínútu þegar þeir fengu skyndisókn eftir að hafa brotið á Schneiderlin við eigin vítateig. Komust þrír á tvo varnarmenn og Slimani renndi boltanum undir Robles. Staðan 1-1.

Albrighton skoraði svo beint úr aukaspyrnu á 10. mínútu. Líklega ekki að reyna að skjóta á markið, en yfir Robles fór það og í samskeytin og inn. Þrjú mörk á innan við 10 mínútum.

Everton mun meira með boltann (um og yfir 70%), virkuðu mikið hættulegri og líklegri til að skora, þó að hættan af Jamie Vardy, sem djöflast í hverri einustu sendingu fram, væri alltaf til staðar.

En á 23. mínútu kom það sem þulurinn sagði að væri ein af fyrirgjöfum tímabilsins þegar Barkley, utan af kanti, sendi háa og fullkomna fyrirgjöf fyrir markið, beint á skallann á Lukaku. Staðan orðin 2-2 og Lukaku kominn með 12 mörk í síðustu 8 leikjum í röð.

Gueye átti langskot á 39. mínútu sem breyttu um stefnu af varnarmanni og sigldi framhjá stönginni vinstra megin í horn. Og örskömmu síðar átti Schmeichel algjörlega ótrúlega vörslu frá Barkley, sem var fremstur að hlaupa aftur og óvænt fékk boltann þegar Davies tæklaði bolta af Leicester manni. Barkley gerði allt rétt, komst framhjá Schmeichel, sem á einhvern undraverðan hátt náði að kasta sér fyrir skot á opið mark og verja í horn. Barkley trúði ekki eigin augum yfir því sem hafði gerst.

En það kom ekki að sök, því að Jagielka skoraði bara með skalla úr horninu.

3-2 fyrir Everton í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn ekki alveg jafn frantic og sá fyrri en Everton með undirtökin. Ekki fór að draga almennilega til tíðinda fyrr en á 57. mínútu þegar Everton fékk horn og boltinn féll vel fyrir Lukaku á fjærstöng og Lukaku þrumaði inn.

Schneiderlin var skipt út af á 72. mínútu fyrir Barry en eftir mark Lukaku var sigurinn aldrei í hættu, þrátt fyrir að Leicester næðu næstum því að klóra í bakkann undir lokin. Robles varði þá vel skalla á mark á 87. mínútu og Jagielka náði að hreinsa frá áður en Musa (eða einhver) potaði inn.

Ekki mikið um færi í seinni hálfleik og þannig endaði því sá leikur, með flottum 4-2 sigri Everton á Leicester. Everton þar með búið að hirða 6 stig af Englandsmeisturunum á tímabilinu og jafnframt fyrsti ósigur Craig Shakespeare með Leiceseter.

Einkunnir Sky Sports: Robles (6), Pennington (7), Jagielka (7), Holgate (7), Baines (6), Gueye (7), Schneiderlin (7), Davies (7), Mirallas (7), Lukaku (8), Barkley (8). Varamaður: Barry (6). Leicester menn flestir með 5, King með 7 en Vardy með fjóra. Barkley maður leiksins, bæði að mati Sky Sports og ensku útsendingarinnar.

12 Athugasemdir

 1. Eyþór skrifar:

  Frábær leikur hjá okkar mönnum í alla staði.Og góð barátta lika

 2. Ari G skrifar:

  Svona á Everton að spila sóknarleik. Mirallas var stórkostlegur í þessum leik loksins fékk hann tækifæri. Allt liðið var að spila vel nema mér fannst markvörðurinn eigi að verja seinna mark Leicester. Ungu strákarnar stóðu sér allir vel Davies bestur af þeim. Barkley er oftast góður núna eini gallinn hans í þessum leik að hann tapar of oft boltanum en samt góður leikur hjá honum. Jagielka er greinilega búinn að ná áttum aftur frábær leikur hjá honum. Schneiderlin kemur á miklu meira jafnvægi á leik Everton. Lukaku frábær líka.

 3. Gunnþór skrifar:

  Frábær leikur í alla staði ekki gleyma iddryssa hann var stórkostlegur eins og allt liðið.

 4. þorri skrifar:

  frábær sigur á frábærum leik hjá okkar mönnum

 5. Gestur skrifar:

  Flottur sigur hjá Everton

 6. Diddi skrifar:

  staðsetningar hjá Robles eru oft fáránlegar, en það kemur sennilega með reynslunni 🙂 mér fannst Mirallas, Gana og Schneiderlin bera af í dag og Lukaku var flottur

 7. Elvar Örn skrifar:

  Núna Live á FAcebook síðu EvertonFC er bein útsending frá leik Everton gegn Tottenham í U-23 deildinni þar sem Everton eru efstir fyrir leikinn og gríðarlega mikilvægur leikur.
  Þarna er fyrsti leikur Besic t.d. í ansi langan tíma, kíkið á leikinn.

 8. Elvar Örn skrifar:

  Flottur leikurinn gegn Leicester.
  Allir að spila mun betur en í seinustu tveimur útileikjum.
  Robles olli þó vonbrigðum í aukaspyrnunni en þulir töluðu um að óvenjulegur vindur hefði hugsanlega haft eitthvað með þetta að gera, þ.e. að hann hafi misreiknað svifið á boltanum. Get ekki sakað Robles um fyrra markið þar sem hann er vanalegast gríðarlega sterkur maður á mann, gekk bara ekki í þetta skiptið.

  Lukaku allt allt allt annar í þessum leik og smá áhygguefni að hann spilar jafnan ekki nægilega vel gegn topp liðum deildarinnar en samt sem áður er hann kominn með 23 mörk í vetur og er 4 mörkum á undan næsta manni, ansi vel gert það.

  Barkley svakalega flottur og Mirallas var á fullu allan tímann og ef ég man rétt þá fékk hann að klára leikinn sem bara gerist varla. Gana magnaður og guð minn góður hvað er gaman að sjá gamla takta hjá Jagielka, hann hefur komið mjög flottur inn í liðið aftur.

  Ansi ólíklegt að Everton komist ofar en 7 sætið en samt sem áður er það smá möguleiki og Everton hefur í raun engu að tapa þar sem þeim er nánast ómögulegt að lenda neðar en 7 sætið. Flott markatala hjá liðinu sem segir kannski enn meira um hve mikil uppsveifla er á liðinu.

  Svo styttist í nýja Everton treyju sem verður með nýjum Sponsor og því mun Chang fíllinn víkja. Eitt er víst að ég fæ mér treyjuna merkta „Sigurdsson“.

  Næsti leikur á laugardaginn heima gegn Burnley og eru nú ansi miklar líkur á að Everton nái þar sínum 8 sigri í röð á heimavelli, samt getur jú allt gerst. Vonum bara að Arsenal, United og önnur lið fyrir ofan okkur tapi stigum á móti.

 9. Elvar Örn skrifar:

  Ég veit að menn eru að missa sig pínu yfir því hvort Lukaku fari eða ekki, en staðan á Barkley er enn óljósari þar sem hann rennur út af samning eftir ár, samningurinn við Lukaku er til næstu tveggja ára.
  Mín skoðun er sú að næsta sumar og næsti gluggi er sá allra stærsti sem Everton hefur nokkurn tíman þurft að upplifa.

  Everton er samt ansi líklegt til að ná Evrópu-sæti og fátt sem kemur í veg fyrir það en sætið ofar tryggir beina þáttöku svo það er ekkert víst í þessum efnum. Sjáum hvað setur 🙂

  Já og pínu sorglegt að þegar að Everton tapar þá eru 40 comment en þegar að við vinnum Englandsmeisarana þá eru bara 10 comment, pínu dapurt.

 10. Ari G skrifar:

  Reikna með að Barkley verði áfram enda hefur hann aldrei lýst yfir að hann vilji fara. Hann var óánægður þegar hann var settur úr liðinu fyrr í vetur en það er eðlilegt enda sannur baráttumaður. Bjóðum honum 100000 pund á viku það ætti að duga að halda honum vonandi. Lukaku segir annað í dag og annað á morgun vonlaust að reikna hann út. Býst að það verði gerð lokatilboða að semja við hann ef hann fer það er slæmt en enginn er ómissandi. Ef hann fer til Chelsea vill ég fá William uppí frábær leikmaður.

%d bloggers like this: