Everton vs. Hull

Mynd: Everton FC.

Næsti leikur Everton er heimaleikur gegn Hull kl. 15:00 á laugardaginn og getur liðið með sigri náð sjötta sigurleiknum í röð í deild á heimavelli og tímabundið, að minnsta kosti, komist upp fyrir United, sem leika á sunnudaginn. Koeman sagði á blaðamannafundi að Baines væri ekki alvarlega meiddur, en hann kenndi til í baki í 3-0 sigurleiknum gegn West Brom á dögunum.

Hull sitja í fallsæti í augnablikinu en þeir fengu nýjan stjóra um áramótin og hafa náð nokkrum ágætum úrslitum síðan þá, með sigrum á t.d. Bournemouth, Swansea og Liverpool.

Úr meiðsladeildinni er það að frétta að James McCarthy er að glíma við meiðsli í lærvöðva og Yannick Bolasie og Muhamed Besic hafa verið frá til lengri tíma en aðrir ættu að vera heilir. Líkleg uppstilling því: Joel, Baines, Williams, Jagielka, Coleman, Gana, Davies, Schneiderlin, Barkley, Mirallas, Lukaku.

Það fór mjög hátt í fréttum að Lukaku hefði hafnað þeim samningi sem var á borðinu en samningaviðræður eru, að sögn, enn í gangi. Sagt var að helsta ágreiningsatriðið væri upphæð á buy-out klausu — umbi Lukaku vildi að hún væri 60-70M punda en Everton vildi að hún væri 90 milljónir punda, sem myndi gera Lukaku að dýrasta leikmanni heims. Líklega eðlilegt, ef á annað borð þarf að tilgreina upphæð í samningnum, að hún sé einhvers staðar þarna á milli, kannski bara spurning hvort menn nái saman. Ekki er þó þörf á áhyggjum enn um sinn því Lukaku er samningsbundinn Everton til sumars 2019. Þess má svo geta að samningar við eigendur landskikans, sem Everton vill byggja nýjan völl á, ganga hins vegar betur — ef marka má þessa frétt.

Það er jafnframt gaman að segja frá því að Barkley var aftur valinn í enska landsliðið enda hefur enginn enskur leikmaður skapað jafn mörg færi á tímabilinu í Úrvalsdeildinni og Barkley (64 talsins), skv. OptaJoe. Og aftur eru farnar að heyrast raddir um að haga eigi landsliðinu svo henti hæfileikum Barkley. Gott að sjá að Barkley svaraði því að vera settur á bekkinn, fyrr á tímabilinu, eins og atvinnumanni sæmir: með góðri frammistöðu á velli.

Í öðrum fréttum er það helst að Idrissa Gana Gueye hefur nú skákað N’Golo Kante og unnið flestar tæklingar í Úrvalsdeildinni á tímabilinu, þrátt fyrir að hafa misst af nokkrum leikjum vegna Afríkukeppninnar. Og enn er Everton orðað við Gylfa Sigurðsson.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U23 unnu dramatískan sigur á Derby 2-3 (sjá vídeó) eftir að hafa lent 2-1 undir. Mörk Everton skoruðu Bassala Sambou, Liam Walsh (víti) og David Henen. Everton er sem fyrr í efsta sæti deildarinnar með fimm stiga forskot á næsta lið þegar þrír leikir eru eftir.

Everton U18 unnu svo Middlesbrough U18 2-1 með mörkum frá Jack Kiersey og Daniel Bramall. Þeir eru nú í öðru sæti B riðils eftir einn leik í lokahnykk deildarkeppni U18 ára liðsins.

En, Hull næstir á laugardaginn kl. 15:00. Leikurinn er ekki sýndur í beinni.

7 Athugasemdir

 1. Gestur skrifar:

  Koeman virðist ætla að nota Lukaku á morgun gegn Hull sem er vonandi gott og er komið að mér að spá fyrir leikinn. Ég spái 4-0 fyrir Everton og Lukaku með þrennu og afsannar allt sem ég hef verið að segja og Barkley setur eitt. Everton nær 6 sætinu á morgun.

 2. Ari S skrifar:

  Sammála þér Gestur við vinnum þetta 4-0 og Lukaku með þrennu…

  Ég var einu sinni voðalega mikið að hafa áhyggjur af því í hvaða sæti Everton væri og svo framvegis.. núna í dag þá lít ég á stigin og sigrana meira svona hvert og hvern fyrir sig. Nýt þess þegar Everton sigrar(nýt þess vel og lengi) og öfugt.. verð dapur þegar Everton tapar (en bara í stuttan tíma) Tökum einn leik í einu… og í sambandi við að hækka okkur í töflunni þá tökum við eitt lið í einu þar…. fyrst Manchester united og svo Arsenal… hehe. Gleðilegan laugardag félagar og vinir 🙂

 3. Diddi skrifar:

  höfum séns á að þokast upp töfluna, þá töpum við. Vera svartsýnn, þá verður maður síður fyrir vonbrigðum 🙁

 4. Gunni D skrifar:

  Þurfum baaara 6-0 (tvær þrennur frá Lukaku) til að komast upp fyrir Arsenal og í fimmta sætið.

%d bloggers like this: