Everton vs. West Brom

Mynd: Everton FC.

Áður en lengra er haldið er rétt að minna á síðustu forvöð að skrá sig í Íslendingaferðina á sjá Everton mæta Burnley á Goodison Park í næsta mánuði.

Everton á heimaleik við West Brom á morgun kl. 15:00 en þeir eru fjórum stigum neðar en Everton og sitja nú í 8. sæti. Sigur á morgun yrði fimmti sigurleikur Everton í deild í röð á heimavelli en liðið á flottan séns á að skilja sig frá liðunum fyrir neðan og auka þar með líkurnar á að lenda ekki neðar en í 7. sæti. Það sæti mun, að öllum líkindum, — ef óvænt lið vinnur ekki FA bikarinn — gefa sæti í Evrópukeppninni.

Það er yfirlýst markmið Koeman fyrir tímabilið að ná Evrópusæti á sínu fyrsta tímabili, sem væri mikil framför frá síðustu tveimur tímabilum og gefur Everton færi á að keppast um betri leikmenn á leikmannamarkaði. Sigur á morgun og í næsta leik, sem er heimaleikur gegn Hull, myndi auk þess setja fína pressu á liðin fyrir ofan Everton og minna á að það er ekkert gefið eftir í baráttunni um fjórða sætið og ofar.

Með sigri á morgun jafnar Everton lokastigafjölda síðustu tveggja tímabila undir stjórn Martinez en enn eru 33 stig í pottinum á þessu tímabili þannig að það er erfitt að halda því fram að ekki sé um mikla framför að ræða. Síðasti tapleikur Everton var auk þess sá fyrsti í 10 leikjum á meðan Liverpool liðið hefur verið í frjálsu falli á árinu, Arsenal liðið er með sín vandamál og United hafa verið að tapa þó nokkuð af stigum á heimavelli þannig að það er aldrei að vita hvað er mögulegt.

En þetta verður erfiður leikur á morgun því West Brom kunna að mæta á Goodison Park og taka stig en Everton hefur ekki sigrað West Brom í síðustu þremur tilraunum á heimavelli: tvö jafntefli og eitt tap niðurstaðan — og Everton ekki náð að skora mark.

Besic er óðum að nálgast fyrra form og ungliðinn Dominic Calvert-Lewin er laus við sín meiðsli. Bolasie því sá eini sem verður fjarverandi. Líkleg uppstilling því: Robles, Baines, Funes Mori, Williams, Coleman, Gueye, Schneiderlin, Davies, Mirallas, Barkley, Lukaku. Hjá West Brom er Matt Phillips enn meiddur.

Í öðrum fréttum er það helst að Lukaku er búinn að skora 78 mörk í ensku Úrvalsdeildinni, en aðeins þrír leikmenn í sögu þeirrar keppni hafa náð að skora fleiri mörk áður en þeir urðu 24 ára og til gamans má geta að Ronaldo er ekki þar á meðal — hann náði einu færri (77 mörk).

Af ungliðunum er það að frétta að…

  • Everton U18 töpuðu í Liverpool Senior Cup fyrir Litherland Remyca, 1-0, í fjórðungsúrslitum bikarkeppninnar en unnu Wolves U18 3-2 (sjá vídeó) í deild með mörkum frá Tom Scully, Korede Adedoyin og Daniel Bramall. Með sigri tryggðu þeir sér þátttöku á næsta stigi í átt að Englandsmeistaratitlinum.
  • Ekki mikið að frétta af U23 ára liðinu sem er enn efst í ensku Premier League 2 deildinni, með þriggja stiga forskot á næsta lið þegar aðeins fjórir leikir eru eftir.
  • Og Liam Walsh var kjörinn leikmaður mánaðarins í ensku Premier League 2 (U23 ára).

En, West Brom eru næstir á morgun klukkan 15:00. Leikurinn er ekki í beinni útsendingu.

Við minnum einnig á að fresturinn til að skrá sig í Íslendingaferðina í apríl er við það að renna út.

5 Athugasemdir

  1. Teddi skrifar:

    Fín upphitun.

    Þessi ekki frétt var að koma í hús.
    Everton vinnur 1-0 með marki Baines (v)
    Hann tekur vítið þar sem Lukaku verður skipt útaf með tognun í læri.
    Bless í bili.

  2. þorri skrifar:

    nokku góð spá hjá þér Teddi.

  3. Diddi skrifar:

    pulis pakkar og tekur okkur í þessum leik. Ef Koeman eyðileggur ekki leikinn fyrirfram með hræðsluuppstillingu eins og í síðasta leik þá getur þetta farið vel fyrir okkur. Verðum að skora fyrsta markið. Eiginlega algjört möst á móti liðum pulis

    • Elvar Örn skrifar:

      Diddi með sökk spámennsku að vanda 🙂
      Byrja með Gana í stað Barry, annars sáttur.

      • Diddi skrifar:

        hebbbbði nú verið gaman að sjá þig spá einu sinni fyrir leik 🙂
        annars sammála, Gana átti að byrja en sigur er nr. 1