Everton – Bournemouth 6-3

Mynd: Everton FC.

Níu marka háspennuleikur að baki þar sem Lukaku fór hamförum á vellinum og skoraði fjögur mörk. Everton virtist ætla að hleypa Bournemouth inn í leikinn um miðbikið þegar staðan fór úr 3-0 í 3-2 en gaf svo í undir lokin og raðaði inn mörkunum.

Uppstillingin í leiknum: Robles, Baines, Funes Mori, Williams, Coleman, Barry (fyrirliði), Schneiderlin, McCarthy, Lookman, Barkley, Lukaku. Varamenn: Stekelenburg, Jagielka, Mirallas, Gana, Valencia, Davies, Holgate. Sem sagt: 4-4-2 uppstilling, en eitthvað breytileg þegar Everton vann boltann.

Everton mætti til leiks af mikilli ákefð og einbeitingin skein af þeim. Þeir settu strax góða pressu á Bournemouth og uppskáru eftir því en Lukaku kom Everton yfir áður en mínúta var liðin. Stutt þríhyrningaspil utan teigs og boltinn endaði svo hjá Lukaku utan teigs sem þrumaði honum inn við fjærstöngina. Everton með undirtökin í fyrri hálfleik og betra liðið. Svo til ekkert að gera hjá Robles í markinu.

Ademola Lookman, í sínum fyrsta byrjunarleik með aðalliðinu, lék laglega á varnarmann Bournemouth á 10. mínútu og komst inn í teig vinstra megin en skotið rétt framhjá fjærstöng.

Everton náði að bæta við marki á 24. mínútu. Lukaku komst inn í teig hægra megin, sólaði tvo og komst upp að marki. Gaf þá út í teig þar sem McCarthy kom hlaupandi og skaut að marki en blokkerað af varnarmanni. Frákastið beint á McCarthy sem var fljótur að hugsa og þurfti bara að pota inn því markvörður var búinn að kasta sér í jörðina. 2-0 fyrir Everton.

Það næsta markverða var að Everton komst í skyndisókn stuttu síðar og miðvörðurinn Ashley Williams, af öllum mönnum, var mættur fremstur. Fékk boltann frá Lukaku en miðvörður Bournemouth náði að hlaupa hann upp áður en hann náði skoti. Hefði verið eitthvað að sjá það gerast.

En það kom ekki að sök því Everton komst í 3-0 áður en hálftími var liðinn af leiknum og það mark fékk Lukaku á silfurfati. Bakvörður Bournemouth reyndi sendingu á markvörð sinn en sá ekki að Lukaku lúrði í teignum og fékk boltann beint til sín. Hann þakkaði fyrir sig og vippaði yfir markvörðinn. Staðan 3-0.

Coleman komst í ágætis færi á 43. mínútu þegar Everton tók aukaspyrnu fljótt og sendi háan bolta inn í teig. Coleman tók hann niður og þrumaði á mark en markvörður varði.

Robles varði svo sitt fyrsta skot, djúpt í uppbótartíma fyrri hálfleiks, sem segir ákveðna sögu um martröðina sem Bournemouth voru að upplifa í fyrri hálfleik.

Staðan 3-0 í hálfleik.

Þulurinn minntist á það í hálfleik að Bournemouth gætu verið í damage-limiting-mode í seinni hálfleik en það var ekki að sjá af þeirra spili enda þekktir fyrir annað og gefast aldrei upp. Þeir stokkuðu þessu bara aðeins upp hjá sér, breyttu úr þriggja manna vörn í fjögurra, náðu að halda boltanum mun betur en Everton (60 og eitthvað prósent fyrstu tuttugu mínúturnar) og setja sterka pressu á Everton.

Það var þó Everton sem átti fyrsta færið þegar Barkley átti flott hlaup og skot á 51. mínútu en skotið blokkerað af varnarmanni og endaði næstum í samskeytunum en fór rétt framhjá og í horn.

En þá var komið að sterkum kafla hjá Bournemouth þegar þeir skoruðu einfalt mark á 60. mínútu sem gaf þeim von. Há sending milli miðvarðanna okkar, sóknarmaður þeirra, King, tók hann á kassann og skaut framhjá Robles. Staðan 3-1.

McCarthy skipt út af fyrir Tom Davies á 61. mínútu.

Robles þurfti að taka á honum stóra sínum á 69. mínútu þegar Bournemouth maður náði að stinga sér inn fyrir vörnina en Robles fljótur út og lokaði á hann. En það var bara viðvörunarbjalla því Bournemouth komu tuðrunni í netið innan við mínútu síðar. Annað einfalt mark, fyrirgjöf frá hægri og King aftur mættur og potaði inn. Staðan 3-2. Mirallas skipt inn á fyrir Lookman í kjölfarið.

En ákefð Bournemouth jókst er á leið og tvisvar þurfti Robles að verja glæsilega. Maður var með lífið í lúkunum að horfa á þetta, minnugur Bournemouth leiksins gamla undir stjórn Martinez. En Koeman sá hvað var í uppsiglingu og gerði breytingu. Skipti Barry út af fyrir Mason Holgate á 80. mínútu og fór í fimm manna vörn.

Leikur Everton batnaði töluvert við þetta og innan við þremur mínútum síðar var Everton aftur komið í tveggja marka forystu. Lukaku fékk boltann utan teigs, sendi upp kantinn til hægri á Coleman sem sendi boltann strax háan fyrir mark þar sem Lukaku var mættur og þrumaði inn. 4-2 Everton og Lukaku kominn með þrennu í leiknum.

Og var hann hættur? Hah, alls ekki! Lukaku og Barkley áttu flot samspil á miðjunni þar sem Barkley sá um stungusendingu inn fyrir vörnina með flottri hælsendingu. Lukaku náði að hrista miðvörðinn af sér og þrumaði fram hjá markverði. 5-2 fyrir Everton. Þvílíkur leikur hjá Lukaku!

Bournemouth áttu hins vegar það sem maður hélt að væri lokaorðið í leiknum rétt undir lokin þegar Arter lagaði stöðuna örlítið með marki. Staðan 6-3 og lítill tími eftir.

En þetta var alls ekki búið því boltinn gekk markanna á milli og Barkley náði tvisvar að komast í skyndisókn undir lokin. Í fyrra skiptið stal hann boltanum af Bournemouth, sem voru í bullandi sókn, og brunaði óáreittur upp vinstri kantinn og sendi hann á Lukaku fremstan í dauðafæri en miðvörður náði að hlaupa hann uppi. En í seinna skiptið var Barkley fremstur, fékk langa sendingu fram völlinn úr vörninni, lék á markvörð, fagnaði aðeins í átt að Park End stúkunni og kom svo boltanum í netið. 6-3 lokastaðan.

Chelsea styrkti stöðuna á toppnum með sigri á Arsenal og Oumar Niasse að tryggja Hull sigur á Liverpool. Everton að saxa forskot þeirra um þrjú stig. Spurning hvort Manchester liðin og Tottenham tapi stigum. Getur allt gerst!

Einkunnir Sky Sports: Robles (8), Coleman (7), Williams (7), Funes Mori (6), Baines (6), Barry (6), Schneiderlin (7), McCarthy (7), Barkley (8), Lookman (8), Lukaku (9). Varamenn: Mirallas (6), Davies (6), Holgate (6). Bournemouth með fimmur og sexur mest megnis. Einn með fjóra og einn 8. Lukaku að sjálfsögðu maður leiksins!

42 Athugasemdir

 1. Gunnþór skrifar:

  Skil ekki alveg uppstillinguna en sterkt lið pínu varnarsinnað svo ekki sé meira sagt.

 2. Ari S skrifar:

  Fín uppstilling og vonandi er Barry sprækari í sínum leik þegar hægt er að hvíla hann aðeins meira en áður. Ég hef hugsað það áður en segi það samt aftur að núna er að duga eða drepast fyrir McCarthy, orðinn miklu meiri samkeppni um stöður á miðjunni og það verður fróðlegt að sjá hvernig hann kemur út hjá okkur næstu mánuðina. Verður hann bekkjasetumaður eða mun hann fara…? Sættir hann sig við að vera „squad“ player?

  Er þetta ekki fyrsti byrjunarliðsleikur hjá Lookman? Ótrúlega þægileg tilfinning að hafa þessa menn á bekknum að hafa slíka breidd er mjög gott.

  Stekelenburg, Jagielka, Mirallas, Gana, Valencia, Davies, Holgate… ekki slæmur bekkur.

  Kær kveðja, Ari.

  • Einar Gunnar skrifar:

   Spennandi tímar hjá Lookman, gaman að sjá hann byrja í dag!
   Sé fyrir mér að það verði þreföld skipting hjá okkur, Gueye, Davies og Mirallas komi inn á.
   Tek undir með Ara að McCarthy þarf að stíga upp í þessum leik. Koma svo!!

 3. Orri skrifar:

  Mer list bara vel a thetta.Eg spai 4-0.

 4. GunniD skrifar:

  Munið að það voru einmitt Bournemouth sem slógu okkur í jörðina eftir 4 sigurleiki í röð í deildinni í haust,er annars bjartsýnn.

 5. Einar Gunnar skrifar:

  Yess!!!

 6. Gunnþór skrifar:

  Vel gert flott 3 stig í dag klárlega batamerki á liðinu.

 7. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Hvað í andskotanum er að gerast??!!
  Ég hef á tilfinningunni að við séum að fara að klúðra þessu ??

 8. Ari S skrifar:

  Jæja 4-2

 9. GunniD skrifar:

  Þeir kunna svo sannarlega að spila á taugar manns þessir gaurar!!!!

 10. Eiríkur skrifar:

  Romelu Lukaku og Oumar Niasse 🙂

 11. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þvílíkur leikur!!

 12. GunniD skrifar:

  6 stig í liverpool og 7 í Arsenal!!!!!

 13. Ari S skrifar:

  Ég vil allann daginn 6-3 frekar en 3-0 til hamingju með daginn Everton félagar 🙂

 14. GunniD skrifar:

  Og Oumar vinur okkar kláraði púllarana.

 15. Finnur skrifar:

  Enn í skýjunum yfir þessum úrslitum. Algjörlega brilliant. Leikmenn Everton skoruðu átta mörk í umferðinni. Geri aðrir betur. 🙂

 16. Gunnþór skrifar:

  Frábær úrslit í dag félagar vonandi verðum við komnir í fjórða sætið þegar við förum út.

 17. Finnur skrifar:

  Og greyið Jack Rodwell, sem við seldum fyrir fullt af pening til City, að enda eyðimerkurgöngu sína í Úrvalsdeildinni. Samtals 1370 dagar án sigurs ef hann er í byrjunarliðinu. Spáið í það… Þrjú ÁR, átta mánuðir og 29 dagar.

  Og nær hann að fagna í lokin? Nei, hann fór út af meiddur. Ég hefði ekki einu sinni getað skáldað þetta þegar hann var seldur.

  • Finnur skrifar:

   … hvað þá að okkar fyrrum félagi, Tim Cahill, myndi ná að fá rautt í upphitun áður en honum er skipt inn á! Það er afrek. 🙂
   http://www.bbc.com/sport/football/38867390

   Það voru greinilega samantekin ráð hjá Everton leikmönnum núverandi og fyrrverandi að komast í fréttirnar þessa helgina — sem betur fer flestir á jákvæðan hátt, þó. 🙂

 18. Finnur skrifar:

  Sé ekki betur en að Lukaku sé orðinn markahæstur í deildinni:
  https://www.premierleague.com/stats/top/players/goals?se=54

 19. Orri skrifar:

  Eg horfdi a leikinn med Ara S og vid hofdum mikid gaman af leiknum enda var Everton betra lidid I dag Lukaku var okkar besti madur i dag eins og oft adur.Er thetta ekki allt ad smella hja okkur.Og thad var ekkert leidinlegt ad Liverpool skildi tapa I dag madur sefur hefur I nott fyrir vikid.

 20. þorri skrifar:

  sælir félagar. ég er mjög kátur með þetta.En mér finnst óþafri að fá á okkur þessi mörk og það á heimavelli og það í seinnihálfleik.En heildina séð frábært að sigra og Lukaku með 4 er frábært. Þetta verður svona og við förum í 4 sætið spái ég

 21. marino skrifar:

  að niasse hafi endalega kaffært liverppol gerir þetta dasamlegt 🙂

 22. Ari G skrifar:

  Höldum okkur niður á jörðunni. Erum greinilega með góðan stjóra og frábæran hóp. Ef Everton spilar áfram vel að vísu voru þeir ekki góðir á móti Stoke en jafntefli er betra en ekkert. SPái að Everton keppi um 4 sætið ef Lukaku meiðist ekki. Er mjög hrifinn að kaupa bæði unga og reynda leikmenn góð blanda. Hef mikla trú á Lookman hef lítið séð af honum en ég sá strax að hann hefur mikla hæfileika. Uppáhaldsleikmaður minn hjá Everton er núna Barkley stórkostlegur leikmaður ef hann vandar sendingar sínar betur þá á hann að eftir að vera stórstjarna og ef hann meiðist ekki .

  • Ari S skrifar:

   Ég er sammála þér nafni ég skil hvað þú meinar með að halda okkur á jörðinni. Ég er mikið til hættur að skrifa um hvar við getum endað í lokin þó að sjálfsögðu hugsa ég um það. Ég er meira svolítið þannig að ég nýt hvers leiks fyrir sig og nýt þess að við erum með góðan stjóra sem er að bæta liðið bæði með góðum kaupum og svo flottri taktík. Ég naut þess mjög mikið að horfa á leikinn í gær með honum Orra vini mínum og núna er ég nývaknaður á Sunnudagsmorgni og er að fara að horfa á 20 minutes highlights á Everton official síðunni. Þetta er yndislsegt Everton líf sem við lifum þessa dagana og við færum okkur stöðugt ofar og ofar í töflunni…. Carpe Diem! Og ég elska Lukaku!

 23. Halli skrifar:

  Flottur sigur hjá okkar mönnum ì dag. EN HVAR ER STEINI

 24. Gestur skrifar:

  Flott úrslit hjá Everton. Ég sá ekki leikinn en Koeman er greinilega að gera flotta hluti samt sammála með að það var algjör óþarfi að fá á sig þrjú mörk

 25. Finnur skrifar:

  Lukaku í liði vikunnar að mati BBC:
  http://m.bbc.com/sport/football/38873741

 26. Ingvar Bæringsson skrifar:

  ég skal fúslega éta ofan í mig allt sem ég hef áður sagt um Lukaku.
  Mín vegna má hann planta hægindastólnum sínum í vítateig andstæðinganna ef hann bara heldur áfram að skora.

 27. Ari S skrifar:

  http://www.dailymail.co.uk/sport/football/article-4199474/Tom-Davies-wins-Fans-Premier-League-Player-Month.html

  Tom Davies leikmaður mánaðarins kosinn af stuðningsmönnum liða á Englandi.

  Vel gert Tom Dvaies!

 28. Diddi skrifar:

  https://www.nsno.co.uk/everton-news/2017/02/lukaku-set-sign-new-everton-deal-says-agent/ Giska á að þetta birtist ekkert mjög fljótt á fotbolti.net, og að Steini fari ekkert að tjá sig um þetta hérna.

  • Diddi skrifar:

   undur og stórmerki, fréttin er tímasett kl 14, en í henni segja þeir að Lukaku sé kominn með 14 mörk í úrvalsdeild. Ég sendi þeim eftirfarandi: Lukaku er kominn með 16 mörk í úrvalsdeild aular 🙂

%d bloggers like this: