Crystal Palace – Everton 0-1

Mynd: Everton FC.

Það reyndist erfitt að brjóta vörn Palace á bak aftur en með mikilli þolinmæði hafðist það þegar Coleman skoraði rétt undir lokin. Um tíma leit út fyrir að Hennessey í marki Palace myndi standa uppi sem maður leiksins og koma því til leiðar að þetta væri steingelt 0-0 jafntefli því Palace menn buðu ekki upp á mörg færi á sínum eigin heimavelli, með aðeins eitt skot sem rataði á mark. En Everton hafði þetta með marki í lokin og gaman að segja frá því að fjórir Íslendingar voru á okkar vegum á pöllunum með hinu Everton fólkinu. 🙂

Uppstillingin: Robles, Baines, Funes Mori, Williams, Holgate, Coleman, Barry (fyrirliði), Davies, Mirallas, Barkley, Lukaku. Varamenn: Stekelenburg, Schneiderlin, Jagielka, McCarthy, Valencia, Oviedo, Lookman.

Róleg byrjun á leiknum og ekki mikið um færi til að byrja með.

Benteke fékk besta færi Palace í fyrri hálfleik á 7. mínútu og var næstum búinn að koma þeim yfir eftir fyrirgjöf frá vinstri en hann skallaði í slána.

Tvö skot á mark fylgdu i kjölfarið frá Everton sem rötuðu á rammann, Mirallas átti það fyrra á 15. mínútu og Barkley það seinna á 19. mínútu. Bæði skotin varin í horn en það fyrra krafðist meistaralegrar vörslu frá Hennessey.

Everton liðið meira með boltann, sterkara liðið í fyrri hálfleik og náðu oft góðri pressu á Palace sem sátu djúpt og buðu Everton að koma hátt upp völlinn. Svo hátt að það var ekkert óvenjulegt að sjá bæði bakverðina og miðverðina taka virkan þátt í sóknarleiknum.

Everton náði að koma boltanum í netið á 34. mínútu þegar Lukaku átti skot í innanverða stöng og boltinn barst til Barkley sem skoraði í autt markið en réttilega dæmdur rangstæður.

Funes Mori náði svo frábæru föstu skoti á mark innan teigs á 35. mínútu en aftur varði Hennessey meistaralega í markinu þar sem boltinn stefndi upp í samskeytin vinstra megin.

0-0 í hálfleik, og fyrst og fremst Hennessey í marki Palace að þakka að markalaust var í hálfleik.

Engar breytingar á liðunum í hálfleik en Everton átti fínan byrjun á seinni hálfleik. Mirallas strax með skot utan teigs á mark (varið) og Lukaku komst stuttu síðar upp að endamörkum en skaut rétt framhjá markinu.

Everton komst í skyndisókn á 56. mínútu með Barkley og Lukaku fremsta. Barkley með boltann, náði að hlaupa inn í autt svæði og inn í vítateig, skapaði sér þar með færi hægra megin í teig og tók ákvörðun um að skjóta (sem var líklega rétt með Lukaku tilbúinn í uppsópið) en boltinn rétt framhjá fjærstönginni.

Lukaku komst í skallafæri eftir bæði góðan undirbúning frá Holgate og svo fína fyrirgjöf frá Coleman en skallaði boltann rétt yfir markið.

Schneiderlin skipt inn á fyrir Barry á 58. mínútu.

Barkley átti skot á mark af löngu færi (utan teigs) á 64. mínútu en Hennessey enn vel á verði. Lookman var svo skipt inn á á 72. mínútu fyrir Mirallas og það tók hann innan við mínútu að ná sínu fyrsta skoti á mark í leiknum en skotið ekki nógu fast og þar að auki beint á Hennessey.

Sóknarbylgjurnar skullu hver á fætur annarri á vörn Palace en ekki gekk Everton að finna netið lengi vel. Palace með ekkert skot sem rataði á markið allan leikinn. Þeir fundu það þó loks á 78. mínútu þegar þeir fengu aukaspyrnu á hættulegum stað. Scott Dann náði skalla á mark og Robles þurfti að taka á honum stóra sínum í fyrsta skipti í leiknum og verja í utanverða stöng og horn. Þetta minnti mann á að þó Everton væri búið að liggja í sókn allan leikinn þá þurfti ekki nema smá einbeitingarleysi til að fá á sig mark og tapa leiknum.

En Everton náðu loksins að koma boltanum framhjá Hennessey á 87. mínútu. Everton höfðu verið manni fleiri í nokkrar mínútur eftir að Schlupp meiddist og endaði liggjandi utan vallar. Áhorfendur brjálaðir yfir því að Everton hætti ekki að spila, en þegar engin ástæða var til þess — Schlupp utan vallar og Sam Allardyce skipti ekki manni inn á í staðinn. Þeirra mistök — reglurnar segja að dómari geti leyft leiknum að halda áfram ef leikmaður er lítillega meiddur og Schlupp virtist aðeins vera að glíma við krampa í leggjunum. Mark Everton kom eftir að Tom Davies sendi á Coleman hægra megin í teignum og Coleman tók sér eina snertingu til að komast nær marki og þrumaði svo yfir Hennessey í markinu. Coleman þar með orðin næst-markahæstur í liðinu með fjögur mörk.

Jagielka skipt inn á fyrir Barkley á 92. mínútu. Koeman klárlega að loka sjoppunni og Palace lögðu allt í sölurnar að jafna en vörn Everton stóðst pressuna.

1-0 fyrir Everton lokatölurnar.

Einkunnir Sky Sports: Robles (7), Holgate (7), Ashley Williams (7), Funes Mori (7), Coleman (8), Davies (6), Barry (6), Barkley (8), Baines (7), Mirallas (6), Lukaku (6). Varamenn: Schneiderlin (5), Jagielka (n/a), Lookman (5). Ross Barkley maður leiksins en hjá Palace voru Hennessey og Remy bestir með 8, restin 6-7.

36 Athugasemdir

 1. Haraldur Haraldsson skrifar:

  Klassa lið!

 2. þorri skrifar:

  ég held það nú, Sáu einnhver Liverpool taba fyrir Hömrunum áðan

 3. Ari S skrifar:

  Eftir þessa markvörslu eftir skalla frá Benteke vil ég engan annan en Robles í markið.

 4. Einar Gunnar skrifar:

  Algjörlega frábært – 9 mörk í síðustu 3 deildarleikjum og 9 stig!

 5. Ari S skrifar:

  Sælir, það er komið í ljós eftir þennan leik að við höfum heimsklassamarkmann í okkar röðum. Virkilega flottur leikur hjá honum í dag og það var ekki síst honum að þakka að við unnum í dag. Ég vil ekki sjá að versla nýjan markmann, allavega alls ekki núna í janúar.

  Kær kveðja og til hamingju með stigin þrjú Everton vinir og félagar,

  Ari

  • Finnur Thorarinsson skrifar:

   Robles átti mjög flottan leik í dag og þegar virkilega reyndi á (í eina skiptið í leiknum eiginlega) þá var hann með einbeitinguna algjörlega í lagi — sem er erfitt fyrir markverði sem hafa lítið að gera, eins og í dag. Hann fær fullt kredit fyrir það.

   En, sama hvaða markvörður er á milli stanganna þá myndi ég ekki segja að leikurinn í dag (eins og hann spilaðist), sé góður mælikvarði á getu okkar markmans. Ég lærði eiginlega — satt best að segja — miklu meira um hvað Hennessey getur í marki Palace — án þess að ég taki neitt frá Robles og hans frammistöðu. Enda fékk Hennessey hærri einkunn en Robles.

   En burtséð frá því… Við erum með tvo ágætis markmenn sem eru að berjast um eina stöðu. Heimsklassa markvörður er, hins vegar — að mínu viti, sá sem reglulega ver skot sem manni finnst þeir eiginlega ekki eiga hafa neitt leyfi til að ná að verja. Sá sem leik eftir leik kemur í veg fyrir — upp á sitt einsdæmi — að liðið tapar stigum og allir vita að markvörðurinn á bekknum er ekkert nema varaskeifa sem á ekki séns í að koma inn á. Ég veit ekki enn hvort Stekelenburg eða Robles mun ná yfirhöndinni og vissulega eiga íþróttamenn það til, með aukinni samkeppni, að vaxa inn í svona hlutverk en ég held við eigum svolítið í land með nákvæmlega þetta ennþá. En ég styð þá báða enda væri það frábært ef þeir næðu því, því þá þyrfti ekki að hugsa um það meira.

   • Diddi skrifar:

    Robles var maður leiksins að mati fotmob

   • Ari S skrifar:

    Þetta er mjög skrýtið innlegg hjá þér Finnur. Robles var frábær í þessum leik og þú gerir lítið úr leik hans með því að benda á að hann var eiginlega bara góður einu sinni.. í meistaramarkvörslunni… 😉

    Staðsetningar markmanns eru sennilega aðalatriðið í leik hans. Ef að markvörður ver frábærlega vel þá getur allt eins verið aðhann hafi verið rangt staðsettur og ÞESS vegna þurft að skutla sér lengra til þess að verja. Furðulegur pistill hjá þér verð ég að segja… 😉

    Getur ekki verið að Robles hafi þótt góður í þessum leik vegna þess að staðsetningar hjá honum voru góðar? Hann var öruggur í teignum líka.

    Kær kveðja,

    Ari

    ps, víst var þessi leikur góður mælikvarði á getu hans að mínu mati og það er vegna þess að þetta er annar leikurinn í röð sem hann sýnir góðan leik. En hey þetta er bara mín skoðun og hún þarf ekkert endielga að vera rétt… 😉

    • Finnur skrifar:

     Ég byrjaði mitt innlegg á að segja að Robles hefði átt mjög flottan leik og veit ekki alveg hvar þú lest úr mínum orðum að ég hafi gert lítið úr honum. Hann varði meistaralega einu sinni og greip oft fyrirgjafir og hornspyrnur frá Palace sem létti pressunni af okkar mönnum. Mjög kærkomið og vel gert hjá honum. Eins mikið og mig langar að sjá Robles gera vel þá er ég samt ekki tilbúinn að setja heimsklassa stimpilinn á hann. Við þekkjum svoleiðis kauða mjög vel… https://www.youtube.com/watch?v=Mdd1vIcEmME

     Það reyndi ekki mikið á Robles í leiknum og nægir kannski að benda á (eins og ég gerði) að hann fékk lægri einkunn í leiknum en markvörður Palace, sem _virkilega_ reyndi á í þessum leik. Það er þó enginn áfellisdómur yfir Robles sem á mjög svo skilið að halda áfram í markinu. Hann hefur leikið 7 leiki í röð, reyndar fengið á sig 5 mörk en samt haldið hreinu fjórum sinnum. Til samanburðar þá var Stekelenburg (frá og með tapleiknum gegn Norwich í bikarnum) ekki að halda hreinu nema tvisvar í 13 leikjum (gegn West Ham og gegn Liverpool, þangað til hann meiddist).

     En, ég styð Robles alla leið og vel það ef hann vill (og nær) að stíga upp og ná Neville Southall statusnum hjá Everton.

     • Ari S skrifar:

      Ég sagði EKKI að þú hefðir gert lítið úr honum, heldur leik hans. Ég legg mikið upp úr því að rugla þessu tvennu EKKI saman! Lestu þetta aftur og þá skilur þú mig betur. Þú geir lítið úr leik hans í ÞESSUM leik. Það er staðreynd. Ekkert persónulegt.

     • Finnur skrifar:

      Nei, ég skildi þig ágætlega. Þegar ég skrifaði „gera lítið úr honum“ þá hugsaði ég „gera lítið úr leik hans“. Og ég er eiginlega alls ekki sammála því að ég hafi verið að gera lítið úr hans leik. Þvert á móti — ég sagði að hann hefði átt flottan leik. Mér fannst ég bara ekki læra mikið nýtt um Robles af þessum leik, enda var nánast ekkert að gera hjá honum. Ég hef þegar séð að hann er góður shot stopper og hann var með fínar staðsetningar í leiknum en bottom line: hann fékk bara eitt skot á rammann, sem hann varði glæsilega. Leynist heimsklassa markvörður í honum? Kannski. Ég þarf bara meira en eitt varið skot til að fara að kalla hann heimsklassa markvörð. Þú virðist ekki þurfa það og það er alveg í góðu lagi. Ég er ekki að neyða þig til að vera sammála mér enda er það algjört aukaatriði.

      Kannski betra að útskýra með dæmi… Ég væri að gera lítið úr Robles ef ég segði að hann hefði verið ömurlegur í leiknum og næstum kostað Everton stigin þrjú. En að segja að ég sé ekki tilbúinn að setja á hann heimsklassa stimpil eftir að hafa séð hann verja eitt skot í leiknum… það er ekki verið að rakka neinn niður með því. Þetta heitir væntingastjórnun.

   • Gunnþór skrifar:

    Sammála þessu Finnur.

 6. Teddi skrifar:

  Seamus for president!

 7. GunniD skrifar:

  Það styttist óðum Manchester liðin……….

 8. RobertE skrifar:

  Svo ég vitni í hann Óðinn „Helvítis koníakið“
  Þessi Hennessy ver allt sem kemur á markið, en mikið sem bæði liðin spiluðu vel, Robles að verja vel og vörnin að stoppa sóknir sem hefði getað endað með marki. Er hann Steini alveg hættur að tjá sig hérna? Lét vel heyra í sér þegar Everton gerði jafntefli við Swansea en grefur sig í holu þegar Liverpool tapar fyrir Swansea…

 9. Gunnþór skrifar:

  Frábær 3 stig????
  ???

 10. Elvar Örn skrifar:

  Magnaður sigur.
  Flott frammistaða hjá Everton, vörnin orðin ansi solid. Robles með geggjaða markvörslu og var eins og kóngur í föstum leikatriðum Palace manna.
  Coleman orðinn næst markahæstur í Everton með 4 mörk, magnaður í þessum leik. Voru ekki einhverjir hér á spjallinu sem vildu hann burt?

  Farið að styttast í liðin fyrir ofan okkur og allt getur gerst.

  Er að fara á Stoke – Everton eftir rúma viku og gaman að segja frá því að ég fæ miða á leikinn og 1.5 klst rútuferð frá Liverpool (og til baka) á 50 pund, eigum við að ræða það eitthvað? Full rúta af Everton aðdáendum, shiii hvað ég er spenntur. Ef allt gengur eftir gætum við verið komnir með tengilið á útileiki Everton í framtíðinni. Þarf að finna góða gjöf fyrir manninn (einhver tillaga Finnur?) til að tryggja þessi tengsl. Læt vita hvernig þetta kemur út.

  • Finnur Thorarinsson skrifar:

   > Þarf að finna góða gjöf fyrir manninn (einhver tillaga Finnur?)

   Yfirleitt myndi ég segja að best sé að þekkja þann sem maður er að fara að kaupa gjafir fyrir en það er náttúrulega erfitt í þessu tilfelli. Ég reikna með að það sé hægt að finna almenna gjöf í fríhöfninni. Íslenskan artisan súkkulaðikassa kannski? Íslenskan snafs? Íslenskt handverk eða bók um landið?

   Bók um íslenska undrið á EM í sumar? Uh, heh… nei. Kannski ekki rétti markhópurinn. 😉

   • Elvar Örn skrifar:

    Finnur, ég var meira að hugsa eitthvað svona Everton tengt Íslandi. Eru til einhverjar gjafir eða eitthvað í þeim stílnum?
    Það voru gerðar húfur, bolir ofl ofl merkt Everton á Íslandi.
    Er þetta til einhvers staðar í dag?

  • Diddi skrifar:

   ég fór einu sinni með rútu frá Goodison til Derby á leik sem mig minnir að hafi verið annar leikurinn sem Moyes stjórnaði liðinu, það var mikil stemming í rútunni á leiðinni og flott að fylgjast með hvernig rútunum var lagt eftir kúnstarinnar reglum við Pride Park, starfsmenn notuðu málbönd til að mæla bil á milli bílanna og allt búið undir auðvelda rýmingu eftir leik. Stemmarinn var náttúrulega hrikalegur á heimleiðinni eftir 4-3 sigur okkar á Derby 🙂 góða ferð Elvar og ég vona að heimleiðin verði eins gleðileg og mín í þessum túr 🙂

 11. Gunnþór skrifar:

  Coleman er ein sá besti í sinni stöðu í deildinni ef ekki sá besti.

 12. Diddi skrifar:

  enn kemur í ljós hvað okkar klúbbur er lélegur varðandi verslun og markaðinn í hnotskurn. Vandræðalegt að ég pantaði hluti í búðinni og valdi að það mætti pikka þá upp í Everton two þar sem nokkrir vinir mínir eru í borginni okkar (liverpool fans), fékk email með staðfestingu kl 13 á föstudag um að hlutirnir væru klárir til afhendingar í Everton two. Þeir fóru í dag og það var ekkert klárt. Eftir nokkur símtöl á milli reddaðist þetta en ljóst er að þetta er bara klúður. Þetta er því miður ekki eina dæmið sem ég þekki sem klúbburinn okkar er með allt niðrum sig í svona málum. Ég sendi þeim mail í dag með smá skömmum 🙂

 13. Orri skrifar:

  Saell relationship.Er thetta tha komid I hendur retra adios.

 14. Finnur skrifar:

  Coleman í liði vikunnar að mati BBC:
  http://m.bbc.com/sport/football/38711481

 15. þorri skrifar:

  Erum við í bikarum í vikunni

 16. Gunnþór skrifar:

  Erum dottnir út úr báðum bikarkeppnunum sem er miður,en maður er ennþá að rifna úr monti yfir leiknum á móti man city og þá sérstaklega frammistöðu kjúllans Tom Davies sem er orðinn nánast fullmótaður knattspyrnumaður

  • Orri skrifar:

   Sæll Gunnþór.Nú þegar deildin er bara í boði þá er bara að setja stefnuna á 4 sætið.Kanski fjarlægt en það er allt hægt með góðum vilja og áræðni.

 17. Gunnþór skrifar:

  Ekki spurning það er nóg eftir af mótinu ?

%d bloggers like this: