Crystal Palace vs Everton

Mynd: Everton FC.

Everton á leik við Crystal Palace á útivelli kl. 15:00 á morgun, laugardag. Palace menn eru í bullandi fallbaráttu, aðeins einu sæti frá fallsæti og í raun aðeins markahlutfall sem heldur þeim svo ofarlega. Talnaglöggir sjá jafnframt að öll liðin þrjú fyrir neðan þá þurfa bara einn sigurleik til að komast upp fyrir þá. Crystal Palace skiptu um stjóra nýverið, þegar þeir réðu Sam Allardyce í stað Alan Pardew, en nýi stjórinn virðist ekki hafa gefið þeim aukinn kraft sem oft fylgir nýjum stjórum, allavega ekki enn sem komið er, því Crystal Palace liðið hefur ekki unnið neinn af þeim fjórum deildarleikjum sem hann hefur stjórnað.

Everton hefur, aftur á móti, á heimavelli Palace unnið 8 leiki af síðustu 15 og hefur, í síðustu fjórum deildarleikjum á tímabilinu, tekið 10 stig af síðustu 12 mögulegum, haldið þrisvar hreinu og skorað 11 mörk. En á móti kemur að Everton hefur aðeins unnið einn af síðustu 8 útileikjum, þannig að…

Ef sagan er skoðuð sést að hún er hliðholl okkar mönnum því það þarf að fara aftur til október 1994 til að finna tapleik gegn Crystal Palace á Selhurst Park og fjóra leiki aftur í tímann til að finna síðasta mark Crystal Palace gegn Everton á heimavelli.

Mikilvægt er þó að gleyma úrslitunum í síðasta leik gegn City því liðið á erfiðan leik fyrir höndum.

Hvað liðsuppstillingu varðar er erfitt að segja hvort Koeman haldi sig við þrjá miðverði eins og gegn City og við skjótum á að svo verði. Af hverju að breyta formúlu sem virkar? Baines er reyndar tæpur (brákaður á rifbeini líklega) en ætti að ná leiknum. Engin önnur meiðsli litu hins vegar dagsins ljós frá síðasta leik. Stekelenburg og McCarthy eru metnir heilir þó þeir verði líklega á bekknum en Dominic, Besic og Yannick eru frá vegna meiðsla. Líkleg uppstilling: Robles, Williams, Funes Mori, Holgate, Baines, Coleman, Barry (fyrirliði), Davies, Mirallas, Barkley, Lukaku.

Hjá Crystal Palace eru Wilfried Zaha og Bakary Sako frá vegna landsleikja, en nýi leikmaður þeirra, Jeffrey Schlupp, sem þeir keyptu frá Leicester, er líklegur til að láta sjá sig.

Af ungliðunum er það að frétta að þetta var erfið vika hjá Everton U18 því þeir töpuðu naumlega 2-1 fyrir Liverpool U18 í deildinni (mark Everton skoraði Fraser Hornby) og duttu svo út úr FA bikarnum gegn Preston U18 í vítaspyrnukeppni.

Everton U23, aftur á móti, unnu Reading U23 3-0 með mörkum frá Nathan Broadhead, Kieran Dowell og Harry Charsley. Þeir eru eftir sem áður efstir í Premier League 2, fjórum stigum á undan Man City og með 12 mörk í plús (á City).

En, Palace á morgun (lau) klukkan 15:00. Leikurinn er ekki sýndur í beinni útsendingu hér heima.

9 Athugasemdir

 1. Diddi skrifar:

  Ekkert nema sigur á morgun! Ég segi 0-3 Lukaku þrenna

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Okkur verður kippt harkalega niður á jörðina af gleðispillunum í Crystal Palace. Ég held að þetta fari 1-1.

  • Gestur skrifar:

   Líkar vel að hafa ekki of miklar væntingar, Everton fuglinn flýgur svo óútreiknanlega. Ætla ekki að spá.

  • Orri skrifar:

   Godan dag Ingvar.Vid hofum lengi talad um ad nu se allt ad smella hja okkur en ekki hefur thad gerst en nu held eg ad nu se beina brautin framundan.

 3. Gunnþór skrifar:

  Sammála Ingvari held að þetta fari illa. Vona það besta og að ég hafi rangt fyrir mér.

  • Diddi skrifar:

   Djöfull agalega hlýtur að vera leiðinlegt heima hjá ykkur alla daga elsku kútarnir. En til að vera sanngjarn þá er þessi hræðsla sveimandi hér líka. Ákvað hinsvegar að vera á hinum pólnum í þetta skiptið 🙂 eigið góðan dag

   • Gunnþór skrifar:

    Diddi þetta er őfug sálfræði hjá mér því alltaf þegar ég er bjartsýnn þá fer illa og þegar ég er svartsýnn þá fer yfirleitt vel og þetta er ekki djók.

 4. GunniD skrifar:

  Við pökkum litlu strákunum hans Stóra Sam(an)!

%d bloggers like this: