Everton – Man City 4-0

Mynd: Everton FC.

Everton vann stórsigur á Man City í dag, 4-0 —  áttu hann fyllilega skilið og hefðu jafnvel getað skorað fleiri. City liðið stjörnum prýtt átti nákvæmlega engin svör við kraftmiklum leik Everton í dag. Frábær leikur hjá okkar mönnum og óendanlega gaman að sjá ungliðann Tom Davies blómstra á miðjunni.

Uppstillingin: Robles, Baines, Williams, Funes Mori, Holgate, Coleman, Barry (fyrirliði), Davies, Mirallas, Barkley, Lukaku. Varamenn: Stekelenburg, Schneiderlin, Jagielka, Lennon, McCarthy, Valencia, Lookman.

Everton stillti upp í 3-5-2 með þrjá Williams, Funes Mori og Holgate miðverði, og Baines og Coleman sem wingbacks. Jafnræði með liðunum í upphafi og ekki mikið um færi. Mirallas kom reyndar boltanum í netið á 9. mínútu eftir flottan undirbúning frá Lukaku og Coleman en markið réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

City menn vildu víti á 11. mínútu þegar Sterling virtist felldur inni í teig af Robles en dómarinn vel staðsettur og sá ekkert óeðlilegt við samstuðið. Það var vissulega smá snerting en Sterling stóð það auðveldlega af sér og lét sig svo detta stuttu síðar. Þulurinn sagði að þetta væri erfitt að meta en líklega rétt hjá Mark Clattenburg að dæma ekkert.

Sterling átti skot á mark á 25. mínútu en beint á Robles. City menn fengu svo dauðafæri á 27. mínútu þegar De Bruyne átti frábæra háa sendingu inn í teig sem gerði það að verkum að Silva komst einn upp að marki en Robles fljótur og búinn að loka á hann þegar hann ætlaði að skjóta.

City menn meira með boltann og virkuðu beittari en Everton liðið var þolinmótt og skoruðu úr fyrsta skotinu sem hitti rammann á 34. mínútu. Sóknin hófst þegar ungliðinn Tom Davies komst inn í langa sendingu City manna úr vörn yfir á miðju, var fljótur að hugsa og sendi frábæra stungusendingu inn á Mirallas sem kom á hlaupinu inn í teig hægra megin. Mirallas sendi strax fyrir mark þar sem Lukaku var mættur og þrumaði inn. 1-0 Everton!

Sterling átti skot rétt framhjá stöng á 38. mínútu og skalla að marki rétt fyrir lokin sem fór yfir Robles en Tom Davies mættur á fjærstöng til að skalla frá á línu. En Everton yfir í hálfleik 1-0.

Everton byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og setti mark á City strax á 46. mínútu. Aftur vann Everton boltann á miðjunni (Barry í þetta skiptið) og sendi á Lukaku sem ætlaði að senda stungu inn á Mirallas sem kom á hlaupinu en varnarmaður City komst inn í sendinguna. Barkley hins vegar vel á verði, náði lausa boltanum, hélt áfram sókninni með því að koma honum strax á Mirallas sem skoraði úr þröngu færi með tvo varnarmenn í sér. 2-0 Everton.

Mirallas út af fyrir Morgan Schneiderlin, nýjustu viðbótina við leikmannahóp Everton, á 64. mínútu. McCarthy kom svo inn á á 73. mínútu fyrir Barry þannig að Baines tók við fyrirliðabandinu.

Tom Davies kórónaði svo frábæran leik með marki. Tók sprettinn upp hægri kantinn, lék laglega á tvo leikmenn City og kom boltanum á Barkley en var felldur. Stóð hins vegar bara strax upp og hljóp inn í teig hægra megin þar sem hann fékk stungusendingu frá Barkley. Fyrsta snertingin Davies aðeins of þung og maður hélt að markvörður næði að loka á hann fyrir vikið en Davies tók bara vippuna yfir hann og skoraði. Það var reyndar spurning hvort Lukaku hefði potað boltanum síðustu sentimetrana yfir línuna. Óheppilegt ef svo er því Davies átti markið nánast skuldlaust. 3-0 Everton!

Og Everton liðið var ekki hætt — vildi fleiri mörk og Lukaku var nærri því að skora eftir að Barkley setti hann inn fyrir á 81. mínútu en rétt framhjá marki. Barkley svo ekki langt frá því að setja Lukaku inn fyrir á 87. mínútu með langri stungusendingu þar sem Lukaku stakk Stones af en markvörður út og náði að hreinsa.

Lookman, ungliðinn sem Everton keypti í janúarglugganum, var svo skipt inn á fyrir Barkley á 90. mínútu og hann þurfti ekki nema nokkrar mínútur til að koma Everton í 4-0. Sóknin byrjaði þegar Coleman tók sprettinn upp hægri kantinn og fékk langa sendingu sem John Stones komst inn í. Hann hins vegar þrumaði í Coleman og boltinn barst þannig til Lookman inni í teig sem þrumaði inn og klobbaði markvörðinn í leiðinni.

Everton fjögur, Manchester City 0. Stærsta tap City á tímabilinu.

Einkunnir Sky Sports: Robles (7), Holgate (7), Williams (7), Funes Mori (7), Coleman (7), Davies (9), Barry (8), Baines (7), Barkley (6), Mirallas (7), Lukaku (8). Varamenn: Schneiderlin (7), McCarthy (6), Lookman (7).

Maður leiksins var Tom Davies.

City menn riðu ekki feitum hesti frá einkunnagjöf Sky: Bravo (3), Sagna (4), Otamendi (4), Stones (3), Clichy (4), Zabaleta (4), Toure (4), Silva (6), De Bruyne (6), Sterling (6), Aguero (5).

 

30 Athugasemdir

 1. Gunnþór skrifar:

  Game over var þetta flott hjá kjúllanum eða ekki maður minn hvað er að gerast liðið frábært í alla staði barátta og allur pakkinn.

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Maður leiksins hlýtur að vera Tom Davies.

 3. Tryggvi Már skrifar:

  Vá þetta er svo æðislegt!

 4. Diddi skrifar:

  Gargandi snilld 🙂

  • Orri skrifar:

   Hvernig var spain thin felagi.

   • Diddi skrifar:

    2-4 þýddi bara að ég væri að horfa á leikinn á því tímabili. s.s. klukkan en ég spáði ekki mikið í þetta 🙂 Vissi að þetta yrði létt, það er svo léleg vörnin hjá þeim, einhverjir skussar bara 🙂

 5. Ari S skrifar:

 6. Gunnþór skrifar:

  Mér fannst allir góðir í dag, menn tilbúnir að hjálpa hvor öðrum varnarlega, flott spil og það geislaði af mönnum þá er þetta alltaf skemmtilegra.

 7. þorri skrifar:

  Everton voru frábærir í dag allir sem einn. þó fanst mér Davies góður. Mjög flottur og Lukaku líka.

 8. Gestur skrifar:

  Þvílíkt snilld, vá, elska þessa ungu stráka.

 9. Robert E skrifar:

  Persónulega fannst mér John Stones standa sig vel með Everton í dag

 10. GunniD skrifar:

  Lookman fékk bara 7 hjá goal.com. Hann var rúmar 4mín. inná og skoraði mark. Það verðskuldar 10+!

 11. Elvar Örn skrifar:

  Frábær frammistaða.
  Hvenær tapaði lið Pep Guardiola 4-0 síðast?

  Verð að hrósa Robles fyrir frábærar markvörslur þegar á þurfti að halda.

  Fannst Davies nokkuð góður í fyrri hálfleik en var að gera nokkur mistök, en það sem ég sá af þeim seinni, frábær.

  Mögnuð liðsheild og langt síðan maður hefur séð varamannabekkinn jafn sterkan.

  Tvær stoðsendingar frá Barkley.

  Ungu strákarnir alveg magnaðir í dag. Holgate, Davies, Lookman. Já og Barkley og Lukaku eru ekkert gamlir skiljiði?

  Er ekki bara nokkuð bjart framundan hjá Everton?

 12. Ari S skrifar:

  Ég horfi á markið hans Davies aftur og aftur… eftir því sem ég horfi oftar sé ég hversu mikil snilld þetta var. Hann byrjar með boltann… leikur áfram og smeygir sér á milli Clichy og Toure með frábærri tækni, platar þá báða upp úr skónum ef svo má segja. Hleypur áfram gefur boltann… DETTUR… stendur upp aftur og fær boltann… chippar honum síðan yfir markmanninn… þvílíkt og annað eins hefur maður bara ekki séð lengi. Thierre Henry sagði eftir leikinn að mesta snilldin við þetta mark var að Davies skuli hafa náð því að chippa boltanum yfir markmanninn eftir svona svakalega atburðarrás… yndislegt moment í dag 🙂

  • Finnur skrifar:

   Algjörlega sammála. Það var unun að horfa á þetta. Maður hélt að þetta væri búið þegar hann féll við en hann bara hélt áfram þangað til hann var búinn að skora.

   Svo langaði mig líka til að benda á að Lukaku er búinn að skora fjögur mörk í 5 síðustu leikjum. Eldheitur.is.

   • Ari S skrifar:

    Lukaku er yndislegur, var frábæri og sívinnandi í dag… 🙂 Hann er svo sannarlega eldheitur.is

 13. Marínó skrifar:

  Svo mikil snild vill sjá meira af þessari uppstillingu

 14. Elvar Örn skrifar:

  Lukaku að stinga búnti af sokkum uppí suma hér sem hafa viljað hann burt.

  Skoðið aðeins þegar Davies byrjar sóknina þar sem hann skorar, þar er Holgate með tvær rennitæklingar þar sem hann loks nær að koma boltanum á Davies og the rest is history (vel gert hjá Holgate).

  Er Koeman að ná réttu blöndunni núna? Erum komnir í ágætis stöðu í 7 sæti og lengist í 8 sætið og nálgumst liðin hægt og bítandi fyrir ofan okkur. Verður erfitt að ná þeim en við getum algerlega fókuserað á deildina og leikjaálag ansi hæfilegt og hópurinn er bara að breikka.

  Verður líka gaman að sjá hvort Koeman muni bæta við leikmönnum í þessum glugga.

  Næsti leikur er á laugardaginn úti gegn Crystal Palace sem hefur verið að ströggla og síðan er það Stoke úti þann 1 febrúar þar sem ég verð í stúkunni að hvetja Everton áfram ef allt gengur eftir (shiiii hvað mig hlakkar til).

 15. Gunnþór skrifar:

  Held að það sé einhver misskilningur hér að einhverjir vilji hann í burtu menn voru að tala um að ef hann vildi fara þá ætti hann að fara því það er enginn stærri en klúbburinn.

  • Finnur skrifar:

   Fyrirgefðu mér, Gunnþór, minn kæri vinur, en ég verð að benda á þrjú komment frá yfirlýstum eldheitum Everton stuðningsmönnum hér í kommentakerfinu á síðustu örfáu vikum:

   „burt með Lukaku. Ég er kominn með nóg af þessu belgíska letidýri“

   „Og þetta helvítis lukaku endalausa uppspil í guðanna bænum seljum hann fáum lið sem spilar fyrir hvorn annan“

   „Svo held ég að það sé gott að fara selja lukaku meðan það fæst eitthvað fyrir hann er ekki að fíla hugarfarið hjá honum gagnvart klúbbnum“

   Hver sagði hvað skiptir engu máli — ég er ekki að reyna að snapa fæting. Ég skil alveg þessa frústrasjón þegar liðinu gengur ekki nógu vel. En það sem ég vil benda á er að þetta þarf allt saman tíma, bæði einstakir leikmenn í nýju skipulagi, liðsheildin sem og stjórinn.

   Það er talað um að eftir stjóraskipti þurfi tvo leikmannaskiptaglugga til að nýi stjórinn geti náð að setja almennilega sitt mark á liðið. Veit ekki hvort maður eigi að telja með sumargluggann fyrir þetta tímabil því Koeman og Walsh komu seint inn — en náðu þó í Ashley Williams, Bolasie og Gana Gueye, sem hafa verið mjög flott kaup. Mjög ánægður með Schneiderlin líka og Lookman í þessum glugga. Átti ekki von á leik hvað þá marki frá þeim síðarnefnda. En það verður ekki hjá því litið að það tekur tíma að breyta áherslum Martinez yfir í áherslur Koeman. Og sú breyting getur verið sársaukafull fyrir stuðningsmenn og sérstaklega fyrir þá leikmenn sem ekki passa inn í kerfið.

   Það er auðvelt að slíðra sverðin þegar vel gengur en þegar hlutirnir ganga ekki eins vel upp getum við alveg sýnt meiri þolinmæði og gefið bæði leikmönnum og stjóranum tíma til að finna sig í nýrri leikaðferð/um. Fyrir tímabilið var ég sáttur við framför frá síðasta tímabili, sem við erum að sjá. Ég átti ekki von á 4. sæti eða betra — hvað þá sigur í bikarkeppni. Þetta er tímabil umbreytinga og vonandi framfara sem við komum til með að sjá á næsta tímabili.

   • Gunnþór skrifar:

    Þetta er sagt í hita leiksins og sem betur fer eru menn með tilfinningar gagnvart liðinnu annars væri ekkert gaman af þessari íþrótt en sem betur fer eru ekki allir sammála og það er gaman þegar menn hafa ólíkar skoðanir því annars væri ekkert gaman td á þessari síðu. En maður er svo í skýjunum með úrslit dagsins og þetta gefur vonandi góð fyrirheit fyrir framhaldið og maður ætlar að nýta sér það næstu dagana að hafa unnið city sannfærandi 4-0.

 16. Georg skrifar:

  Frábær sigur í gær og jafnframt stærsta tap Guardiola í deildarkeppni sem þjálfara, sem segir allt um þennan stórsigur okkar.

  Það er hægt að hrósa öllu liðinu, hvort við tölum um markmann, vörn, miðju eða sókn. Það skiluðu allir sínu í þessum leik.

  Koeman vann taktískan sigur á fyrrum liðsfélaga sínum. Við leyfðum City að spila boltanum fram og til baka í öftustu línu og pressuðum þá hátt og þá sérstaklega í seinni hálfleik. Beittum svo góðum skyndisóknum þegar við unnum boltann.

  Það má segja að innkoma Tom Davies inn í Everton liðið sé eins og ný kaup. Hann er að vaxa og vaxa með hverjum leiknum og klárlega framtíðarleikmaður hjá okkur, einungis 18 ára gamall. Frábært mark hjá honum þar sem hann sýndi mikil gæði. Dugnaður og vinnslan í þessum leik var til fyrirmyndar.

  Mirallas er að stíga aftur upp sem er mjög jákvætt, lagði upp fyrsta markið og skoraði svo annað markið.

  Frábært að Lookman hafi komið inn og skorað strax í sínum fyrsta leik og það tók hann örfáar mínutur, þetta mun klárlega hjálpa honum með framhaldið og ætti að vera fullur sjálfstrausts.

  Nú er bara að halda áfram á þessu skriði, erum búnir að fá 10 stig af síðustu 12 mögulegum, 3 sigurleikir og 1 jafntefli. Væri gaman að narta betur í hælana á liðinum fyrir ofan. Liðið er nú einungis í deildinni og ætti að geta lagt allan focus á hana.

  Næstu leikir Everton: Crystal Palace (úti), Stoke (úti), Bournemouth (heima), Middlesbrough (úti), Sunderland (heima). Þetta eru allt vel vinnanlegir leikir og verður forvitnilegt að sjá hvar við stöndum í deildinni eftir þessa leiki.

 17. Finnur skrifar:

  Fullt af skemmtilegum fréttum í dag:

  DailyMail bentu á að eftir að Tom Davies og nýi leikmaður okkar, Ademola Lookman, skoruðu um helgina hefði Everton jafnað met Arsenal í Úrvalsdeildinni yfir flesta táninga sem hafa skorað fyrir þá mark en 17 táningar hafa náð þeim áfanga fyrir hvort lið.
  http://www.dailymail.co.uk/sport/football/article-4122570/Everton-join-Arsenal-teenage-goalscorers-Premier-League-Tom-Davies-Ademola-Lookman-strike-against-Manchester-City-4-0-thriller.html

  Tom Davies var valinn í lið vikunnar að mati BBC (og reyndar Jamie Redknapp líka):
  http://www.bbc.com/sport/football/38630580
  http://www.dailystar.co.uk/sport/football/578827/Jamie-Redknapp-team-of-the-week-gameweek-21-sportgalleries

  Sky Sports fjölluðu svo sérstaklega um bestu leikmenn helgarinnar og þáttur Tom Davies var þar tilgreindur.
  http://www.skysports.com/football/news/11671/10729561/premier-league-hotlist-kane-davies-alonso-who-was-the-weekends-standout-player

%d bloggers like this: