Everton – Arsenal 2-1

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin: Stekelenburg, Coleman, Baines, Jagielka, Williams, Gana, McCarthy, Lennon, Valencia, Barkley, Lukaku. Varamenn: Robles, Deulofeu, Mirallas, Cleverley, Funes Mori, Calvert-Lewin, Holgate.

Upphafsmínúturnar voru erfiðar með of mikla taugaveiklun en eftir um 20 mínútur lagaðist það. Fín barátta og ákefð frá Everton í fyrri hálfleik eftir það og boltinn að ganga vel manna á milli. Allt annað að sjá til liðsins en í fyrri leikjum.

En… þeir lentu þó undir á 20. mínútu þegar Alexis Sanchez skoraði grísamark úr aukaspyrnu — skaut í fæturna á Ashley Williams og boltinn breytti um stefnu. Stekelenburg næstum búinn að verja en boltinn lak inn. 0-1 Arsenal. Einfaldlega óheppni.

Það tók Everton smá tíma til að komast af stað eftir markið en eftir það gáfu þeir Arsenal lítinn frið á boltanum það sem eftir lifði hálfleiks sem gerði Arsenal erfitt fyrir að ná einhverju flæði í leiknum og skiluðu þeir boltanum oft beint aftur á Everton um leið og þeir fengu hann.

Og rétt fyrir hálfleik fékk Everton liðið það sem það átti skilið. Baines lék á varnarmann Arsenal á vinstri kanti og sendi gullfallegan bolta fyrir mark þar sem Coleman fékk óáreittur að stökkva upp og skalla í netið. 1-1 og þannig var það í hálfleik.

Frábær kraftur í liðinu. Margir búnir að kalla eftir því að Koeman spili með tvo frammi og það virðist virka að hafa Valencia með Lukaku en margar sóknir virtust fara í gegnum Valencia.

Özil fékk tvö ágætis færi í byrjun seinni hálfleiks til að koma Arsenal yfir, það fyrra eftir tæpar 10 mínútur — frítt skot inn í teig eftir sendingu frá Sanchez en afgreiðslan arfaslök og boltinn yfir.

Seinna færi hans kom á 58. mínútu þegar hann fékk stungusendingu inn fyrir vörn Everton og komst upp að marki, en Stekelenburg lokaði vel á hann. Stekelenburg lenti í kjölfarið í samstuði við Baines og þurfti aðhlynningu. Hann hélt þó áfram og aðeins sekúndum síðar var Everton komið í sókn, Barkley fékk boltann við vítateig vinstra megin og var ekki langt frá því að setja hann í innanverða færstöng með flottu skoti sem Cech náði ekki til… en rétt framhjá.

Mirallas var skipt inn á fyrir Lennon á 68. mínútu og Barkley var næstum búinn að setja hann inn fyrir vörn Arsenal á fyrstu sekúndunum Mirallas á vellinum með flottri stungusendingu eftir álíka flott hlaup Mirallas en gekk því miður ekki upp. Það hefði verið eitthvað…

Lukaku tók sig til og náði að spretta upp vinstri kantinn á 69. mínútu — stakk Gabriel af og komst upp að endamörkum (við höfum séð hann gera þetta nokkrum sinnum áður), náði skoti en Gabriel mættur aftur og náði að tækla boltann og breyta stefnu í hliðarnetið og í horn.

Enner Valencia var skipt út af á 79. mínútu fyrir Dominic Calvert-Lewen, sem hefur verið að raða inn mörkum fyrir U23 ára liðið, ef mér skjöplast ekki. Fyrsti leikur hans í Úrvalsdeildinni.

Upp úr horni var Jagielka næstum búinn að setja mark með flottu skoti upp við mark sem Cech varði glæsilega í horn aftur. En í horninu sem fylgdi komst Everton yfir. Williams með frían skalla á mark (Arsenal maðurinn sem átti að elta hann lét hann bara óáreittan) og boltinn í netið. Everton komið í 2-1 og Williams með sitt fyrsta mark fyrir Everton.

Koeman ákvað í kjölfarið að loka sjoppunni og setja inn á Funes Mori fyrir McCarthy á 90. mínútu. Martinez hefði líklega sett inn annan sóknarmann til að freista þess að bæta við marki. 🙂

Síðustu mínúturnar voru hins vegar algjör sirkus og tilfinningarússíbani. Jagielka fékk rautt spjald á síðustu mínútunni (seinna gula spjaldið hans). Baines bjargaði á línu með Cech, markmann Arsenal, í vítateig Everton að freista þess að jafna. Everton komst svo í skyndisókn með Cech á vitlausum helmingi vallar, þar sem Lukaku vann boltann af varnarmanni Arsenal en náði ekki skoti á mark. Cech enn á leið í markið, Lukaku sendi á Barkley, sem sendi á ungliðan Calvert-Lewen en of seint, Cech mættur og vörnin náði ekki að hreinsa. Upplagt tækifæri til að bæta við.

Arsenal lögðu allt kapp á að jafna en vörn Everton hélt og flottur sigur á Arsenal, liðinu í öðru sæti, í höfn. Everton loksins komið í gang aftur — og loksins hikið og efasemdirnar gufaðar upp og spilamennskan eitthvað sem maður getur verið stoltur af. Úrslitin eftir því.

Everton komst upp í 7. sæti við sigurinn og er enn ósigrað á heimavelli — nýbúið að sigra liðið sem var taplaust á útivelli á tímabilinu fram að þessum leik. Gott veganesti fyrir derby leikinn á mánudaginn. Með þessari baráttu getur það unnið hvaða lið sem er.

Einkunnir Sky Sports: Stekelenburg (6), Coleman (8), Jagielka (6), Williams (7), Baines (8), Gueye (7), McCarthy (6), Lennon (6), Barkley (6), Valencia (7), Lukaku (7). Varamenn: Mirallas (6), Calvert-Lewin (6), Funes Mori (6)

37 Athugasemdir

 1. Elvar Örn skrifar:

  Ekki byrja með Williams inná sagði ég, kræst.

 2. Elvar Örn skrifar:

  Þvílík barátta hjá Everton eftir að lenda undir, Coleman með skalla nema hvað.

 3. GunniD skrifar:

  Nú líst mér á spilamennskuna!

 4. GunniD skrifar:

  Everton miklu betra liðið núna.

 5. Elvar Örn skrifar:

  Ég sagði það að Williams ætti að byrja 🙂

 6. Marínó skrifar:

  yyyyyyeeeeeeeessssssssss

 7. Elvar Örn skrifar:

  Svakalega flottur leikur hjá Everton, þeir sem segja annað eru freðnir.
  Williams of Mori í miðaverði í næsta leik þar sem Jagielka verður fjarverandi.
  Everton amk með smá aukið sjálfstraust fyrir Derby leikinn.

  Lukaku bara ansi duglegur verð ég að segja og eiginlega fór Everton í hraðari gír eftir að við fengum markið á okkur. Loksins sigur og þá gegn Arsenal, þetta er skrítin deild.

  Gana var eins og jarðýta, flottur kallinn.

 8. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Miklu betra! Miklu miklu betra!
  Kannski bara gott að Arsenal skoraði þetta grísamark frekar snemma því það kveikti heldur betur í okkar mönnum.
  Ef, og það er stórt ef, liðið spilar svona á móti the shite, þá gætum við alveg tekið þá líka.
  Vona bara að þessi sigur og það hvernig leikurinn vannst sé byrjunin á laaannngggrrriii sigurgöngu.

 9. RobertE skrifar:

  Þvílíkt barátta í seinni hálfleik á báða enda, bæði lið með góð færi, Özil hefði átt að setja 2 mörk og Barkley líka. En seinustu 10mín fóru alveg með mann, sérstaklega uppbótartíminn.
  En svona spilamennsku væri maður til í að sjá í hverjum leik, reynt við alla bolta og ekkert gefið eftir.

 10. GunniD skrifar:

  Nú líður mér betur með ferðina á Goodison nk. mánudag. Þetta breitir nákvæmlega öllu með þann leik. Vonandi. Allavega verður tvöföld bjartsýni með í för.

  • Diddi skrifar:

   gangi þér allt í haginn í þeirri ferð Gunni minn. Ég treysti á þig 🙂

 11. Eyþór skrifar:

  Ég er sammála guttanum (Róbert).

 12. Gunnþór skrifar:

  Þetta var frábær leikur í alla staði gott spil frábær barátta. Það er nefnilega eftir svona leik sem maður er sár eftir öll jafnteflin og tőpinn þegar maður veit hvað býr í liðinnu en frábær frammistaða í alla staði og nú er bara að halda áfram með svona frammistöðu næsta mánudag og í allan vetur.

  • marino skrifar:

   eg sat með nallara sem þu þekkir og það var ógeðslega sætt 🙂

 13. Gestur skrifar:

  Fyrri hálfleikurinn er var ágætur og seinni mjög góður. Allt annað að sjá Lukaku og fleiri leikmenn, Coleman góður eins og oftast. Kannski er Barry bara orðin of gamall að spila svona marga leiki.

 14. Ari S skrifar:

  Mikið var ég glaður í kvöld. Ég var staddur í jólaveislu með vinnunni, hafði gleymt símanum heima og gat því ekki fyglst með. En ég var látinn vita rækilega af því þegar Arsenal skoraði fyrsta markið og komst yfir. Held það hafi verið tvier eða þrír aðilar sem létu mig vita…. ég hugsaði með mér jæja svo sem gott að vera hérna og vera ekki að fylgjast með… en ég hugsaði þeim sem létu mig vita, þegjandi þörfina og var mjög ánægður þegar Everton jafnaði… síðan þegar ég var almennilega búinn að sætta mig við jafntefli (en hafði þó ekki gefið upp vonina á sigri… viti menn… ég fékk óskina uppfyllta… Everton hafði sigrað með marki frá Ashley Williams….

  Og ég keyrði glaður heim hlustandi á BBC5 í bílnum á leiðinni heim… þetta var frábær sigur, til hamingju Everton félagar og vinir 🙂

  Kær kveðja, Ari.

 15. Ari G skrifar:

  Frábær leikur hjá Everton. Endalaust barátta mest allan leikinn. Loksins er Barkley vaknaður flottur leikur hjá honum. Valencia mjög góður hef mikla trú á honum eftir þennan leik. Vörnin loksins góð ein mistök mark. Gana loksins vaknaður aftur líka. Annars voru allir að spila vel. Vel Barkley mann leiksins hafði flotta innsýn í leiknum á að vísu nokkrar feilsendingar en það er unun að horfa á leikskilning Barkleys ótrúlegur hæfileikar farðu að nota þá af alvöru þá blómstrar Everton.

 16. Addi Júll skrifar:

  Hvað sagði ég eftir Watford leikinn 🙂 Það virkar að hugsa fallega til liðsins…. Everton klárlega betra liðið í þessum leik og við „drulluðum“ yfir Arsenal..hehe.

 17. Georg skrifar:

  Frábær sigur og flottur karakter í liðinu í dag. Þrátt fyrir að fá mark á okkur sem var í raun röð mistaka/óheppni, þá komum við til baka og vinnum leikinn.

  Þetta er akkúrat það sem ég sagði að kannski er bara gott að eiga þessa erfiðu leiki framundan (Arsenal og Liverpool) til að koma liðinu í gang.

  Arsenal hefur ekki tapað í deildinni síðan í ágúst og því ótrúlega flott að ná 3 stigum á móti þeim

  McCarthy fannst mér flottur í dag með Gana á miðjunni, sem var líka frábær, tveir mjög duglegir á miðjunni og hugsanlega hægt að nota þá meira saman í vetur. Barkley fyrir framan þá fannst mér flottur, var smá tíma í gang en var svo flottur eftir það, vonandi að hann fái núna sjálfstraust þar sem það er mikið búið að ganga á hjá honum síðustu viku og mánuði. Hann lagði upp sigurmarkið með hornspyrnunni og vonandi sér maður leikmann með sjálfstraust gegn Liverpool.

  Valencia fannst mér bara nokkuð flottur þarna á kantinu, koma með hraða og dugnað í liðið. Hann er búinn að eiga fottar innkomur í síðustu leikjum. Lukaku hlustaði á okkur með því að vera duglegri, það var ekki hægt að sakast við hann með leti í þessum leik.

  Vörnin fannst mér mun þéttari í þessum leik þrátt fyrir að vera mæta sterkara sóknarliði en í síðusu leikjum. Coleman og Baines voru einnig flottir fram á við. Coleman með mark og Baines með stoðsendingu,

  Nú er bara að byggja ofan á þessa frammistöðu og vinna Liverpool á mánudaginn

 18. Elvar Örn skrifar:

  Nú er mikið fjallað um fyrirhuguð kaup Everton á Schneiderlin og Depay frá United, hvernig lýst ykkur á? Er viss um að ekki færri en 3 komi til Everton í janúar glugganum.

 19. Georg skrifar:

  Breaking news! Gareth Barry, Leighton Baines and Mason Holgate have all signed contract extensions with the Blues!

  Barry 1 ár – til 2018
  Baines 2 ár – til 2019
  Holgate 5 ár – til 2021

  • Gestur skrifar:

   Nei, ekki Barry

   • Georg skrifar:

    Allt í lagi að hafa Barry sem squad player á næstu leiktíð. Búinn að vera með betri mönnum síðustu 2 ár. Sé hann ekki sem starter á næstu leiktíð

    • Elvar Örn skrifar:

     Sammála með Barry, í fyrra var hann nú einn af betri mönnum liðsins og hefur verið sterkur á þessu ári. En á þessum aldri þá spilar kallinn ekki alla leiki það er klárt.

     Fannst McCarthy ekki byrja vel gegn Arsenal en svo var hann og Gana alveg magnaðir í leiknum eftir fyrstu 20 mín.

     Baines hefur einnig vaxið með hverjum leiknum og hann er nú bara 32 ára svo engin ástæða að panica.

     Mér finnst Gana hafa verið okkar besti maður á leiktíðinni og mér finnst Coleman vera orðinn fyrirliðaefni ef Jagielka verður fjarverandi. Nr. 3 hjá mér er Lukaku sama hvað þið bjánirnir segið um kappann. Mirallas var frábær í svona fyrstu 5 leikjum og svo hefur lítið sést til hans.

     Stekelenburg hefur verið góður í flestum leikjum en ekki öllum en mér finnst hann hafa góða stjórn á teignum heilt yfir, tel Robles ekki vera betri kost.

     Hvað er langt síðan við unnum Liverpool? er ekki kominn tími á sigur? Shiiii hvað ég væri til í að fara að kíkja á leik.

 20. Gunnþór skrifar:

  Barry er mikilvægur fyrir liðið þarf bara að hvíla meira kominn á þennan aldur. Líst vel á framhaldið síðasti leikur sýndi það sem maður er búinn að kalla eftir í haust.

 21. Gunnþór skrifar:

  Ef Evertonliðið mætir til leiks á móti Liverpool eins og þeir komu á móti arsenal þá vinnum við þann leik,en ef þeir verða eins og í undanförnum leikjum í haust þá er voðinn vìs. Það væri nú gaman að vinna á mánudaginn,það er reyndar alltaf gaman að vinna en þennan leik væri extra gaman að vinna.

 22. Elvar Örn skrifar:

  Þetta lítur alltaf verr og verr út með meiðsli Bolasie. Koeman sagði á blaðamannafundi að hann hefði ekki bara slitið krossbönd heldur rifnaði liðþófinn einnig. Hann er búinn að fara í aðgerð á liðþófa en fer ekki fyrr en eftir nokkrar vikur í aðgerð á krossböndum. Ég held að það sé alveg klárt að hann er off í heilt ár.
  Alveg klárt að Everton þarf að versla aukalega í Janúar til að fylla þetta skarð.
  Bara tveir dagar í næsta sigurleik Everton, gaman að því.

%d bloggers like this: