Everton – Swansea 1-1

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin: Stekelenburg, Baines, Williams, Jagielka, Coleman, McCarthy, Gana, Bolasie, Lennon, Barkley, Lukaku. Varamenn: Joel, Deulofeu, Mirallas, Cleverley, Valencia, Funes Mori, Holgate.

Við vonuðumst eftir svari frá Everton eftir afhroðið í síðasta leik og þetta leit mjög vel út í byrun — Everton setti góða pressu á Swansea frá fyrstu mínútu og áttu Swansea menn í erfiðleikum með að koma boltanum fram yfir miðju til að byrja með. Everton með fyrsta skotið á 3. mínútu, lágt fast skot frá Lukaku sem var inni í teig vinstra megin en Fabianski í marki Swansea vel á verði.

Swansea náðu þó að létta á pressunni með ágætis kafla eftir tæpan 10 mínútna leik og náðu skoti á mark úr aukaspyrnu frá Gylfa sem Stekelnburg varði í horn.
Á 25. mínútu kviknaði smá líf í sóknarleik frá Everton, sem höfðu verið svolítið flatir fram að því, ef frá eru skildar fyrstu mínúturnar. Eftir góðan undirbúning frá Barkley fékk Bolasie boltann inni í teig vinstra megin og lék á varnarmann. Bolasie þrumaði boltanum í átt að fjærstöng. Þetta var fastur bolti sem Lukaku fékk óvænt á sig, beint í lærið og boltinn yfir slána fyrir opnu marki. Ekki við hann að sakast, hafði engan tíma til að átta sig á hvað væri að gerast.
Fjórum mínútum síðar átti Barkley að skora úr upplögðu færi. Fékk sendingu inn í teig frá Bolasie, sneri af sér miðvörðinn með frábærri fyrstu snertingu og hálfhring í kringum hann. Kominn í dauðafæri fyrir vikið en skotið framhjá marki. Everton ekki að spila sérstaklega vel en hefðu getað verið tveimur mörkum yfir og Bolasie með réttu átt að vera kominn með tvær stoðsendingar.
Rétt fyrir hálfleik gaf Jagielka Swansea víti á silfurfati — með hálfgerðri rúgbý-tæklingu inni í teig eftir að Gylfi komst framhjá honum. Gylfi tók vítið sjálfur og skoraði af miklu öryggi uppi í hægra hornið.
Bolasie var næstum búinn að jafna á síðustu mínútu uppbótartíma þegar hann kom á hlaupinu gegum vörn Swansea og fékk stungusendingu inn fyrir, komst einn á móti markverði en Fabianski gerði sig breiðan og varði glæsilega í horn. Bolasie eldheitur í fyrri hálfleik, en það vantaði herslumuninn.
Everton með mun betri færi í fyrri hálfleik en Swansea 1-0 yfir þegar leikmenn gengu til búningsklefa.

Engar breytingar á liðunum í hálfleik.

Bolasie átti ágætis tækifæri á upphafsmínútum seinni hálfleiks — skalla að marki eftir fyrirgjöf frá hægri en beint á markvörð. Everton settu í kjölfarið góða pressu á Swansea og fengu nokkur hálffæri en náðu ekki að gera sér mat úr því.

Megnið af seinni hálfleik var ekki mikið fyrir augað en lifnaði við undir lokin. Deulofeu kom inn á fyrir Lennon á 66. mínútu og Mirallas inn fyrir McCarthy á 72. mínútu. McCarthy hafði ekki spilað mikið undanfarið vegna meiðsla og virkaði ryðgaður í leiknum. Enner Valencia Funes Mori var svo skipt inn á fyrir Jagelka á 83. mínútu. Sóknarmaður fyrir miðvörð — nú skyldi blása til sóknar!

Lengi vel leit út fyrir að Swansea menn væru að vinna sinn fyrsta sigur síðan í upphafsleik tímabilsins og verða fyrsta útiliðið til að ná þremur stigum á Goodison Park. En Coleman var aldeilis á öðru máli. Swansea menn áttu í vök að verjast í einni sókn Everton á 89. mínútu og spörkuðu eða skölluðu ítrekað út úr teig. Ein slík hreinsun var arfaslök, skalli við mark hátt upp í miðjan eigin teig og Coleman þakkaði fyrir sig, stökk manna hæst og stangaði boltann rétt undir samskeytin. Fabianski kastaði sér á eftir boltanum en hann var of hár, hnitmiðaður og óverjandi fyrir hann. Staðan 1-1 og útlitið allt öðru vísi.

Everton hentu öllu sem þeir áttu í átt að marki Swansea sem að sama skapi þurftu að taka á öllu sem þeir áttu til að verjast. Bolasie átti skot frá vinstri sem var hreinsað á línu og Lukaku með skot frá hægri sem fór beint á markvörð. Gylfi átti eitt skot að marki hinum megin sem Stekelenburg varði en annars voru Everton nánast bara í því að dæla boltunum inn í teig Swansea. En fleiri færi og mörk létu á sér standa.

1-1 niðurstaðan.

Einkunnir Sky Sports: Stekelenburg (6), Baines (6), Jagielka (6), Williams (6), Coleman (7), McCarthy (7), Gana (7), Bolasie (7), Lennon (6), Barkley (8), Lukaku (7). Varamenn: Deulofeu (6), Mirallas (6), Valencia (n/a). Ross Barkley valinn maður leiksins.

26 Athugasemdir

 1. Gestur skrifar:

  Það þarf nú að fara setja hann Jagielka á bekkinn, ég veit ekki hvað hann er búinn að gefa margar vítaspyrnur.

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Að segja að það sé pirrandi að halda með Everton væri meira en vægt til orða tekið ?????

 3. Ari S skrifar:

  Frábært markið sem að Coleman skoraði.

 4. Steini skrifar:

  Gerðu þið bara jafntefli á heimavelli við langlélegasta lið deildarinnar ???
  Elvar, nennirðu að segja mér aftur hvernig Everton er að fara að taka framm úr Liverpool fljótlega ?????

  • Ari S skrifar:

   Hvað er að þér Steini ertu geðveikur? Hvað ertu að villast hingað á okkar síðu?

   • Steini skrifar:

    Reyndar hef ég glímt við þunglyndi, af hverju spyrðu? Finnst þér það á einhvern hátt mér til minnkunar eða?
    Fáviti. Hver segir svona???

    • Ari S skrifar:

     Ég hef líka glímt við þunglyndi, þú ert ekki einn vinur.

     • Steini skrifar:

      Takk. Sömuleiðis. Afsakaðu orðbragðið

     • Ari S skrifar:

      Allt í góðu.

     • Finnur skrifar:

      Leiðinlegt að heyra af þunglyndinu. Sýnist á svari þínu að þú hafir náð að vinna þig upp úr því. Gott mál.

      Velti samt fyrir mér hvort það gæti verið hjálplegt í því samhengi að sleppa því að mæta á vefsíður hjá fólki með öndverðar skoðanir í þeim tilgangi einum að snapa rifrildi. Get ekki ímyndað mér að það sé gott fyrir sálarheilsu þína — ég allavega nenni ekki að stunda það á kop.is, til dæmis, þó ekki hafi skort tilefnin á undanförnum árum. Ágætt að rifja upp gamla orðatiltækið… ef maður hefur ekkert jákvætt fram að færa, er kannski best að segja ekki neitt.

      En, eins og ég segi — þitt líf, þitt val.

    • Diddi skrifar:

     Leyfum Steina að koma annað slagið, hann er leyndut aðdáandi ?

  • Georg skrifar:

   Steini minn þú ert rúmlega þrítugur en lætur eins og barn. Gerðu okkur greiða og vertu barnalegur á kop.is. Þetta er fyndið einu sinni en þetta er orðið mjög þreytt. Hefurðu i alvöru ekkert betra að gera en að vera með leiðindi á everton.is?

   Þar sem ég veit hver þú ert þá segi ég bara: takk og bless.

  • Elvar Örn skrifar:

   Æi frábært að þú munir eftir þessu commenti frá mér Steini, ég met það mikils.
   Liverpool er amk byrjað að detta niður töfluna og bara spurning hvenær Everton fer uppfyrir þá.
   Everton náði amk að skora mark um helgina,,,en ekki Liverpool.

   En annars, verður gaman að sjá derby leikinn í desember þar sem Everton mun klárlega vinna leikinn..

   Everton klárlega betra liðið gegn Swansea og lygilegt að Everton hafi ekki skorað í fyrri hálfleik, þeir fengu nú færin til þess. En svona er þetta stundum.

   Untill next time.

   • Steini skrifar:

    Haha þú manst kanski að þú skuldar mér kassa af bjór fyrir álíka jafn vitlaust komment ???

 5. Gunnþór skrifar:

  Þetta var svakaleg dýfa hjá Gylfa skelfilegt að sjá að dómarinn skuli falla fyrir þessu.

 6. Gestur skrifar:

  Jagielka ætti bara að fara í ameríska fótbolta ef hann ætlar að spila svona. Mikið svekelsi að svona reyndur varnarmaður haldi að það gangi upp.

 7. Ari S skrifar:

  Hann virðist því miður vera kominn á endastöð. Það kemur hjá öllum einhvern tímann.

 8. halli skrifar:

  Frá mínu sjónarhorni þá voru vængirnir afspyrnuslakir í fyrrihálfleik og Lennon slakasti maður vallarins. Hefði ég verið til í að sjá Deulofeu koma inn strax í hálfleik hann var besti maður vallarins eftir að hann kom inn. Ég var svo búinn að segja Birtu fljótlega eftir hálfleik að ég vildi fá Mirallas inn fyrir McCarthy og láta Barkley bakka og vá þvílík breyting við það. Mín skoðun er sú að það sé staðan hans Barkley á vellinum besti maður liðsins í dag. Bolasie var mjög slakur hélt ekki breidd á vellinum og náði engu sambandi við Baines vinstra megin. Horn og aukaspyrnur svona eins og í 5 flokki. Hef þetta ekki lengra en mikið hrikalega er gaman að koma hingað á völlinn okkar.

  Kv Halli

  • Ari S skrifar:

   Eitt með Bolasie hann var slakur í heildina, sammála því en hann átti samt hættulegar sendingar fyrst á Lukaku sem var alls engan veginn tilbúinn að taka á móti boltanum og síðan þegar hann (Bolasie) gaf á Barkley. Þá hefðum við getað verið komnir í 2-0 ef að Barkley og Lukaku hefðu verið meira vakandi eftir frábæra bolta frá Bolasie. Ég var mjög ánægður að sjá hvað Baines kom vel út miðað við að þetta var hans fyrsti leikur.

 9. Gunnþór skrifar:

  Málið er að jags kom varla við hann einhver smá snerting en ekki til fullvaxta maður detti.

 10. halli skrifar:

  Gylfi var með hrikalega dýfu þarna ég sat þarna fyrir aftan markið aldrei víti en Gylfi er okkar maður
  ????

 11. Einar Gunnar skrifar:

  Það var frábært að að ná marki undir lokin til að tryggja stig úr þessum leik. Við eigum enn mikið inni, ná t.d. meiri breidd í markaskorun. Að Barry sé næst markahæstur (2 mörk) hjá okkur segir sína sögu.
  Vörnin. Ætla að gefa mönnum séns, en fyrr en síðar er þörf róttækra breytinga.
  Staðan í dag; við erum svo sem ekki fjarri þeim liðum er keppa að Evrópusæti. Liðin eru, Arsenal, Chelsea, Liverpool, Manchester City, Manchester United og Tottenham Hotspur. Allt álitlegir kandídatar um efstu sætin. Everton á heima þar.
  Fyrir neðan okkur eru lið eins og Bournemouth, Burnley, Watford, Southampton, Stoke City og West Bromwich Albion. Kannski ekki líkleg undir venjulegum kringumstæðum í Evrópusætum.

  Munum vinna næsta leik!

 12. Finnur skrifar:

  Coleman í liði vikunnar að mati BBC:
  http://www.bbc.com/sport/football/38045037

 13. þorri skrifar:

  Er David silva á leiðinni til okkar ég yrðu mjög ánægður ef hann kæmi

 14. Trausti skrifar:

  Valencia skipt inná fyrir Jakann ekki Móri! Hver er að skrifa þetta?

%d bloggers like this: