Man City vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Everton mætir Pep Guardiola og lærisveinum hans hjá Manchester City á útivelli í 8. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar á morgun og er ekki hægt að segja annað en að verkefnið framundan hjá Everton liðinu sé risastórt. City menn eru í efsta sætinu og hafa unnið alla leiki sína á heimavelli á tímabilinu (í öllu keppnum) með markatölu sem er Íslendingum ekki að góðu kunnug: 14-2. Þeir töpuðu reyndar síðasta leik sínum (á útivelli), en sú staðreynd gæti unnið gegn okkar mönnum því City menn verða staðráðnir í að komast aftur á sigurbrautina. Það er þó vonandi að Koeman hafi lært hvernig á að höndla þá en með sigri getur Everton komist upp í 2. sæti í deild. Leikurinn verður í beinni á Ölveri og byrjar kl. 14:00.

Lukaku og Jagielka voru metnir tæpir fyrir leikinn en þeir tveir, ásamt Baines, hafa allir náð að jafna sig af meiðslum sínum og geta því mætt Manchester City á morgun. Darron Gibson hefur einnig jafnað sig af uppskurði sem hann fór í á nára en James McCarthy og Aaron Lennon eru metnir tæpir. Muhamed Besic, Tyias Browning og Matthew Pennington eru allir frá til lengri tíma.

Líkleg uppstilling: Stekelenburg, Baines, Williams, Jagielka, Coleman, Barry, Gueye, Mirallas, Barkley, Bolasie, Lukaku. Hjá City eru Sterling og de Bruyne tæpir en þess má geta að City menn hafa unnið 62% leikja sinna með de Bruyne innanborðs en aðeins 35% leikja án hans. Fabian Delph er jafnframt metinn tæpur og Bacary Sagna er meiddur.

Í öðrum fréttum er það helst að Ronald Koeman jafnaði félagsmet Everton í síðasta leik en þá jafnaði hann met Walter Smith hvað varðar fæst mörk á sig í fyrstu sjö Úrvalsdeildarleikjum á tímabilinu. Þetta var met sem Walter Smith setti árið 1998, stuttu eftir stofnun Úrvalsdeildarinnar (1992) en þess má þó geta að Walter Smith lék oft með fimm varnarmenn og leikirnir urðu því yfirleitt daprir fyrir áhorfendur — og enduðu oft með markalausu jafntefli. Everton liðið nú spilar allt annan bolta og hefur liðið unnið fjóra af fyrstu sjö deildarleikjunum og aðeins gert tvö jafntefli en engu liði á tímabilinu hefur tekist að skora meira en eitt mark í leik gegn Everton.

Af ungliðunum er það að frétta að…

– U23 ára liðið vann Wolves U23 1-0 (sjá vídeó) í deild með marki úr víti frá Jonjoe Kenny en þeir töpuðu svo fyrir Cheltenham Town, 2-1, í Checkertrade Trophy bikarnum. Mark Everton í þeim leik skoraði David Henen.
– U18 ára liðið lenti 4-1 undir gegn Sunderland U18 en náðu svo 4-4 jafntefli af miklu harðfylgi. Mörk Everton skoruðu Shayne Lavery (víti), Daniel Bramall, og Fraser Hornby (tvö).
– Beni Baningime, 18 ára miðjumaður og fyrirliði U18 ára liðsins, skrifaði undir atvinnumannasamning við Everton á dögunum til loka 2017/18 tímabilsins.
– Jonjoe Kenny, fyrirliði Everton U23, skrifaði einnig undir nýjan samning til þriggja ára.

En, City menn eru næstir, kl. 14:00 á laugardaginn. Sjáumst á Ölveri!

3 Athugasemdir

  1. þorri skrifar:

    ég ætla að mæta á morgun og hvet alla sem eru í klúbbnum að mæta og fagna með okkur og hafa gaman af því að vera saman. KOMA SVO ÁFRAM EVERTON

  2. Gestur skrifar:

    Þetta verður erfitt í dag, liðið líka eitthvað laskað☺

  3. þorri skrifar:

    það kemur maður í mann stað ekki rétt.við getum alveg unnið þetta Mancester lið.En þetta verður eriður og skemtilegur leikur

%d bloggers like this: