Everton vs. Crystal Palace

Mynd: Everton FC.

Everton á fyrsta leik 7. umferðar ensku Úrvalsdeildarinnar þegar þeir mæta Crystal Palace en flautað verður til leiks annað kvöld kl. 19:00. Baines er lítillega meiddur og verður ekki hætt og James McCarthy þarf meiri tíma. Einnig eru Besic og Pennington frá til lengri tíma vegna meiðsla. Líkleg uppstilling því: Stekelenburg, Oviedo, Williams, Jagielka, Coleman, Gueye, Barry, Mirallas, Barkley, Bolasie, Lukaku.

Þetta verður því að öllum líkindum fyrsti leikur Bolasie gegn sínum fyrrum samherjum hjá Crystal Palace. Hjá þeim eru Scott Dann, Jonathan Benteke og Pape Souare meiddir en tvennum sögum fer af því hvort Wilfried Zaha sé orðinn nægilega góður. Við vonumst að sjálfsögðu eftir sigri til að svara fyrir nokkuð óvænt tap gegn Bournemouth í síðustu umferð en liðið hafði fram að því verið taplaust í fyrstu fimm leikjunum.

Í öðrum fréttum er það helst að ferð í keiluhöllina annað kvöld fellur því miður niður. Viðbrögðin við auglýsingunni gáfu þó tilefni til að reyna aftur síðar þegar við getum gefið betri frest og fundið helgi sem hentar betur.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U23 sigruðu Man United U23, 2-0, á heimavelli en mörk Everton skoruðu Oumar Niasse og Dominic Calvert-Lewin, ungliðinn sem nýlega var keyptur til liðsins. Everton U23 eru sem fyrr á toppi U23 ára Úrvalsdeildarinnar með tveggja stiga forskot á næsta lið eftir 6 leiki.

Klúbburinn birti tvö skemmtileg vídeó á dögunum en það fyrra sýnir Everton U23 sigra lið Leicester U23 á útivelli, 1-4 (sjá vídeó) og eru þeir enn efstir í U23 ára deildinni (Premier League 2 eins og hún er kölluð). Mörk Everton skoruðu Harry Charsley, Courtney Duffus, Antony Evans og Calum Dyson.

Í seinna vídeóinu tók Everton U18 svo nágranna sína, Liverpool U18, í kennslustund og unnu með sömu markatölu, 1-4 (sjá vídeó). Mörk Everton skoruðu Antony Evans og Daniel Bramall, með tvö hvor. Þetta er annar sigurleikur þeirra í röð í U18 ára deildinni, eftir slaka byrjun, en þeir hafa aldeilis tekið sig saman í andlitinu því markatala Everton í síðustu tveimur leikjum er 10-2, Everton í vil.

Einnig dúkkaði upp vídeó af nýlegum stórsigri U23 liðsins á Arsenal U23, 0-5 á útivelli, sem greint var frá á dögunum.

Comments are closed.

%d bloggers like this: