Everton – Middlesbrough 3-1

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin: Stekelenburg, Baines, Williams, Jagielka, Coleman, Barry, Gueye, Mirallas, Barkley, Bolasie, Lukaku.

Middlesbrough komu nokkuð á óvart og voru sprækir í fyrri hálfleik. Fengu fyrsta færið eftir aukaspyrnu utan af kanti en boltinn sigldi gegnum alla vörn Everton og sem betur fer út af.

Middlesbough skoruðu síðan kolólöglegt mark á 21. mínútu þegar Negredo skallaði boltann úr höndunum á Stekelenburg og í netið. Öllum augljóst að þetta væri brot, nema dómara og línuvörðum. 0-1 fyrir Middlesbrough.

En Everton liðið tók málin í sínar hendur og svaraði með þremur mörkum í fyrri hálfleik, það fyrsta aðeins mínútu eftir mark Middlesbrough. Markið kom eftir horn þar sem Williams var upp við mark, sparkaði boltanum í bakið á varnarmanni og þaðan barst boltinn til hægri út í teig þar sem Barry var vel staðsettur og þrumaði inn — í sínum 600. leik í Úrvalsdeildinni. Staðan 1-1. Einhver benti reyndar á það að þetta hefði verið háskaleikur hjá Williams í aðdragandanum, en ég missti af því…

Bolasie, sem hafði verið ógnandi fram að þessu náði skalla á mark en hárfínt yfir slána, á 31. mínútu, eftir fyrirgjöf. En tíu mínútum síðar var Everton komið yfir og komið að Coleman að skora laglegt mark á 41. mínútu. Hann kom á hlaupinu inn í teig við hornið á teignum hægra megin, fékk stutta sendingu frá Lukaku og nýtti hraðann til að sóla einn varnarmann og þruma svo í hornið niðri á nærstöng. Óverjandi fyrir markvörð og staðan orðin 2-1.

Og ekki létu þeir þar við sitja heldur bættu bara við marki rétt fyrir hálfleik (í uppbótartíma). Bolasie lék á varnarmann Middlesbrough og sendi háan bolta fyrir. Lukaku var á leið frá marki, líkt og varnarmenn Middlesbrough, en var fyrstur að hugsa og sneri við og náði rétt að pota í boltann nægilega til að fipa markvörð sem missti hann framhjá sér. Í fyrstu virtist hann ekki hafa snert boltann og því Bolasie sem fengi skráð á sig fyrsta markið fyrir Everton en markið var samt skráð á Lukaku.

Það sem meira máli skipti var forysta Everton í hálfleik: 3-1.

Og hvað er rétt að segja um seinni hálfleik? Kannski sem minnst því það gerðist eiginlega ekki neitt.

Það helsta markverða hvað Everton varðaði var þrjár skiptingar: Lukaku út af fyrir Valencia á 66. mínútu, Mirallas út af fyrir Deulofeu á 72. mínútu og Barry út af fyrir Cleverley á 92. mínútu.

Middlesbrough áttu ekki skot á mark í öllum leiknum og Everton sigli þessu bara í höfn og lönduðu þremur stigum sem er í raun það sem maður hefur stundum öskrað á liðið að gera tveimur mörkum yfir á fyrri tímabilum, þó boltinn fyrir vikið verði ekki jafn skemmtilegur.

En annað sætið er staðreynd eftir 5. umferð (og næstbesta markahlutfallið í deild) sem er töluverð breyting frá fyrri árum en Everton hefur oft farið rólega af stað á tímabilinu en þetta mun vera besta byrjun Everton frá því Úrvalsdeildin var stofnuð. Þetta lofar mjög svo góðu — þó ekki sé langt liðið á tímabilinu — og ekki laust við að mann gruni að það sé eitthvað mikið að gerast hérna…

Einkunnir Sky Sports: Stekelenburg (5), Baines (7), Williams (7), Jagielka (7), Coleman (8), Gana (9), Barry (8), Mirallas (7), Barkley (8), Bolasie (7), Lukaku (7). Varmenn: Deulofeu (6), Cleverley (n/a), Valencia (6). Middlesbrough stöggluðu við að ná einum manni í 7, restin 6, 5 eða 4 í einkunn.

11 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ágætur fyrri hálfleikur.
  Staðan ætti með réttu að vera 3-0 en dómarinn er fáviti (svo sem ekkert nýtt í þessari deild).
  Það væri gaman að sjá Everton skipta um gír í seinni hálfleik og gjörsamlega slátra boro. Hef á tilfinningunni að okkar menn eigi meira inni.

 2. þorri skrifar:

  ER sammála að okkar menn eiga miklu meira inni en þetta. annað sæti í höfn og besti árángur hjá Everton í nokkur ár. ég hugsa að þeir verði í toppbáráttunni í vetur

 3. Ari G skrifar:

  Frábær fyrri hálfleikur hjá Everton. Gueye stórkostlegur sennilega bestu kaup tímabilsins í ensku ekki spurning. Barkley var lélegur á móti Sunderland en mjög góður í þessum leik. Barry er ennþá magnaður leikmaður. Bolasie góður þessir 4 bestu menn leiksins en Gueye maður leiksins.

 4. Elvar Örn skrifar:

  Ég er svo ánægður með Barry, hann og Gana eru svakalegir fyrir framan vörnina. Vörnin mögnuð, ekkert við Sekelenburg að sakast, þetta eru mistök dómara. Allt annað að sjá Barkley og liðið mjög flott í dag. Enn er Bolasie með stoðsendingar og Lukaku aftur með mark og komin með 4 stk í deildinni.
  Gana bestur hjá Everton í þessum fyrstu leikjum og þvílík kaup.
  Williams og Jagielka eru að spila saman eins og þeir hafi verið að spila saman í mörg ár.
  Besta byrjun Everton í háa herrans tíð og ekki lang í leik gegn efsta liðinu Man City.
  Maður verður nú að fara út í vetur á leik.

  Vona að þið hafið skemmt ykkur á Ölveri og góða skemmtun í kvöld félagar.

 5. halli skrifar:

  Flottur leikur hjá okkar mönnum. En þvílíkur dagur hjá okkur í klúbbnum flottur aðalfundur frábær leikur og alveg geggjað kvöld takk fyrir mig félagar

 6. halli skrifar:

  Finnur kemur myndadyrpa inn hér?

 7. Gunnþór skrifar:

  Takk fyrir daginn kæru félagar þetta var magnað eins og Everton liðið var einnig.

 8. Finnur skrifar:

  Coleman er í liði vikunnar að mati BBC:
  http://www.bbc.com/sport/football/37398631

%d bloggers like this: