Sunderland – Everton 0-3

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin: Stekelenburg, Baines, Williams, Jagielka, Coleman, Barry, Gueye, Mirallas, Barkley, Bolasie, Lukaku. Varamenn: Robles, Funes Mori, Holgate, Davies, Lennon, Deulofeu og Kone.

Leikurinn lofaði mjög góðu til að byrja með, fjör frá fyrstu mínútu (Lukaku næstum kominn strax í dauðafæri) og Everton ívið beittari — og mun meira með boltann (67% fyrstu tuttugu) — en eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn fór að dofna yfir þessu og minna að gerast.

Besta færi Everton kom á 13. mínútu þegar Bolasie átti mjög flotta fyrirgjöf af hægri kanti sem Lukaku náði að skalla á mark af tiltölulega stuttu færi. En varamarkvörður Sunderland náði „reactionary save“ eins og þeir ensku kalla það og bjargaði í horn. Þarna hefði staðan átt að vera 0-1.

Sunderland áttu erfitt með að skapa sér færi og sóknir þeirra brotnuðu ítrekað á Barry og Gueye og það sem þeir tveir náðu ekki sá varnarlína Everton um að sópa upp. Sunderland menn áttu eitt „speculative“ skot af löngu á 39. mínútu sem hefði geta farið í boga og laumast undir slána en Stekelenburg vel á verði og varði í horn.

0-0 í hálfleik.

Koeman hristi upp í þessu í hálfleik — setti Deulofeu inn á fyrir Barkley (sem hafði verið mistækur) og leikur Everton batnaði til muna við þetta. Bolasie fór á vinstri kant, Deulofeu á þann hægra og Mirallas í holuna.

Sunderland byrjuðu þó betur og áttu gott færi upp úr horni sem þeim tókst ekki að skora úr (skalli beint á Stekelenburg) en eftir það tók Everton við stjórnartaumunum.

Deulofeu byrjaði á að fara illa með Kone innan teigs Sunderland og komst í gott færi en skotið blokkerað. Boltinn barst þó til Barry sem sendi út í teig hægra megin til Coleman sem var á auðum sjó. Hann tók skotið á fjærstöng vinstra megin, hefði farið rétt framhjá en Lukaku var mættur til að breyta um stefnu á boltanum en hann sigldi rétt framhjá markinu (boltinn, ekki Lukaku).

Og Everton liðið var alls ekki hætt, því þeir fengu skyndisókn stuttu síðar þar sem Deulofeu reyndi stungu á Mirallas en sendingin blokkeruð. Gana var þó mættur í uppsópið og fór með boltann óáreittur að vítateig og sendi algjörlega frábæra háa fyrirgjöf frá hægri, beint á skallann á Lukaku sem gat ekki annað en skallað í netið. 0-1 fyrir Everton.

Lukaku loksins búinn að rjúfa markaþurrðina og hann var sko alls ekki hættur. Hann byrjaði reyndar á að senda þeim viðvörun með skoti innan teigs sem endaði í slá. Það kom þó ekki að sök því hann skoraði bara í staðinn með skalla á 67. mínútu eftir glæsilega fyrirgjöf frá vinstri frá Bolasie. 0-2 fyrir Everton. Og stuttu síðar var hann búinn að ná þrennu í leiknum á aðeins tíu mínútum — Mirallas átti stungusendingu upp völlinn beint í hlaupaleið Lukaku sem skoraði auðveldlega framhjá markverði. 0-3 fyrir Everton. Moyes greinilega enn ekki búinn að koma skikki á vörn Sunderland.

Everton reyndi sitt besta til að bæta einu marki við, sem hefði gefið annað sætið í deild. Fyrst Bolasie úr langskoti sem markvörður Sunderland þurfti að hafa sig allan við til að verja. Lukaku átti svo skot yfir úr ákjósanlegu færi. Deulofeu komst upp að endamörkum hægra megin í lokin og átti skot sem hefði hafnað í netinu innanverðu ef Sunderland hefðu ekki náð að blokkera skotið í horn.

Tvær skiptingar í lokin, Bolasie (fékk smá skurð eftir tæklingu sýndist manni) út af fyrir Davies á 75. mínútu og Kone inn á fyrir Lukaku undir lokin en hann var alveg búinn.

En leikurinn endaði 0-3 fyrir Everton og þriðja sætið því staðreynd eftir umferðina.

Einkunnir Sky Sports: Stekelenburg (6), Baines (6), Williams (6), Jagielka (7), Coleman (7), Gueye (8), Barry (6), Mirallas (7), Barkley (6), Bolasie (8), Lukaku (8). Varamenn: Deulofeu (6), Davies (3), Kone (1). Skil reyndar ekki alveg tilganginn í að gefa þrjá og einn í einkunn sökum þess að þeir komu seint inn á, en hvað um það. Sunderland menn mestmegnis í fimmum og sexum. Lukaku maður leiksins.

Í lokin er rétt að minna líka á aðalfundinn á laugardaginn en fjörið byrjar kl. 15:00 á Ölveri og svo horfum við á leikinn við Middlesbrough eftir fund! Það fer líka hver að verða síðastur að skrá sig á árshátíð Everton sem haldin verður um kvöldið! Endilega takið eina mínútu í að svara könnuninni hér að neðan.

14 Athugasemdir

  1. Gunnþór skrifar:

    Jæja nú er gott að fara mæta til leiks í seinni hálfleik. Getið þið sagt mér hvað kom fyrir barkley.

  2. Diddi skrifar:

    kom eitthvað fyrir hann, hann er búinn að vera svona lélegur lengi. En 28 millurnar sem við borguðum fyrir Bolasie hefði betur verið varið í endurbyggingu Goodison, Deulefoe er mikið betri og hlýtur að hugsa hvers vegna hann sé á bekknum 🙂

  3. Gunnþór skrifar:

    Það á að fara byggja nýjan völl þannig að það er ekki verið að eiða peningum í uppbyggingu en barkley hefur ekki verið svona slakur.

  4. Diddi skrifar:

    djöfull er Bolasie góður 🙂

  5. Gunnþór skrifar:

    Flott frammistaða í seinni flottir varnalega og fínir framávið.

  6. þorri skrifar:

    sælir félagar mitt mat á leiknum lala fyrri hálfleikur seinni hálfleikur frábær að okkar hálfu. Þessir nýju leikmenn okkar sem liðið fékk í sumar. mitt mat voru frábærir. Það sýnir sig þegar Barkley fór út af og bara annar inn ekki síðri sem er jákvætt og breiddin er meiri í liðinu og ég held að veturinn verði frábær hjá EVERTON.

  7. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Vel gert hjá okkar mönnum. Fyrri hálfleikur sæmilegur en fjaraði svolítið út undir lokin. Seinni hálfleikur mjög góður og sigurinn aldrei í hættu eftir fyrsta markið, Sunderland átti engin svör.

    Svo er hérna frétt sem gerir mann ennþá stoltari af félaginu.

    http://www.espnfc.co.uk/everton/story/2949149/everton-donate-200,000-toward-sunderland-fans-cancer-battle

    Þetta er týpískt Everton.

  8. Finnur skrifar:

    Mikið rétt.

    Svo fannst mér líka gaman að lesa þessa grein:
    http://www.skysports.com/football/news/11671/10576030/jamie-carragher-and-phil-neville-praise-everton-midfielder-idrissa-gueye-on-monday-night-football

    Hulunni þar með svipt af leynivopni okkar, Idrissa Gana Gueye. Gaman að sjá hversu vel Barry og Gueye vinna saman á miðjunni í að brjóta niður sóknir andstæðinganna og þegar þeir ná svona spilamennsku með Jags og Williams fyrir aftan sig, trausta að vanda, þá eru ekki margir valkostir í boði fyrir hitt liðið annað en skot af löngu færi eða föst leikatriði.

  9. Georg skrifar:

    Þvílíkur munur á holningunni í liðinu síðan að Koeaman tók við liðinu og þá sértaklega þegar maður horfir á varnarskipulagið í liðinu.

    Stekeleburg ekki búin að stíga feilspor, sama má segja um Williams og Gana. Bolasie sýndi það í seinni hálfleik í gær þegar hann er að spila í sinni uppáhaldsstöðu, vinstri kanti að hann er frábær þar. Þvílíkur sprenginkraftur í manninum, með 2 frábærar stoðsendingar og átti einnig frábæra sendingu í fyrri hálfleik á Lukaku sem endaði næstum með marki.

    Miðað við hversu vel Gana hefur byrjað fyrir okkur þá er í raun hlægilegt að hugsa til þess að hann kostaði 7,1m pund. Það sem hefur komið mér mest á óvart við hann er hvað hann er viljugur að fá boltann og dreifa spilinu, hann er ekki að flækja hlutina, hann átti 120 snertingar á boltann í leiknum í gær þar af 106 sendingar, sem segir manni að hann er ekki mikið að dvelja á boltanum og kemur boltanum hratt frá sér.

    Maður vissi að Gana væri frábær í að vinna tæklingar og vinna boltann af andstæðingunum (var með næst bestu tölfræðina í 5 stærstu deildum evrópu í fyrra í því) en hann er með miklu meira í sínum leik. Hann átti 106 sendingar í gær þar af 101 heppnuð (95% heppnaðrar sendinga). Heilt yfir besti leikmaðurinn okkar hingað til á tímabilinu.

    Gaman líka að sjá að Mirallas er að fá traustið hjá Koeman og hefur byrjað alla leikina í deildinni. Hann lítur líka mjög fit út.

    Þetta gæti orðið áhugavert tímabil hjá okkar mönnum.