Everton vs. Yoevil Town (deildarbikar)

Mynd: Everton FC.

Everton á heimaleik annað kvöld við Yeovil Town í annarri umferð enska deildarbikarsins kl. 18:45. Everton hefur aldrei, þrátt fyrir langa sögu, nokkurn tímann einu sinni svo mikið sem leikið á móti Yeovil Town (ekki einu sinni vináttuleik) og ástæðan er ekki sú sem maður myndi búast við. Yeovil Town er nefnilega alls ekki mikið yngra því liðið var stofnað árið 1895 (sem Yeovil Casuals) aðeins 17 árum á eftir Everton. Yeovil liðið, sem staðsett eru í bænum Yeovil, Somerset, og kallaðir eru The Glovers eru sem stendur í 16. sæti ensku D-deildarinnar, með fjögur stig eftir fjóra leiki (einn sigurleik og eitt jafntefli). Tengsl hafa þó myndast á milli þessara félaga gegnum tíðina, en Everton leikmennirnir John Lundstram, Shane Duffy og Liam Walsh hafa allir farið á láni til Yeovil.

Það er erfitt að spá fyrir um uppstillingu Everton fyrir leikinn, en Koeman hefur gefið það út að hann muni taka þessa bikarkeppni alvarlega og sé „ekki maður sem er líklegur til að gera átta eða fleiri breytingar á liði sínu“ að eigin sögn. Líklega er samt best að leyfa lesendum að spreyta sig á uppstillingunni fyrir leikinn en Koeman hefur þó gefið út að Ashley Williams, Yannick Bolasie og Romelu Lukaku muni vera í byrjunarliðinu. Coleman missir af leiknum og Muhamed Besic og Matthew Pennington eru frá til lengri tíma.

Stóra fréttin undanfarna daga hlýtur að teljast ákvörðun Lukaku um að draga til baka beiðnina um að vera settur á sölulista sem hljóta að vera kærkomnar fréttir fyrir stuðningsmenn Everton. Spurningin nú er hvort hann samþykki framlengingu á sínum samningi, sem kannski fer eftir frammistöðu liðsins á tímabilinu undir stjórn Ronald Koeman.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U18 töpuðu á útivelli fyrir Englandsmeisturum Man City U18 3-1 en mark Everton skoraði Fraser Hornby. Sigurganga Everton U23 hélt hins vegar áfram en þeir mættu Derby U23 á heimavelli og unnu 2-0 en Harry Charsley skoraði bæði mörk Everton. Mörkin úr sigurleik Everton U23 gegn Reading (í síðustu viku) má sjá í vídeói hér.

Í öðrum fréttum má geta þess að Brendan Galloway fór að láni til Úrvalsdeildarliðsins West Brom til loka tímabils og á NSNO birtist grein um hvernig framgangi ungliðans Mason Holgate, sem hefur verið í byrjunarliði aðalliðsins undanfarið, hefur verið haldið vel leyndum.

En, Yeovil Town annað kvöld. Alls ekki víst hvort leikurinn verði sýndur á Ölveri.

Comments are closed.

%d bloggers like this: