West Brom vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Manni fannst það taka heila eilífð að bíða eftir því að nýtt tímabil undir stjórn Koeman byrjaði og eftir að hafa séð fyrsta leik og framfarirnar á liðinu (þvílíkir yfirburðir í fyrri hálfleik!) bíður maður spenntur að sjá hvað liðið mun gera þegar allir leikmenn verða komnir í toppform. Það mun þó taka tíma en nú er komið að næsta leik sem er útileikur gegn Tony Pulis og lærisveinum hans hjá WBA, á laugardaginn kl. 14:00.

West Brom menn enduðu í 14. sæti á síðasta tímabili og ekki hægt að segja að þeir hafi verið iðnir við kolann í leikmannakaupum og hópurinn þeirra því svipaður og í fyrra — aðeins einn nýr leikmaður hefur bæst við, en hann er 25 ára kantmaður frá QPR í ensku B-deildinni, Matt Phillips.

Everton hefur hægt og bítandi verið að styrkja sína innviði. Fyrst með tilkomu Ronalds Koeman, svo Steve Walsh í stöðu yfirmanns knattspyrnumála. Þeir hafa þegar keypt Maarten Stekelenburg og Idrissa Gueye (tvo af bestu mönnum Everton í upphafsleik tímabilsins) en einnig Ashley Williams og Yannick Bolasie. Koeman hefur jafnframt sagt að hann vilji kaupa 3-4 leikmenn í viðbót. Gert er ráð fyrir — án þess að vitað sé fyrir víst — að hann eigi þar við markvörð, miðvörð, kantmann og framherja en einnig er spurning hvort hann vilji meiri samkeppni í stöðu hægri bakvarðar því Coleman er meiddur (þó ekki sé nema í tvær vikur) og klúbburinn hefur engan náttúrulegan (reyndan) hægri bakvörð til að leysa hann af.

Af öðrum leikmönnum er það að frétta að Niasse og McGeady hafa fengið þau skilaboð frá Koeman að þeir munu ekki fá neinn tíma í aðalliðinu og þurfi að leita sér að öðrum liðum en skv. Koeman vita 3-4 aðrir leikmenn nú að þeir gætu þurft að hugsa sér til hreyfings ef þeir vilja spila reglulega. Vangaveltur hafa verið þar um hverjir það séu en kæmi ekki á óvart þó það séu Kone og Gibson og… tja… Cleverley? McCarthy? Hvað haldið þið? Hverjum er ég að gleyma?

Í öðrum fréttum af leikmannamálum er það helst að Lukaku ætti að vera orðinn heill af sínum meiðslum og gæti því náð næsta leik gegn WBA. Auk þess hefur Williams hefur verið á fullu að koma sér í leikform eftir lengra sumarfrí (vegna góðs gengis á EM) og á einnig séns í leikinn. Bolasie er jafnframt í hópnum og verður líklega annaðhvort á bekknum eða í byrjunarliðinu. Eitt af því sem hann sagði í fyrsta viðtali sínu fyrir Everton var að Lukaku sé búinn að reyna lengi að fá hann yfir til Everton og loksins lét hann undan þrýstinginum og skrifaði undir. 🙂

Líkleg uppstilling fyrir West Brom leikinn: Stekelenburg, Funes Mori, Jagielka, Holgate, Baines, Gueye, McCarthy, Barry, Deulofeu, Barkley, Lukaku.

Í lokin eru hér nokkrar hraðsoðnar fréttir:

  • Slúðrið segir að samstarf Usmanov við stjórnarmeðlimi Arsenal sé orðið stirt og hann sé að hugsa sér að selja sinn hlut þar og fjárfesta í Everton en hann og Moshiri, núverandi (með)eigandi Everton, eru góðir félagar.
  • Meistari Ari S vísaði á góða hugleiðingu varðandi framtíðarplön Moshiri þegar kemur að leikmannakaupum.
  • Luke Garbutt fór að láni til Wigan til áramóta.
  • Sid Benson, njósnarinn sem meðal annars uppgötvaði hæfileika Ross Barkley strax í barnaskóla, er, því miður, látinn.
  • Klúbburinn gerði samning við Sega og Sports Interactive um að fólkið á bak við Football Manager leikinn gerist samstarfsaðilar klúbbsins.
  • Til gamans má geta að fjórir af þeim ellefu leikmönnunum sem notendur völdu oftast í fantasy deild Sky Sport leika nú eða hafa leikið áður fyrir Everton. Þrír ættu að vera algjörlega augljósir — veist þú hver sá fjórði er? 🙂

Og af ungliðunum er það að frétta að Everton U18 töpuðu fyrir Newcastle U18 1-0 en sigurganga Everton U23 heldur áfram. Þeir unnu bæði Tottenham U23 í deild 0-2 (sjá vídeó) og Reading U23 2-1 (sjá vídeó) í fyrsta leik sínum í International Premier League Cup. Þeir halda þar með áfram rjúkandi formi sínu eftir að hafa staðið uppi sem sigurvegarar í þremur bikarkeppnum í röð í byrjun tímabils — eins og fram hefur komið. Mörk Everton gegn Tottenham skoruðu Matthew Foulds og David Henen en mörkin gegn Reading komu frá Calum Dyson og Antony Evans.

En, West Brom næstir á laugardaginn kl. 14:00. Koma svo bláir!

7 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Samkvæmt auglýstri dagskrá verður leikurinn ekki sýndur á Ölveri…

  2. Trausti skrifar:

    Fuck Ölver ! Finnur finnur annan bar til að berja Everton augum.:)

    • Einar G skrifar:

      Málið er að leikurinn er ekki sýndur í beinni þetta eru þessar nýju sjónvarpsreglur. Þannig að örfáir leikir í beinni. Sýnist samt að leikurinn sé sýndur á NBC sport ef menn eru með það.

    • Finnur skrifar:

      Ég verð ekki í bænum um helgina, en látið vita hér þið finnið bar sem sýnir leikinn.

      Á meðan við bíðum leiks er hér stutt vídeó af mörkum U23 árs liðsins í 2-0 sigurleik þeirra gegn Tottenham á dögunum…

  3. Elvar Örn skrifar:

    Everton er komið í samningaviðræður við forsvarsmenn Man City varðandi Joe Hart og talið líklegt að hann komi (skv. áreiðanlegum heimildum). Hart kemur þó hugsanlega bara á árs lánssamning með möguleika á framlengingu en sumir miðlar telja að um kaup verði að ræða.
    Nýr samningur sem Sunderland bauð Lamine Kone hefur verið hafnað af honum og taldar eru auknar líkur á að hann endi hjá Everton (skv. áreiðanlegum heimildum).

  4. Gunnþór skrifar:

    Líst vel á þetta allt saman.