Everton – Espanyol 0-1 (vináttuleikur)

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Espanyol í dag og aðeins eitt mark skildi að liðin en bæði liðin fengu dæmda vítaspyrnu á sig í fyrri hálfleik og Espanyol nýttu sína en okkar menn ekki.

Nýi leikmaður Everton, Idrissa Gueye, var í byrjunarliðinu í sínum fyrsta leik fyrir Everton sem jafnframt var fyrsti heimaleikur Everton undir stjórn Ronald Koeman. Örugglega ekki verið ætlunin að henda Gueye beint í byrjunarliðið en þar sem Besic verður frá fram til áramóta vegna meiðsla æxlaðist þetta svo.

Uppstillingin fyrir Espanyol leikinn, síðasta leik undirbúningstímabilsins: Stekelenburg í marki. Varnarlínan: Baines, Funes Mori, Stones, Coleman. Nýi leikmaður Everton, Idrissa Gueye, djúpur miðjumaður fyrir aftan Barry á miðjunni. Mirallas, Barkley og Deulofeu framliggjandi með Lukaku uppi á toppnum.

Varamenn: Joel, Jagielka, Oviedo, Holgate, Galloway, McCarthy, Davies, Kone, Lennon, Tarashaj.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Idrissa Gueye, sem var kannski of ákafur að sýna hvað hann gæti því hann gaf víti strax á fyrstu mínútum leiksins. Ekki besta kynningin á hans hæfileikum, en betra að þetta gerist núna á undirbúningstímabilinu en í fyrsta leik gegn Tottenham. Espanyol skoruðu örugglega úr vítinu. Staðan 1-0.

Barkley átti gott skot að marki á 10. mínútu, alveg upp við slá sem markvörður Espanyol þurfti að vera fljótur að hugsa og slá yfir markið.

Espanyol menn voru líklegir til að bæta við eftir frábæra sendingu af vinstri kanti sem endaði með skoti fyrir framan mark sem Stekelenburg þurfti hafa sig allan við að slá í horn.

Funes Mori fékk frábært færi hinum megin eftir horn. Boltinn barst úr horni yfir á Barkley sem framlengdi boltann með skalla inn á fjærstöng og þar kom Funes Mori á siglingu en hitti ekki fyrir opnu marki úr þröngu færi.

Lukaku átti næsta færi Everton þegar hann vann boltann við vítateiginn af varnarmanni Espanyol og náði flottu skoti. Boltinn á leið í samskeytin þegar markvörður þeirra varði glæsilega í horn.

Mirallas komst stuttu síðar næstum inn í sendingu frá varnarmanni aftur til markvarðar, vantaði bara herslumuninn. Náði reyndar að komast fyrir hreinsun markvarðar með skriðtæklingu og boltinn hefði getað farið hvert sem er en endaði úti á velli. Espanyol sluppu með skrekkinn.

Leikurinn róaðist nokkuð við þetta en Everton jók pressuna þegar leið á. Rétt fyrir lok hálfleiks fór Deulofeu ítrekað illa með tvo varnarmenn hægra megin í teignum og annar þeirra endaði á að fella hann. Klárt víti. Barkley tók vítið, setti boltann hátt og fast uppi við slá en markvörður sem var að kasta sér í annað hornið náði að slengja hendi í boltann og verja.

Staðan því 1-0 fyrir Espanyol í hálfleik.

Ein breyting á liði Everton í hálfleik — Phil Jagielka inn á fyrir Funes Mori, sem hafði fengið gult spjald undir lok hálfleiks (sem þó var líklega ekki ástæða skiptingarinnar). Mikilvægt að fá Jagielka heilan aftur og fá sem mestan tíma til að komast í leikform.

Everton með undirhöndina í seinni hálfleiks og leikmenn Espanyol sköpuðu lítinn usla í vítateig Everton. Espanyol sáttir við að verjast á mörgum mönnum og halda 1-0 forystu. Engin almennileg færi hjá þeim að heita mátti í seinni hálfleik. Örlítið meira að gerast hinum megin, en ekki nóg samt.

Barkley skapaði dauðafæri fyrir Lukaku strax á upphafsmínútum seinni hálfleiks með hárri stungusendingu inn fyrir vörn Espanyol en fyrsta snerting Lukaku brást honum og markvörður náði að komast í boltann. Flott hugsun hjá Barkley.

Everton meira með boltann og meira að reyna en náðu ekki að bíta á varnarlínu Espanyol. Nokkuð rólegt var yfir leiknum þangað til Lukaku átti skot innan teigs á 64. mínútu en engin hætta — yfir markið.

Nokkrar skiptingar hjá Everton á 65. mínútu: Holgate inn á fyrir Stones, Kone inn á fyrir Lukaku, Lennon fyrir Deulofeu og McCarthy fyrir Barry. Mögulega meiddist Lukaku á ökkla í leiknum en eftir á að koma í ljós hvort það sé alvarlegt eður ei.

Lennon átti flotta sendingu af hægri kanti sem varnarmaður skallaði aftur fyrir til að koma í veg fyrir að Mirallas kæmist í dauðafæri.

Tom Davies kom svo inn á fyrir Gueye stuttu síðar.

Mirallas átti flotta aukaspyrnu að marki rétt fyrir leikslok sem breytti um stefnu af Jagielka og fór rétt framhjá stönginni. Óheppinn að skora ekki. Mirallas reyndi svo hjólhestaspyrnu örskömmu síðar en hitti ekki rammann.

Og það reyndist lokatilraunin í leiknum. Espanyol mörðu 1-0 sigur á vítaspyrnu. Ekki úrslitin sem maður myndi vilja sjá viku fyrir fyrsta leik en margir ljósir punktar samt sem áður. Stekelenburg virkaði öruggur og bakverðir okkar koma mjög frískir undan sumarfríum. Baines byrjaði tímabilið fyrr en venjulega og virkar í afar góðu formi. Coleman flottur á hægri líka. Barkley er að koma sterkur inn og Mirallas og Deulofeu sömuleiðis. Mirallas eins og nýr maður.

Helst að maður hafi áhyggjur af Lukaku sem fékk auka frí eftir EM og hefur því ekki æft jafn mikið. Virkar ekki jafn beittur og oft áður. Kone helst verið að sýna að styrkja þarf framlínuna frekar. Ungliðarnir Tom Davies og Mason Holgate hafa hins vegar komið skemmtilega á óvart og Barry virkar traustur sem fyrr.

19 Athugasemdir

 1. Hallur Jósepsson skrifar:

  Hvar eru nýju leikmennirnir er þatta en eitt arið í rugli,
  Lukaku og Stones seldir á siðasta degi felagsskiptanna mér finst þetta bara kki fyndið
  vill sja eitthvað gerast

 2. Ari G skrifar:

  Alveg sammála þér Hallur en sennilega er þetta vegna þess að nýji stjórinn þarf að kynnast leikmönnunum og ég treysti alveg nýja njósnarann okkar að finna réttu leikmennina. Vonandi veður Lukaku ekki seldur en ég sakna ekki Stones er ekki sannur Evertonmaður og selja hann fyrir 50 millur er frábært verð. Alveg til að fá Drexler frá WOLFSBURG þótt hann kosti 60 millur og Williams frá Swansea þótt mér finnst hann frekar dýr fyrir 32 ára leikmann redding fyrir Stones.

 3. þorri skrifar:

  ÉG held að koman sé að gera rétt Þetta er góður hópur sem við höfum og hann sér það bara sjálfur.Hann hugsar og seigir þetta er fínn hópur sem er hér hjá okkur við þurfum ekki nýja menn .Ég tala um ef lukako yrð kjúr hjá okkur.MÉR er farið að hlakka til að horfa á okkar menn í vetur .ÁFRAM EVERTON

 4. Diddi skrifar:

  ég veit ekki af hverju menn vilja nýja menn. Mér hefur skilist að liðið sem Martinez var með í fyrra hafi verið topp 4 efniviður og það hafi bara verið honum að kenna hvernig tímabilið klúðraðist. Það hlýtur því að vera í lagi að halda sama mannskap og ná meistaradeildarsæti og jú ???? spurning um að bæta við tveimur mönnum til að vera í titilbaráttunni. Mér sýnist nú annars svona í undirbúningi tímabilsins að þetta hafi lítið breyst með tilkomu annars stjóra þið fyrirgefið 🙂

  • Orri skrifar:

   Sæll Félagi.Þarna er ég þér algjörlega sammála ef enginn verður seldur hlítur Koeman að skila liðinu í að minstakosti 4 sæti.

 5. Gestur skrifar:

  Finnst ykkur Everton liðið svona sterkt í alvöru? Ég get ekki séð annað en að það þurfi að styrkja liðið á ýmsum stöðum. En vonandi breytir Koeman einhverju fljótlega og finni sjálftraustið aftur.

  • Diddi skrifar:

   nei Gestur, okkur Orra finnst það ekki og fannst það ekki en ykkur fannst það miðað við skrifin ykkar í fyrra 🙁

 6. Gestur skrifar:

  Eru menn ennþá sárir yfir því að Matrinez var látin taka pokann sinn?

  • Orri skrifar:

   Sæll gestur.Ég tala fyrir mig ég er ekki sár yfir því,en menn verða muna hvað þeir hafa verið að skrifa inn á þessa síðu það er það sem við Diddi erum að segja.Ef menn ekki muna það þá skulu þeir bara fletta aftur til síðasta vetrar og skoða það sem hér var skrifað.

   • Gestur skrifar:

    Auðvitað haðfi ég miklar væntingar til Martinez og liðsins í upphafi tímabils í fyrra sem endaði alveg hrapalega eins og við vitum. En að halda því fram að ef það verði ekki gerð breyting á liðnu þá hljóti Everton að enda í einum að fjórum efstu sætunum er bara til að toppa pirring ykkar á að Martinez sé farinn. Öll lið þurfa að kaupa og bæta sig til að komanst hærra en ég held að undirbúnings tímabilið hafi verið búið að skipuleggja áður en Koeman kom og vona að eitthvað fari að gerast í leikmanna málum.

    • Orri skrifar:

     Sæll Gestur.Ég sagði hér áðan að ég er ekki sá yfir brottför Martinez.’eg er bara benda á að margir sögðu að hópurinn síðasta vetur hefði verið nógu sterkur til að ná topp 4.

 7. Ari G skrifar:

  Everton þarf að kaupa markvörð trúi ekki að menn hér séu sáttir með markverðina núna. Everton þarf miðjuskapandi miðjumann með Barkley og Vinstri bakvörð þetta ætti að duga í 4 sætið ef enginn er seldur.

 8. Ari G skrifar:

  Meinti hægri bakvörð.

 9. Gunnþór skrifar:

  það þarf klárlega að auka gæði í leikmannahóp Everton uppá breiddina að gera þarf að hafa bekk sem býður uppá plan b án þess að veikjast verulega.

 10. Ari S skrifar:

  Everton þarf bara að sigra í fyrstu fjórum leikjunum og þá er ég sáttur. Þá er líka leikmannahópurinn kominn í ljós fyrir veturinn.

  😉

%d bloggers like this: