Man United – Everton 0-0 (Rooney Testimonial)

Mynd: Everton FC.

Everton lék vináttuleik gegn Man United í svokölluðum testimonial leik fyrir Wayne Rooney (sem var reyndar einnig fyrsti heimaleikur Zlatans Ibrahimovic fyrir United) en leikurinn hófst kl. 19:00.

Uppstillingin:  Stekelenburg, Funes Mori, Stones, Holgate, Baines, Coleman, McCarthy, Barry, Barkley, Deulofeu, Lukaku. Varamenn: Joel, Oviedo, Galloway, Gibson, Cleverley, Besic, Davies, Kone, Mirallas, Lennon.

Sem sagt: 3-5-2 uppstilling í dag með Stekelenburg í marki, Funes Mori, Stones og Holgate í miðverðinum. Baines og Coleman „wingbacks“, Barry og McCarthy á miðjunni. Deulofeu og Barkley fyrir aftan Lukaku frammi.

United sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og líklegri til að skora. Bæði lið vel skipulögð í vörn og greinilegt að Koeman mun bæta árangur Everton varnarlega séð á næsta tímabili (ætti ekki vera erfitt) en á móti kom að framherjar Everton virkuðu oft á tíðum einangraðir frammi.

Everton átti fyrstu tvö „skotin“ sem teljast á rammann: Eitt frá Baines (líklega meira fyrirgjöf þó) og Lukaku (of máttlaust til að valda vandræðum) en eftir um 25 mínútna leik náði Ibrahimovic skoti á mark hinum megin en beint á Stekelenburg.

Everton átti ágætt færi þegar Lukaku kom sér í hættulegt skotfæri við D-ið á teignum en skotið blokkerað af varnarmanni. Frákastið fór, hins vegar, beint til Barkley sem var í ennþá betra færi upp við mark hægra megin og hann miðaði á hliðarnetið fjær (vinstra megin) en De Gea kastaði sér niður og varði meistaralega.

United juku pressuna þegar nálgaðst hálfleikinn og fengu tvö mjög góð færi. Fyrst var Luke Shaw nálægt því að skora þegar hann tók skot rétt utan vítateigs en skotið breytti um stefnu af Stones og fór rétt framhjá stönginni. Ibrahimovic fékk svo færi vinstra megin við mark þegar Stones missti klaufalega af skalla en skotið frá Ibrahimovic beint á Stekelenburg.

Lukaku átti svo frían skalla rétt framhjá á 45. mínútu eftir flotta háa sendingu frá Coleman en skallinn rétt framhjá stönginni og De Gea gat bara horft á. Besta færið hingað til og Lukaku hefði einfaldlega átt að skora þar.

0-0 í hálfleik.

Nánast nýtt lið hjá United í seinni hálfleik — aðeins Rooney, De Gea, Ibrahimovic og Valencia fengu að halda sæti sínu. Tvær skiptingar hjá Everton: Robles inn á fyrir Stekelenburg og Mirallas inn á fyrir Deulofeu.

Everton byrjaði seinni hálfleikinn vel, voru meira með boltann og meira öryggi yfir leiknum þó United hefðu enn yfirhöndina. Það var þó Everton sem fékk eiginlega eina almennilega færið í seinni hálfleik því Mirallas var ekki langt frá því að skora á 52. mínútu þegar boltinn barst skyndilega til hans hægra megin í teignum en skotið frá honum utan í hliðarnetið ofarlega. Hefði átt að gera betur þar.

6 breytingar hjá Everton á 65. mínútu. Inn á komu Lennon, Besic, Gibson, Oviedo, Cleverly og Kone í staðinn fyrir Barry, Lukaku, Holgate, McCarthy, Baines og Barkley. Og þar með skipti Koeman yfir í fjögurra manna vörn með þrjá á miðjunni (Cleverley framarlega) og Lennon og Mirallas á köntunum. Uppstillingin: Robles, Oviedo, Funes Mori, Stones, Coleman, Mirallas, Gibson, Besic, Lennon, Cleverley, Kone.

Besic fór reyndar meiddur út af á 75. mínútu og Tom Davies skipt inn á.

Stuttu síðar fékk Everton horn sem Funes Mori náði að skalla að marki en hitti ekki rammann og tíu mínútum síðar u.þ.b. var leikurinn flautaður af.

0-0 lokastaðan og næsti leikur Everton gegn Espanyol á laugardaginn.

10 dagar í fyrsta leik í Úrvalsdeildinni!

3 Athugasemdir

 1. Elvar Örn skrifar:

  Þokkalegasti leikur hjá Everton, heilt yfir jafn leikur að mínu mati og bæði lið með nokkur færi. Líklega Lukaku, Mirallas og Deulofeu sem komust næst því að skora fyrir Everton.

  Vörnin leit heilt yfir vel út hjá okkar mönnum og fannst miðjan veikjast nokkuð mikið þegar Barkley fór útaf.

  Eru risastórar fréttir á leiðinni? Ég veit, ég veit, bara gossip en Julian Draxler hljómar vel í mínum eyrum.
  http://www.express.co.uk/sport/football/696415/Arsenal-Transfer-News-Everton-Julian-Draxler-gossip

 2. Finnur skrifar:

  63M punda!?!? Ekki láta mig spýta óvart hveitigras-drykknum mínum yfir greyið ritarann sem sér um að slá inn öll kommentin mín á everton.is síðunni.

 3. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Já þetta er skrýtin veröld þar sem allt getur gerst.
  http://www.fourfourtwo.com/news/belgium-appoint-martinez
  Ég býst fastlega við að Belgía rúlli létt niður FIFA listann á næstunni.

%d bloggers like this: