Leicester – Everton 3-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætti nýbökuðum Englandsmeisturum Leicester og áttu arfaslakan leik, ef frá er talinn 5-10 mínútna kafli í upphafi seinni hálfleiks. 3-1 tap niðurstaðan og hefði getað verið stærra ef Robles hefði ekki verið í markinu.

Uppstillingin: Joel, Baines, Stones, Pennington, Oviedo, Cleverley, McCarthy, Lennon, Barkley, Niasse, Lukaku. Varamenn: Howard, Connolly, Besic, Gibson, Osman, Mirallas, Dowell.

Leicester menn skoruðu mark strax í upphafi leiks (5. mínútu) þegar King fékk boltann utan við teig og sá fékk eins mikinn tíma og hann vildi til að velja samherja til að senda á. Hann sendi háan bolta fyrir á Vardy sem þurfti nánast bara að pota inn fyrir framan markið. Staðan 1-0 fyrir Leicester.

King var svo nálægt því að bæta við á 9. mínútu — aftur eftir háa fyrirgjöf frá hægri en King skallaði beint á Robles alveg upp við mark. Hefði átt að gera betur þar.

Fyrsta færi Everton kom eftir um fimmtán mínútuna leik, þegar Ovideo, skildi vinstri bakvörð Leicester eftir í rykinu og komst upp hægri kant. Hann gaf flottan lágan bolta fyrir til Lukaku sem náði skoti en miðvörður Leicester náði að kasta sér fyrir boltann og blokkera í horn.

Everton fékk tvö hálffæri í kjölfarið, m.a. skot frá Lennon, en ekkert kom út úr þeim færum.

King bætti svo við öðru marki fyrir Leicester eftir um hálftíma leik. Mahrez stakk sér á milli Baines og Cleverley inn í teig, Baines sýndist mér tækla boltann frá honum en beint til King sem þrumaði inn. Staðan 2-0 fyrir Leicester og þannig var það í hálfleik.

Skelfilega lélegur fyrri hálfleikur hjá Everton, líklega einn sá versti á tímabilinu.

Everton byrjaði seinni hálfleikinn fjörlega og gerðu harða hríð að marki Leicester á fyrstu mínútunum. Niasse átti fyrsta færið þegar hann og Lukaku komust tveir á móti einum varnarmanni Leicester. Schmeichel kominn í skógarhlaup út úr teig, einhverra hluta vegna, en Niasse reyndi bara skot á autt markið en hitti fyrir hausinn á Schmeichel. Illa farið með gott færi. Stuttu síðar átti Lukaku hælspyrnu alveg upp við mark en varið í horn og Schmeichel sá svo aftur við honum á 58. mínútu þegar Lukaku átti skalla að marki eftir horn. En svo fjaraði þetta út aftur hjá Everton og Leicester tóku völdin á vellinum aftur.

Robles átti algjörlega frábæra vörslu frá Fuchs, sem komst einn upp að marki vinstra megin á 60. mínútu. Robles náði með fætinum að verja lágt skot frá Fuchs.

Tvöföld skipting hjá Everton á 65. mínútu: Gibson og Mirallas inn á fyrir Cleverley og Niasse og það átti eftir að draga dilk á eftir sér nokkrum mínútum síðar.

En fyrst náðu Leicester menn að bæta við marki. Vardy fékk stungusendingu á 63. mínútu gegnum vörn Everton. Hann var klárlega rangstæður þegar sendingin kom, eins og varnarmenn Everton gáfu til kynna og endursýning sýndi, en dómarinn ekki sammála. Pennington felldi hins vegar Vardy inni í teig og Vardy skoraði úr vítinu sem dæmt var. Vítið þótti reyndar vafasamt þar sem Vardy steig niður og lét sig síðan detta. Leit svolítið út eins og dýfa en hann var, eins og kunnugt er, nýkominn úr banni fyrir aðra dýfu var, að mínu mati, minni dýfa en þessi. Hvað um það, Vardy skoraði örugglega úr vítinu og staðan orðin 3-0 fyrir Leicester.

Lennon fékk dauðafæri stuttu síðar þegar Baines sendi glæsilega háa sendingu utan af velli. Boltinn fór yfir alla sem stóðu fyrir framan markið og beint til Lennon sem var á auðum sjó hægra megin en í fyrstu snertingu slice-aði hann boltann í dauðafæri og setti hann aftur fyrir markið.

Hinum megin varði Robles aftur úr dauðafæri, í þetta skiptið frá Vardy en Robles vann aldeilis fyrir kaupinu sínu í dag, þrátt fyrir að hafa fengið á sig þrjú mörk.

Það var ekki svo að Leicester menn þyrftu hjálp í leiknum en Gibson ákvað að gefa hana samt á 70. mínútu þegar hann tæklaði Leicester mann inni í teig. Mun augljósara brot en í fyrra vítinu en í þetta skiptið brást Vardy bogalistin þegar hann þrumaði boltanum yfir mark.

Oviedo átti stuttu síðar flott skot af löngu færi sem Schmeichel þurfti að slá í horn. Ullola svaraði með skalla rétt framhjá marki hinum megin og endurtók svo þann leik á 80. mínútu.

Pennington sýndi hins vegar hvers hann er megnugur með frábærri tæklingu á Vardy sem var í algjöru dauðafæri alveg upp við mark. Stáltaugar greinilega hjá þessum unga og efna miðverði.

Stuttu síðar var Barkley svo skipt út af fyrir Osman.

Þrátt fyrir afleitan leik hjá Everton endaði leikurinn hins vegar á jákvæðu nótunum fyrir bæði lið því Leicester voru krýndir meistarar eftir leikinn en ekki þó fyrr en eftir að Mirallas hafði lagað stöðuna örlítið fyrir Everton — með marki á 87. mínútu. Algjört einstaklingsframtak: Hann vann boltann af harðfylgi á vallarhelmingi Leicester, sólaði tvo inni í teig og komst alveg upp að marki og renndi honum framhjá Schmeichel. Staðan 3-1.

Og þannig endaði sá leikur.

Einkunnir Sky Sports: Robles (6), Baines (6), Stones (6), Pennington (5), Oviedo (6), McCarthy (6), Cleverley (5), Lennon (6), Niasse (5), Barkley (5), Lukaku (6). Varamenn: Gibson (5), Osman (5), Mirallas (6).

21 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta er nú meiri drullan.
    Enda varla við öðru að búast. ??

  2. Gunnþór skrifar:

    Af hverju gáfu þeir ekki leikinn nenna engan veginn að spila þennan leik.

  3. Gunnþór skrifar:

    Vona innilega að við fáum ekki annað svona hörmungar tímabil.

  4. Elvar Örn skrifar:

    Ömurlegir í fyrri hálfleik. Mikið betra í seinni en dugar varla til. Skipta Cleverly útaf strax takk og Mirallas inná.

  5. Elvar Örn skrifar:

    Cleverley meinti ég (auto correct). Hann er nokkrum mínútum að fá rautt, Come on. Engin afsökun en mér finnst Everton alltaf herfilegir í rigningu. Erum amk að búa til færi ólíkt í þeim fyrri. Eitt mark frá Everton opnar þetta en sjáum hvað setur.

  6. Elvar Örn skrifar:

    Heppnir að vera bara 3-0 undir. Robles að redda okkur klárlega. En Martinez er að tryggja brotthvarf sitt.

  7. Elvar Örn skrifar:

    Shit hvað Mirallas er góður. Hvaða rugl er að hann spili svona lítið. Martinez syndrome.

  8. Ingvar Bæringsson skrifar:

    http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/roberto-martinez-believes-position-everton-11298096
    Menn gerast ekki mikið veruleikafirrtari en Martinez. Hann er eins og versti púllari.

  9. Steini skrifar:

    Ein spurning. Er þessi Niasse nokkuð skyldur Ali Dia?

  10. Gunnþór skrifar:

    Góður Diddi.

  11. Diddi skrifar:

    Niasse hlýtur að vera fertugur 🙂 Að hann skuli byrja inná og Mirallas sitji á bekknum á sama tíma er skandall 🙂

  12. Elvar Örn skrifar:

    Frank de Boer, Joachim Löw, Ronald Koeman

  13. Gunnþór skrifar:

    Allir spennandi kostur.

  14. Diddi skrifar:

    West ham menn mættu brjálaðir í leikinn í kvöld vegna þess að þeir drulluðu á sig í þeim síðasta. Ef okkar menn mæta ekki jafnbrjálaðir í leikinn á morgun þá játa ég mig sigraðan í varnarbaráttu minni fyrir hönd Martinez og geng á brottrekstrarvagninn 🙂 En aðeins ef þeir gera þetta ekki

  15. Eirikur skrifar:

    West Ham hafði að einhverju að keppa og þeir voru líka að kveðja Bowlen Ground. Það er því miður ekki neitt undir hjá Everton nema mögulega að spila fyrir jobinu hjá Martinez. Spurning hvað það telur?

    • Diddi skrifar:

      menn eru á þokkalegum launum og eiga alltaf að vinna fyrir þeim Eiríkur 🙂