Everton vs. Bournemouth

Mynd: Everton FC.

Á laugardaginn er komið að næstsíðasta heimaleik tímabilsins, gegn Bournemouth, en það sem kannski er hvað markverðast við þann leik (frá okkar þrönga íslenska sjónarhóli) er að Everton klúbburinn á Íslandi verður með átta gallharða Everton menn á pöllunum að hvetja okkar menn til dáða. Það á eftir að koma í ljós hvort leikskýrslan birtist tímanlega eftir leik því fjórir af þeim fimm sem hafa skrifað upphitanir eða leikskýrslur á þessari síðu undanfarin misseri verða á pöllunum og óljóst hvort sá fimmti (Ari) nái útsendingu af leiknum sökum anna.

Helstu fréttir af leikmönnum eru þær að Phil Jagielka, Gareth Barry og Seamus Coleman eru allir meiddir og Ramiro Funes Mori í leikbanni. Það verður því eitthvað skrautleg varnarlínan hjá okkar mönnum en jafnframt tækifæri fyrir kjúklingana Matthew Pennington og Callum Connolly að sýna hvað þeir geta (og mögulega Tom Davies á miðjunni, þó maður eigi síður von á því að hann fái tækifæri). Spurningin er þó hvort sóknarmaðurinn ungi, Kieran Dowell, sem hefur staðið sig frábærlega með U21 árs liðinu, fái tækifæri í framlínunni en ástæðuna má sjá í vídeóinu hér að neðan.

Líkleg uppstilling: Robles, Baines, Stones, Pennington, Connolly, Besic, McCarthy, Deulofeo/Mirallas, Barkley, Lennon, Lukaku. Helsta spurningarmerki hlýtur að vera sett við hægri bakvarðarstöðuna, sem reyndist liðinu Akkílesarhæll í síðustu leikjum enda Oviedo og Besic ekki sannfærandi þar í síðustu leikjum. Connolly er samt bara ágiskun fyrir þá stöðu en helst hefði maður viljað sjá Lennon þar í síðustu leikjum en á ekki von á því að það gerist gegn Bournemouth.

Í öðrum fréttum er það helst að niðurstaða er loks komin í dómsmálið varðandi Hillsborough slysið þar sem 96 stuðningsmenn Liverpool létust í FA bikarleik gegn Nottingham Forest árið 1989. Þetta hefur í 27 ár legið eins og mara á stuðningsmönnum beggja liða sem misstu fjölskyldumeðlimi sína þennan dag. Það er enn mikið verk fyrir höndum að ljúka því máli en gott að fá niðurstöðu í þennan kafla sögunnar.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U21 sigruðu Leicester U21 3-1 með mjög svo glæsilegri þrennu frá áðurnefndum Kieran Dowell. Liðið endaði þar með í þriðja sæti í ensku U21 deildinni, sem verður að teljast ágætt því sterkir leikmenn úr liðinu voru lánaðir út á tímabilinu til að öðlast reynslu. Hér í lokin er svo vídeó af Kieran Dowell að skora þrennu gegn Leicester U21.

Vonandi sjáum við sigur með Dowell í liðinu á laugardaginn en hvort heldur sem er þá verður þetta frábær skemmtun, eins og alltaf þegar klúbburinn hefur tekið sig til og skipulagt ferðir. Áfram Everton!

1 athugasemd

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Það ætla ég rétt að vona ykkar vegna sem eruð að fara á þennann leik að okkar menn drullist til að vinna. Ég geri mér samt ekki miklar vonir um það.

%d bloggers like this: