Watford vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Everton á leik við Watford á laugardaginn kl. 14:00 en ekki er laust við að maður voni að þessi leikur sé bara dress rehearsal fyrir úrslitaleikinn í FA bikarnum á Wembley, þar sem þessi lið gætu mæst ef þau vinna bæði leiki sína í undanúrslitunum. Liðin eru á áþekkum stað í deild (allt of neðarlega) og hafa leikmenn liðanna ekki mikið að keppa að það sem eftir lifir tímabils annað en að vinna sér sæti í undanúrslitum og úrslitum í FA bikarnum. Reyndar má geta þess að Watford gætu lent í frekari vandræðum í deild því þeir hafa ekki, að FA bikarleikjum þeirra undanskildum, unnið nema tvo leiki í deildinni á þessu ári — þó að báðir sigrarnir hafi komið gegn liðum í botnbaráttunni. Þeir töpuðu til dæmis illa gegn Arsenal í síðasta leik, 4-0, en einhverra hluta vegna hafa Everton, Watford og Crystal Palace öll átt nokkuð erfitt uppdráttar frá sigri þessara liða í síðasta FA bikarleik sem tryggði þeim sæti í undanúrslitunum.

Af leikmönnum er það að frétta að Barry er kominn aftur úr tveggja leikja banni en Pienaar og Osman eru tæpir eftir að hafa misst af síðasta leik. Líkleg uppstilling: Robles, Baines, Jagielka, Stones, Coleman, Barry, McCarthy, Mirallas, Barkley, Lennon, Lukaku. Hjá Watford er Valon Behrami tæpur vegna veikinda.

Í öðrum fréttum er það helsta að Lukaku var valinn leikmaður marsmánaðar en hann skoraði fjögur mörk í fjórum leikjum. Þess má til gamans geta að hann var einnig valinn leikmaður febrúarmánaðar.

Sóknarmaðurinn ungi, Shani Tarashaj, sem Everton keypti af Grasshopper og lánaði þeim aftur náði að æfa með aðalliði Everton á dögunum en það var partur af lánssamningnum (að hann myndi mæta öðru hverju og æfa með aðalliðinu). Hann hefur staðið sig vel á meðan á láninu stóð en hann skoraði fjögur mörk með Grasshopper og komst í fyrsta skipti í aðallið Sviss í vináttuleikjum þeirra á dögunum.

Af öðrum ungliðum er það að frétta að miðjumaðurinn Ryan Ledson framlengdi lán sitt hjá Cambridge til loka tímabils.

Everton U21 unnu svo Norwich U21 1-2 á útivelli (sjá vídeó) með mörkum frá Kieran Dowell og Antony Evans. Þeir eru sem stendur í 4. sæti fyrstu deildar U21 en eiga þrjá leiki til góða á liðið í efsta sæti. Þeir eru jafnframt komnir í undanúrslit í Liverpool Senior Cup og mæta þar Skelmersdale United, núverandi meisturum. Gaman að því.

Everton U18, nýbakaðir Dallas Cup sigurvegarar, unnu Blackburn U18 2-1 (sjá vídeó) með sjálfsmarki frá Blackburn og sigurmarki frá Shayne Lavery. Þeir eru sem stendur í bullandi séns á að vinna riðilinn sinn en þeir eru í öðru sæti deildarinnar jafnir á stigum við Man City U18 og því aðeins markatalan sem á milli stendur.

En, Watford næstir, kl. 14:00 á laugardaginn. Ykkar spá?

10 Athugasemdir

  1. Elvar Örn skrifar:

    Ef við töpum þessum þá gæti ég stokkið á sama Vagn og Ingvar og Gunnþór varðandi Martinez.

  2. Gunnþór skrifar:

    Elvar minn þú átt að vera löngu búinn að því. Þó við slisumst til að vinna þennan leik sem ég hef ekki trú á þvi miður þá er hollingin á liðinnu ekki nógu góð undir stjórn martinez.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Held að það besta sem hægt er að vonast eftir sé jafntefli ef maður miðar við síðustu leiki.
    Þetta er búið að vera ömurlegt tímabil, eins og síðasta, og ég get varla beðið eftir að það klárist. Nema að Martinez verði rekinn áður, þá má það alveg halda áfram.

  4. matti skrifar:

    hlakka til þegar martinez fer, innst inni vonar maður að hann se maðurinn og hristi þetta af sér enn þvi miður held ekki,
    þetta með baines gerði utslagið

  5. Diddi skrifar:

    við vinnum þennan leik 0-3

    • Elvar Örn skrifar:

      Yndislega bjartsýnn Diddi minn. Svo lengi sem við vinnum Bournmout þá er ég sáttur í bili (af því ég verð á leiknum), já og vinnum FA bikarinn 🙂

  6. Teddi skrifar:

    Verður flott að horfa á Everton í 15 sæti eftir leikinn.

    Martinez out!

  7. Diddi skrifar:

    vona að Orri vinur minn mæti á Ölver og verði lukkudýr 🙂

  8. Georg skrifar:

    Maður er hundfúll með stöðuna í deildinni. Það er mikilvægt fyrir liðið að komast á sigurbraut aftur og vera á með smá momentum fyrir undanúrslitaleikinn. Sigur í FA Cup er orðin algjör krafa ásamt að enda deildina á smá skriði.

    Spá þessum leik 1-2. Lukaku með bæði