Howard til MLS í lok tímabils

Mynd: Everton FC.

Áður en við víkjum að frétt dagsins er rétt að minna stuttlega á Íslendingaferðina að sjá Everton á Goodison Park, sjá hér.

En Everton staðfesti í dag þær sögusagnir sem í gangi höfðu verið um að markvörðurinn Tim Howard væri á leiðinni í MLS deildina.  Howard, sem er 37 ára, missti nýverið sæti sitt í liðinu eftir að Joel Robles nýtti tækifærið þegar Howard meiddist og náði að halda honum úr liðinu.

Howard gerði þriggja og hálfs árs samning við Colorado Rapids sem eru sagðir hafa borgað 1M punda fyrir hann en Howard mun vera að horfa til þess að vera aðalmarkvörður áfram til að geta fengið að verja mark Bandaríkjanna á HM 2018.

Howard hefur verið dyggur þjónn fyrir félagið frá því hann kom frá United en hann hefur leikið 352 leiki fyrir Everton í Úrvalsdeildinni, sem er félagsmet, og samtals 412 sinnum fyrir félagið.

Hann sagði við þetta tilefni: „I will remain an Evertonian for life. This will always be my team, my Club, I sacrificed so much to play the amount of games I have over a 10-year period, so I will continue to support this Club that I love. The Club is amazing, I love it and I will always be an Everton player.“

Howard hélt hreinu í 115 af þessum 352 leikjum með Everton sem er fjórði besti árangur markvarðar í Úrvalsdeildinni með einum og sama klúbbnum. Ef tölfræði hjá fleiri en einum klúbb er talin með hélt hann hreinu í 131 skipti í 392 leikjum sem er 9. besti árangur meðal markvarða í ensku.

Hann setti jafnframt félagsmet með Everton tímabilið 2008/09 þegar hann hélt hreinu í 17 leikjum á einu tímabili og var aðeins tveimur leikjum frá því að slá met Neville Southall yfir flesta deildarleiki í röð (210 hjá Howard, 212 hjá Southall) en sá árangur nægði til að setja Úrvalsdeildarmet: flestir deildarleikir í röð fyrir sama klúbbinn. Aðeins Brad Friedel hefur náð fleiri leikjum í röð í Úrvalsdeildinni (310 leikir — en það er fyrir fleiri en einn klúbb).

Þó formið hafi dalað hjá Howard undir lokin er eftirsjá að Howard, enda frábær íþróttamaður og mikill karakter. Við þökkum honum frábæra þjónustu gegnum tíðina fyrir klúbbinn sem og allar góðu minningarnar.

Til dæmis þessa:

Væntanlega mun Everton því nú kaupa annan markvörð í sumar. Ætli gengi Robles nú undir lok tímabils muni þá ekki verða til að ákveða hvort sá maður sem keyptur verður verði hugsaður sem aðal- eða vara-markvörður.

Í lokin minnum við á að það fer hver að verða síðastur til að nýta sér tækifærið til að koma með okkur í Íslendingaferðina; mæta á Goodison Park, upplifa stemminguna á pöbbunum og veitingastöðunum í nágrenninu, mæta í Everton búðina og fara í skoðunarferð um Goodison Park. Sjá Everton mæta Bournemouth og jafnvel aukaleik í ensku, ef vill. Ekki missa af því (sjá hér).

4 Athugasemdir

  1. Orri skrifar:

    Ég vill bara þakka Howard fyrir góðan tíma hjá okkar frábæra liði Everton.

  2. Ari G skrifar:

    Takk Howard þú varst frábær. Núna þarf Everton að kaupa alvöru markvörð t.d þennan unga hjá Milan ef hann er til sölu.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Hann reyndist okkur oftar en ekki vel og bjargaði okkur í mörgum leikjum þó hann hafi vissulega dalað síðusta árin.
    Takk Howard og gangi þér allt í haginn.

    Ég væri til í að fá Timo Horn frá FC Köln. Hann er ungur og feikilega góður.

  4. Elvar Örn skrifar:

    Já hann er heilt yfir búinn að standa sig vel hjá okkur hann Tim Howard en seinustu tvær leiktíðir ekki nægilega góðar hjá honum.

    Ég sjálfur stórefa að Joel Robles sé rétti maðurinn til að blokkera markið hjá okkur næstu árin. Mér hefur alltaf fundist hann vera shaky og verið að fá á sig klaufamörk.
    Með heimsklassa markmann þá hefði t.d. verið hægt að verja bæði mörk Arsenal í seinasta leik en Welbeck tiplaði svakalega auðveldlega framhjá Robles fannst mér og í seinna markinu þá var þetta klobbaskot af nokkuð löngu færi.

    Miðað við þann metnað sem hinn nýji eigandi Everton virðist búa yfir þá sé ég ekki annað fært en að klúbburinn kaupi framúrskarandi markmann í sumar og Robles passi bekkinn áfram.

    Aðrir sem mega fara eru Hibbert, Pienaar, Gibson, Osman, McGeady. Við getum ekki látið of marga fara í einu en Kone og síðan Barry gætu farið um næstu áramót.