Everton – Chelsea 2-0

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Chelsea í kvöld í átta liða úrslitum FA bikarsins og sigruðu nokkuð sannfærandi, 2-0, með tveimur mörkum frá Lukaku. Chelsea ógnuðu marki lítið í leiknum og Everton betra liðið þó Chelsea hefðu verið nokkuð meira með boltann á köflum. Lukaku aldrei skorað gegn sínum fyrri vinnuveitendum, fyrr en í dag og hann gerði það með stæl og sendi Everton í undanúrslit á Wembley.

Uppstillingin í leiknum: Robles, Baines, Mori, Jagielka, Coleman, Barry, McCarthy, Cleverley, Barkley, Lennon, Lukaku. Bekkurinn: Howard, Stones, Besic, Osman, Deulofeu, Kone.

Fín byrjun á leiknum hjá Everton, settu góða pressu á Chelsea frá upphafi og áttu skot á markið strax á fyrstu mínútu (frá Cleverley) en boltinn beint á Cortois.

Fyrri hálfleikur var framan af svona stopp-start, eins og sagt er, vegna tíðrar aðhlynningar á leikmönnum og nokkuð í járnum fram að hálfleik enda þetta eini séns beggja liða til að vinna titil á tímabilinu.

Everton betra liðið í fyrri hálfleik, minna með boltann en beittari á honum og það tók Chelsea hálftíma að komast inn í leikinn og heilar 44. mínútur að ná skoti (næstum því) á mark þar sem Robles varði bolta í horn sem var á leið rétt yfir (beint úr aukaspyrnu).

Cleverley átti svo hitt skot Everton á markið rétt fyrir lokin og staðan 0-0 í hálfleik. Chelsea menn sýnu sáttari við að fara í hálfleik 0-0.

Everton byrjaði seinni hálfleikinn af nokkrum krafti og áttu fyrsta færi hálfleiksins, líkt og í þeim fyrri. Mori þar að verki með skalla á 50. mínútu eftir horn, en rétt yfir markið.

Hurð skall nærri hælum á 55. mínútu þegar Costa komst upp að endamörkum, framhjá varnarmanni og framhjá Robles og reyndi skot en hornið svo svakalega þröngt að boltinn fór samhliða endalínu og enginn þar til að pota inn í autt markið. En það var næst því sem Chelsea komust til að skora í öllum leiknum.

Leikurinn aðeins að opnast og það dró svo aldeilis til tíðinda þegar Lukaku tók sig til í skyndisókn á 76. mínútu og lék á tvo varnarmenn við jaðar teigsins, tók boltann inn í teig og fór illa með tvo Chelsea menn í viðbót  — þrjá raunar ef markvörður Chelsea er meðtalinn því hann setti boltann í hliðarnetið. 1-0 fyrir Everton. Endursýning sýndi vel að Lukaku sneri Cahill algjörlega á röngunni.

Chelsea brugðust við með sóknarskiptingu, enda engu að tapa. Remy kom inn fyrir Matic en Everton bættu bara í og skoruðu strax aftur. Einfalt mark — stungusending frá Barry inn í teig og Lukaku afgreiddi boltann í gegnum klofið á Cortois. 2-0 fyrir Everton.

Örskömmu síðar var Costa rekinn út kjánalegheit. Lenti í samstuði við Barry og tók því illa, setti ennið í ennið á Barry og endaði á að bíta hann í hálsinn. Báðir reyndar spjaldaðir en Costa þegar á spjaldi og fékk því rautt. Barry, hins vegar, tók sig til örskömmu síðar og braut niður skyndisókn Chelsea sem gaf honum seinna gula spjaldið sitt og jafnt því í liðum aftur.

Martinez gerði þrjár skiptingar í lokin (ekki allar í einu): Stones fyrir Lennon, Besic fyrir Barkley og Niasse fyrir Lukaku og Chelsea ógnuðu lítið marki eftir þetta. 2-0 bikarsigur staðreynd. Everton komið á Wembley og draumurinn lifir enn. Tímabil Chelsea aftur á móti búið í mars. Hver hefði trúað því við lok tímabils í fyrra?

Sky gefur ekki út einkunnir fyrir bikarleiki en hver er ykkar skoðun á leikmönnum í kvöld?

52 Athugasemdir

  1. Gestur skrifar:

    Hvar er Nisse?

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Lokaðu nú sjoppunni.

  3. Hallur skrifar:

    þetta var fallegt

  4. Tryggvi Már skrifar:

    Mikið var þetta ánægjulegt og frábært fyrra markið hjá Lukaku!

  5. Ari G skrifar:

    Flottur leikur Everton loksins spilaði Everton alvöru vörn nema einu sinni þegar Costa komst inn fyrir. Lukaku stórkostlegur, MaCarthy frábær og allir aðrir skilaðu sínu mikil barátta þetta er hægt Martinez.

    • Ari S skrifar:

      Já þetta var flottur dagur, stórkostlegt mark hjá Lukaku… og McCarthy hefur verið að koma til í síðsutu leikjum. Mjög góður leikur hjá honum í dag.

  6. ólafur már skrifar:

    geggjuð snilld og komnir á Wembley er ekki alveg að trúa því að þetta hafi gerst og svo bara komast í úrslitaleikinn yrði svo geggjað

  7. Gestur skrifar:

    Mjög flottur leikur, af hverju er þetta ekki oftar svona?

  8. ólafur már skrifar:

    já segðu Gestur það yrði alltaf snilld ef það myndi ganga svona vel i hverjum leik fyrir sig en við erum ekkert spurðir að því neitt og hey einhver óskamótherji í næsta leik.

    • Gestur skrifar:

      Ef við viljum vinna skiptir að engu hverjir verða fyrir Everton í þessum ham.

  9. Diddi skrifar:

    Martinez út!!!!! hann er algjör hálfviti 🙂

  10. Gunnþór skrifar:

    Sammála Gest spilum svona aggresiva vörn og þá vinnum alla leiki það er klárt. FRÁBÆR ÚRSLIT. Diddi eigum við að gefa Martinez séns eða eigum við að rifja upp síðast þegar hann varð bikarmeistari??????

  11. Finnur skrifar:

    Fannst liðið í heild sinni standa sig mjög vel. Lukaku átti reyndar erfitt uppdráttar framan af, þangað til leikurinn opnaðist meira en þá allt í einu hrökk hann í gang, skoraði tvö og skyndilega kominn til greina sem maður leiksins. Lennon hefur alltaf heillað mig og hann stóð sig frábærlega enn á ný. Vinnusemin hjá honum, Cleverley, McCarthy og Barry er ótrúleg. Og Jagielka var greinilega ætlað að vera hálfgerður frakki á Costa og stóð sig með stakri prýði.

    Ég segi fyrir mitt leyti: Ég er farinn að hlakka til Íslendingaferðarinnar að sjá Everton mæta Bournemouth. Búinn að borga hana að fullu. Ætlar þú með? http://everton.is/?p=10701

  12. Finnur skrifar:

    Til gamans má líka geta að það voru tveir Íslendingar á vegum stuðningsmannaklúbbsins hér heima á pöllunum á Goodison á síðasta leik, fjórir á þessum leik og tveir á þeim næsta (Arsenal). Gaman að því.

  13. Diddi skrifar:

    talandi um að sagan endurtaki sig þá væri gaman ef Watford ynni Arsenal í dag og Everton vs Watford yrði úrslitaleikurinn líkt og 1984 þar sem við unnum eftir fræga hálfleiksræðu Kendall (hann opnaði bara gluggann á búningsklefanum og labbaði út), og í kjölfarið fylgdu nokkrir góðir bikarar, er þetta ekki einmitt málið, en til þess að þetta gerist þurfum við að hafa Martinez áfram 🙂

    • Orri skrifar:

      Sæll Diddi. Martinez er réttur maður á réttum stað.

    • Orri skrifar:

      Diddi. Kannski verður endurtekning frá árinu 1984, Watford er í það minnsta komið í undanúrslit, svo er bara að sjá hvernig þetta dregst.

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Martinez er ekki Kendall Diddi.
      Langt frá því.

      • Finnur skrifar:

        Augljóslega. En ef Internetið eins og við þekkjum það hefði verið til á þessum tíma (tímabilið 1983/84)… hefði Ingvar ekki kallað eftir því hér að Kendall yrði rekinn?

        • Diddi skrifar:

          Ingvar, ef þú sýnir honum þolinmæði þá hætta menn að muna eftir Kendall ?

        • Ingvar Bæringsson skrifar:

          Ég efast um það Finnur.
          Ég fór ekki að fylgjast með enska boltanum að neinu ráði fyrr en seint á því tímabili, mars eða apríl minnir mig.
          Ég var líklega of upptekinn af því að spila fótbolta sjálfur.

  14. Eiríkur skrifar:

    Flottur sigur og „clean sheet“ Fannst vera frábær stemming á Goodison allavega skilaði það sér heim í stofu, eitthvað sem mér finnst stundum vanta uppá.

  15. Gunnþór skrifar:

    Diddi kendall var með hreðjar í þetta þegar á þurfti held því miður að Það vanti í okkar mann.vona að ég hafi rangt fyrir mér.

  16. Gunnþór skrifar:

    Vona það .

  17. Finnur skrifar:

    Þrír í liði vikunnar að mati BBC (Jagielka, Coleman og Lukaku):
    http://www.bbc.com/sport/football/35799862

  18. Georg skrifar:

    Mjög flottur sigur. Flottur varnarleikur og áttu Chelsea einungis eitt skot á rammann en það var beint úr auksapyrnu og segir það allt sem segja þarf um hversu öflugur varnarleikurinn var. Vonandi að þetta sé það sem koma skal út leiktíðina.

    Svo var það moment of magic frá Lukaku sem skóp þennan sigur. Eins og Finnur segir hér að ofan þá var ekki mikið í gangi hjá Lukaku fram að þessu en hann hefur svo oft sýnt það að þó hann sé lítið að gera þá getur hann alltaf skorað mörk. Bæði mörkin mjög flott og það fyrra var klárlega eitt af þeim betri sem maður hefur séð lengi, hann spólaði sig i gegnum vörnina og Cahill vissi ekki hvort hann var að koma eða fara þegar boltinn söng í netinu.

    Svo bíður maður spenntur eftir að sjá hverja við lendum á móti í undanúrslitum á Wembley. Annar undanúrslitaleikurinn okkar á þessu tímabili. Hvenær gerðist það síðast að við komumst svona langt í þessum 2 keppnum á sömu leiktíð? Man ekki eftir því. Svona fyrir ykkur Matinez haters 🙂

    Nú er bara að enda leíktíðana eins vel og hægt er, rífa sig aðeins upp töfluna og vinna FA Cup. Ég yrði sáttur ef það væri niðurstaðan.

  19. Gunni D skrifar:

    Undanúrslitin fara fram 23-24 apríl. Við hefðum að óbreyttu átt að spila við Palace þá helgi, tökum þá bara í bikarnum í staðinn.

  20. Elvar Örn skrifar:

    Magnaður leikur og mögnuð úrslit. Frábært að vera komnir í undanúrslitin á Wembley.

    Ég og Georg vorum í sveitinni í Heiðarbæ líklega um 20 km frá Húsavík um helgina en misstum sko ekki af leiknum. Tókum með okkur 4G router, varpa, boombox, chromecast og þrykktum leiknum uppá vegg og allt sett í botn. Öskruðum úr okkur lungun í bæði skiptin sem Lukaku skoraði. Svakalegt.

    Fannst við nokkru betri í fyrri hálfleik en Chelsea þó sterkari seinustu 10 mínútur fyrri hálfleiks. Fannst við vaxa jafnt og þétt þegar leið á seinni hálfleik og uppskárum eftir því. Fantagóð frammistaða hjá mörgum og magnað að fá bara 1 skot á mark og það úr aukaspyrnu frá liði eins og Chelsea. Klárlega verðskuldaður sigur í dag.

    Áhugavert að Crystal Palace og Watford séu komin áfram og eftir að skýrast hvort M.United eða West Ham verði 4 liðið. Það er klárlega séns að Everton nái þessari dollu, ekki spurning.

    Verðum svo að fylgja þessu eftir með sigri á Arsenal um helgina en við höfum átt í agarlegu basli með að vinna þá seinasta áratuginn.

  21. Elvar Örn skrifar:

    Var að horfa á BBC í beinni. Everton mætir West Ham/Man Utd í undanúrslitum á Wembley í FA bikarnum.

  22. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta var nú ekki skemmtilegasti leikur sem maður hefur séð með Everton í vetur en úrslitin bættu algjörlega fyrir það.
    Góður varnarleikur og Martinez lét það eiga sig að klúðra þessu með furðulegum skiptingum. Skyldi hann loksins hafa lært?? Það kemur væntanlega í ljós fljótlega.
    Það væri nú óskandi að liðið héldi áfram á þessari braut en ég ætla ekki að treysta á það. Maður er bara búinn að sjá þetta svo oft áður bæði á þessu tímabili og því síðasta til að trúa því að liðið hafi snúið við blaðinu og leiðin liggji upp á við.

    • Diddi skrifar:

      við skulum nú ekki alveg vera að springa úr bjartsýni Ingvar minn 🙂

    • Georg skrifar:

      Ingvar nú vil ég spyrja þig, þar sem mikið hefur verið deilt hér á everton.is um fallegan sóknarbolta á móti góðum varnarleik. Nú talar þú um að þetta hafi ekki verið skemmtilegur leikur en góður varnarleikur. Er góður varnarleikur semsagt ekki skemmtilegur leikur? Ég er orðinn ruglaður á hvernig knattspyrnu þú vilt að Martínez spili 🙂

      Svo held ég að það myndi ekki skemma að senda liðinu stundum jákvæða strauma í stað þess að snúa öllu því jákvæða upp í neikvæðni. Það á ekki aðvera hægt að snúa 2-0 sigri gegn ríkjandi englandsmeisturum út í neikvæðni 🙂

      Ég ætla allavega að standa á bakvið liðið og trúa á að þeir geti unnið FA Cup og endað leiktíðina í deildinni á góðu skriði.

      Ekki má gleyma að FA Cup sigur mun auk þess gefa sæti í Evrópudeildinni á næstu leiktíð.

      • Ingvar Bæringsson skrifar:

        Ég var nú einfaldlega bara að segja það sem mér fannst um leikinn.
        Hann var ekkert rosalega mikið fyrir augað en liðið spilaði góða vörn og allt í góðu með það.
        Ég var ekki að snúa þessum sigri upp í neitt neikvætt, og ef þú lest aftur það sem ég skrifaði þá ættirðu að sjá það.

        Mér finnst þú vera að ýja að því að ég styðji ekki liðið.
        Ef svo er þá er það mjög mikill misskilningur hjá þér því ég stend alltaf við bakið á liðinu, hef alltaf gert og mun alltaf gera.

        Öðru máli gegnir með Martinez.

        • Ari S skrifar:

          En Martinez er í liðinu og það er hans vegna sem við erum farin að gera svo miklar væntingar sem raun ber vitni. Þess vegna segi ég ef þú styður liðið þá ertu að styðja Martinez líka 😉

          kv. ari

  23. Finnur skrifar:

    Það var verið að tilkynna að derby leikurinn á Anfield verði leikinn á miðvikudegi 20. apríl, aðeins þremur til fjórum dögum áður en undanúrslitin í FA bikarnum verða leikin. Ekki kannski alveg eins og maður hefði helst kosið það…

  24. Georg skrifar:

    Ég og Elvar erum búnir að bóka okkur í ferðina með klúbbum á Everton-Bournemouth og hvet ég menn eindregið að skella sér með http://everton.is/2016/02/21/komdu-med-a-goodison-park/

    Það verður enginn svikinn af þessari ferð í góðum félagskap og nú þegar nokkir búnir að bóka og borga.

  25. Finnur skrifar:

    Frábærar fréttir. Þetta verður legendary! 🙂

    • Georg skrifar:

      Þegar maður var búinn að heyra hverjir væru að fara þá var ekkert annað í stöðunni 🙂

      Þetta verður klárlega legendary

  26. Elvar Örn skrifar:

    Þetta verður svakalegt. Þvílíkur eðal hópur sem er að fara. Nú er tækifærið fyrir þig að fara með Elítunni á Goodison Park hehe.
    Just do it, koddu með.
    Ég er á leiðinni á Everton leik, Shiiiiii.