Bournemouth – Everton 0-2

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Bournemouth í síðdegisleik í dag í 16 liða úrslitum FA bikarsins og fór með sigur af hólmi með mörkum frá Barkley og Lukaku. Þeir fengu á sig vítaspyrnu snemma en Robles kom okkar mönnum til bjargar. Dregið verður í átta liða úrslitum rétt fyrir kvöldmat annað kvöld.

Uppstillingin: Robles, Oviedo, Mori, Jagielka, Coleman, Barry, McCarthy, Cleverley, Barkley, Lennon, Lukaku. Varamenn: Howard, Baines, Stones, Mirallas, Niasse, Deulofeu, Osman.

Ekki mikið að segja um fyrri hálfleik svo sem; Everton með undirtökin en nákvæmlega ekkert að gerast fyrsta hálftímann eða svo þangað til Lukaku fékk sendingu upp vinstri kant, stakk hægri bakvörð Bournemouth af (sem var þó með forskot á Lukaku) og komst upp að marki með boltann en markvörður Bournemouth, Federici, varði skotið. Everton að komast í ágætar stöður í fyrri hálfleik, duglegir að leita að glufum en færin létu á sér standa.

Það dró svo til tíðinda þegar Bournemouth fengu víti á 36. mínútu þar sem McCarthy handlék knöttinn eftir fyrirgjöf úr horni. Ekki viss um hvað hann var að hugsa en það gildir einu því Robles varði sem betur fer vítið. Frákastið fór þó til Bournemouth manna sem voru þrír að reyna að skjóta og hálfpartinn þvældust hver fyrir öðrum og boltinn endaði upp í stúku.

0-0 í hálfleik.

Bournemouth byrjuðu seinni hálfleik af nokkrum krafti en svo róaðist þetta og Everton átti fyrsta færi hálfleiksins — McCarthy með skot rétt framhjá samskeytunum eftir um 50 mínútur og það reyndist bara viðvörun fyrir það sem koma skyldi því Barkley skoraði á 54. mínútu. Fékk boltann rétt utan teigs og hlóð í skotið. Boltinn breytti um stefnu af Dan Gosling (sem áður lék með Everton) og fór í flottum boga rétt yfir markvörð Bournemouth. Óverjandi. 0-1 Everton.

Tvisvar hefðu Bournemouth getað jafnað. Fyrst á 62. mínútu þegar skot úr aukaspyrnu fór í bakið á Lukaku og sleikti utanverða stöngina. Og svo nokkrum mínútum síðar þegar Bournemouth skölluðu fyrirgjöf frá vinstri beint á Robles. Hefðu átt að gera betur þar.

Bournemouth voru svo heppnir hinum megin þegar Lennon náði góðu samspili við Cleverley og komst í gott skotfæri innan teigs. Ákvað þó að gefa á Barkley í algjöru dauðafæri sem reyndi við innanvert netið á fjærstöng en boltinn í olnbogann á Bournemouth manni og rétt framhjá stönginni í horn. Og úr horninu skoruðu Everton. Boltinn fór til Barry á nærstöng sem reyndi hælspyrnu fyrir framan markið og þar var Lukaku óvaldaður og þrumaði inn. Einfalt. 0-2 Everton.

Mirallas inn fyrir Barkley á 80. mínútu og Niasse fyrir Niasse. Fyrsti leikur þess síðastnefnda fyrir Everton. Eina sem þurfti, hins vegar, var að klára þennan leik án þess að fá á sig mark. Fimmti leikur Everton með Robles í markinu og í fjórum af þeim hélt hann hreinu, sem hefur reynst okkar mönnum erfitt á tímabilinu.

En, Everton áfram í átta liða úrslit!

9 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Hvað þá!!! Enginn Kone!!!

 2. Ari G skrifar:

  Vonandi er Kone hættur og seldur til Kína. Spái 3:1 fyrir Everton Lennon, Barkley ig Lukaku með mörkin.

 3. Gestur skrifar:

  Hörmungar hálfleikur, Martinez hlýtur að gera breitingar í hálfleik.

 4. Albert skrifar:

  Höfum séð betri leiki en þennan! Sigur samt, sem skiptir öllu 😉

 5. Elvar Örn skrifar:

  Frábær varsla hjá Robles í vítinu eftir fáránlega hendi McCarthy í teignum.
  Fannst þetta nokkuð rólegt í dag en gott að vinna og halda hreinu og vera komnir í 8 liða úrslit með Watford og Reading.
  Fannst reyndar Lukaku með annað löglegt mark sem var dæmt rangstöðumark en fannst sendinga maður samsíða eða aðeins framan við Lukaku en ég sá reyndar bara 1 endursýningu af þessu.
  Verðum að taka gott loka Rún í deild og ná FA bikarnum í hús.

 6. ólafur már skrifar:

  sammála þér Elli yrði gaman að ná Bikarnum í hús vonandi tekst það kominn tími á það líka

 7. þorri skrifar:

  Sælir félagar þetta var ágætur leikur en ekk sá besti að mínu dómi.En þó sigur sem var æðislegt.ÉG var í ölveri Ásamt finni og ég held að hann heiti Einar og ég þorri.Það hefði verið gaman hefði verið fleiri EVERTON menn í klúbnum að horfa á.flott að okkar lið EVERTON komst áfram við erum bestir

 8. Finnur skrifar:

  Við fáum Chelsea í heimsókn á Goodison Park í 8 liða úrslitum FA bikarsins.

  Drátturinn í heild sinni:

  Everton vs Chelsea
  Reading vs Crystal Palace
  Arsenal eða Hull City vs Watford
  Shrewsbury eða Manchester United vs West Ham

 9. Elvar Örn skrifar:

  Flott, hverjir ætla með á úrslitaleikinn?

%d bloggers like this: