Chelsea vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Á morgun (laugardag), klukkan 15:00, á Everton útileik við núverandi Englandsmeistara, Chelsea. Þeir hafa nýverið öðlast endurnýjun lífdaga með brottför Mourinho en árangur Everton á Stamford Bridge er ekki beysinn, 9 jafntefli og 11 töp í síðustu 20 tilraunum. Þó má ekki gleyma því að Martinez tókst að sigrast á United grýlunni á Old Trafford og aldrei að vita nema honum takist það sama á Stamford Bridge, sérstaklega þegar litið er til þess að heimaleikjaform Chelsea í deildinni er ekkert til að hrópa húrra fyrir: aðeins þrír sigrar síðan í september, gegn Sunderland, Norwich og Aston Villa. Chelsea hafa þó heldur ekki tapað leik frá brottför Mourinho en á móti kemur að Everton hefur aðeins tapað einum útileik á tímabilinu (gegn Arsenal í október) og ef liðinu tekst að koma í veg fyrir tap á morgun hefur Everton sett félagsmet: fæst töp (1) í 14 útileikjum (í öllum keppnum). Jafntefli verður að teljast líklegasta niðurstaðan, ef sagan hefur eitthvað að segja (sem hún náttúrulega gerir ekki).

McCarthy og Coleman taka ekki þátt vegna meiðsla og Cleverley er 50/50. Líkleg uppstilling því: Howard, Baines, Mori, Jagielka, Stones, Barry, Besic, Osman, Barkley, Deulofeu, Lukaku.

Hjá Chelsea eru Eden Hazard og Radamel Falcao meiddir.

Í öðrum fréttum er það helst að Martinez staðfesti í dag að Everton hefði boðið í hægri bakvörðinn, Sam Byram, hjá Leeds en hann er hugsaður sem hægri bakvörður liðsins þegar Coleman meiðist eða leggur skóna á hilluna. Verðið sem nefnt hefur verið er í um 3+M punda, en gæti farið upp í 5M að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Byram, sem hefur neitað að skrifa undir nýjan samning við Leeds, hefur spilað 24 leiki fyrir þá á tímabilinu og skorað þrisvar. Everton er þó ekki eina liðið sem hefur áhuga en West Ham liðið hefur verið nefnt í því samhengi.

Enn er óvíst hvort og þá hvert Naismith fer en nýjustu sögur segja að Norwich og Swansea hafi áhuga. Martinez sagði að viðræður væru langt komnar við „annan Úrvalsdeildarklúbb“ en vildi ekki tilgreina það nánar. Sögusagnir eru einnig um að John Stones, Bryan Oviedo og Muhamed Besic verði boðinn nýr samningur í janúar.

Af öðru er það að frétta að Sky Sports tóku saman yfirlit yfir bestu varnarmenn deildarinnar á tímabilinu en á þeim listum sem tilgreindir eru komu Funes Mori og Stones fyrir. Sky tóku einnig saman yfirlit yfir framgang liða í deild í samræmi við hversu vel þau halda bolta innan liðsins.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U21 unnu Newcastle U21 4-3 (sjá vídeó) í 32ja liða úrslitum enska U21 deildarbikarsins en mörk Everton skoruðu Joe Williams, Leandro Rodriguez, Callum Connolly og Courtney Duffus.

En, Chelsea eru næstir, kl. 15:00 á morgun (laugardag).

3 Athugasemdir

  1. Teddi skrifar:

    Þetta fer því miður 1-0, Terry með línupotsmark.

  2. Diddi skrifar:

    Sam Byram er ekki í leikmannahópi Leeds í dag. En ég spái því að við vinnum Chelsea 1-2 🙂

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Rændir af dómara einu sinni enn ?

%d bloggers like this: