Man City vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Ótrúlegt en satt þá leikur Everton samtals þrjá leiki við Manchester City í janúarmánuði en einum þeirra er lokið — það var heimaleikur í deildarbikarnum á dögunum, sem Everton vann 2-1 (sjá vídeó) og litu nokkuð sannfærandi út, þrátt fyrir að enda leikinn manni færri. Nú á miðvikudagskvöld er hins vegar komið að útileik við þá í deildinni en einhverjir koma líklega til með að freistast til að líta á þann leik sem upphitun fyrir síðari deildarbikarleik við þá þann 27. janúar þar sem Everton, með jafntefli eða sigri, kemst í úrslit deildarbikarsins.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um City; við sáum þá á dögunum og vitum hvað þeir hafa upp á að bjóða þó að erfiðara verkefni bíði leikmanna Everton á miðvikudaginn þar sem City menn eru feykilega sterkir á heimavelli og skora gjarnan þrjú til fjögur mörk per leik. En ef leikmenn Everton nálgast leikinn á svipaðan hátt og deildarbikarleikinn þá hefur maður ekki stórar áhyggjur. Eins og einhver orðaði það: Muhammed Besic fór heim til sín eftir þann leik og dró upp úr vasanum sínum: bíllyklana sína, veskið og Yaya Toure. Eitt slíkt dæmi má sjá hér:

Ágætar fréttir bárust úr meiðsladeildinni fyrir leikinn þar sem Martinez sagði að hann ætti von á að Lukaku yrði orðinn heill og gæti því spilað næsta leik. Einnig er líklegt að Coleman þurfi viku minna í að jafna sig en áður var talið.

Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Mori, Stones, Pennington, Barry, Besic, Osman, Barkley, Deulofeu, Lukaku. Helst spurning hvort Jagielka verði orðinn nógu góður sem og hvort hann slái Mori út — á síður von á því í ljósi frammistöðu Mori undanfarið. Einnig spurning hvort Pennington haldi hægri bakvarðarstöðunni en hann átti ágætis innkomu gegn City þó bakvörður sé ekki hans náttúrulega staða. Samt ekki margir valkostir sem Everton hefur þar, nema náttúrulega neyðarúrræði (Stones/Lennon).

Af ungliðunum er það að frétta að bæði U18 og U21 árs lið Everton léku við Manchester City jafnaldra sína á útivelli nýlega. Everton U18 liðið tapaði 1-0 en U21 ára liðið vann 0-1 og skoraði Kieran Dowell sigurmarkið fyrir Everton. Af öðrum ungliðum er það að frétta að miðjumaðurinn Nathan Holland skrifaði undir atvinnumannasamning við Everton á dögunum og Tyrone Duffus (yngri bróðir Courtney Duffus) fór á láni til Skelmersdale United.

En víkjum þá stuttlega að FA bikar-drættinum í kvöld þar sem Everton dróst á móti annaðhvort Carlisle eða Yeovil í 4. umferð bikarsins sem verður að teljast algjör happadráttur hvað styrkleika mótherja varðar. Því ef önnur úrslit í endurteknum leikjum 3. umferðar verða eftir bókinni þá eru þetta lægst skrifuðustu mótherjarnir sem völ var á. Carlisle eru sem stendur í 10. sæti D-deildar ensku og Yeovil í 23. og næstneðsta sæti sömu deildar. Það þarf þó fulla einbeitingu til að vinna þá leiki líka.

En, City menn (aftur) næstir, á miðvikudaginn.  Leikurinn er í beinni á Ölveri.

11 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Takk fyrir þessa samantekt 🙂

 2. Finnur skrifar:

  Örstutt meiðsla-uppfærsla héðan:
  http://www.evertonfc.com/news/2016/01/12/team-news-man-city

  Í stuttu máli: Lukaku heill, Funes Mori heill, Cleverley 50/50, Coleman frá í 10-15 daga en ekki vitað með McCarthy — hann er farinn að æfa eitthvað en ekki sem partur af hópnum ennþá.

 3. Finnur skrifar:

  Og Sky gaf út tölfræði yfir bestu miðjumennina í deildinni. Gareth Barry, Ross Barkley og James McCarthy komast þar allir á lista:
  http://www.skysports.com/football/news/11671/10127202/who-has-been-the-premier-leagues-best-midfielder-so-far-this-season

 4. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég er drullu nervøs fyrir þessum leik hef á tilfinningunni að við töpum þessu með þremur eða fjórum mörkum. Howard verður aftur í markinu og eins og hann hefur reynst okkur vel í gegnum tíðina, þá er ÖLLUM, nema Martinez orðið ljóst að það er kominn tími á hann.

 5. Orri skrifar:

  við viljum sigur í þessum leik og ekkert annað.Ég er hóflega bjartsýnn.

 6. Diddi skrifar:

  við vinnum 0-1

  • Gunni D skrifar:

   Ef ég má velja, þá vil ég frekar fá eitthvað út úr seinni leiknum. Svona raunhæft, þá sleppum við ekki taplausir úr þeim báðum.

 7. Einar Gunnar skrifar:

  Ég væri alveg til í jafntefli á sterkum útivelli – væri í lagi 0-0, ná að halda markinu hreinu, svona í eitt skipti.

 8. Diddi skrifar:

  ég vil bara vinna alla leiki og geri kröfu um það. Við erum ekkert með lélegra lið en City og hana nú 🙂 Mér er skítsama um þessa league cup dollu sem Steini Púlari og hans menn hafa alltaf kallað hrákadallinn þegar þeir hafa dottið út úr keppninni og mér fyndist skemmtilegast að hafa það svo áfram að við höfum ekki unnið hann. FA cup er hinsvegar bikar sem ég vil vinna. Eeeeen !!! Hvar er Steini kloppari ????

 9. Diddi skrifar:

  góð frammistaða, Howard frábær og varnarleikurinn algjörlega solid. Sáttur með stig 🙂

%d bloggers like this: