Everton vs. Tottenham

Mynd: Everton FC.

Þá er árið 2016 gengið í garð (gleðilegt nýtt ár, kæru lesendur!) og fyrsti leikur Everton á þessu nýja ári er gegn Tottenham á heimavelli, þann 3. janúar kl. 16:00.

Tottenham liðið hefur átt flott tímabil hingað til, en liðið situr nú í 4. sæti deildar. Fyrir utan óverðskuldað tap gegn United (á sjálfsmarki á heimavelli) í fyrsta leik tímabilsins hafa þeir aðeins tapað einum leik í deild (nýlegt tap gegn Newcastle), einum leik í Europa League og einum í deildarbikarnum. Þar með eru þeirra töp á tímabilinu upptalin. Síðustu þrír leikir þeirra reyndust sigurleikir og tapið gegn Newcastle er eina tap þeirra í síðustu þrettán leikjum (í öllum keppnum). Það kom því eiginlega dálítið á óvart, í ljósi framansögðu, að helstu sparkspekingarnir á stóru bresku miðlunum (m.a. Merson og Lawrenson) spáðu Everton sigri í þessum leik.

McCarthy og Cleverley meiddust báðir í tapleiknum gegn Stoke á dögunum og aðeins sá síðarnefndi á séns í þennan leik. Jagielka er enn á batavegi en ætti að láta sjá sig í einhverjum af næstu þremur leikjum, skv. þessari frétt. Líkleg uppstilling því: Howard, Baines, Mori, Stones, Coleman, Barry, Cleverley, Lennon/Mirallas, Barkley, Deulofeu, Lukaku.

Hjá Tottenham eru Mousa Dembele, Clinton Njie og Alex Pritchard meiddir.

Rennum í lokin aðeins yfir nokkrar hraðsoðnar fréttir síðan síðast:

– Klúbburinn tilkynnti að Dr. Peter Vint hefði verið ráðinn stjóri unglinga-akademíu Everton (sem Academy Director).
– BBC birti frétt um að verið væri að semja um sölu á Naismith til Norwich fyrir 8M punda. Martinez staðfesti aðeins að þeir myndu setjast niður í janúar og ræða um framtíð hans.
– NSNO birtu samantekt yfir árið 2015.
– Klúbburinn birti 10 vinsælustu Youtube myndböndin 2015 sem og myndband með mörkum Lukaku á árinu en Lukaku er nú kominn með 54 mörk í 104 leikjum.
– Sóknarmaðurinn Conor Grant framlengdi lán sitt hjá Doncaster til loka tímabils en hann hefur skorað fjögur mörk í 11 leikjum fyrir þá og hjálpað þeim að klifra upp ensku C-deildar töfluna — úr sæti 22 í það fimmtánda.
– … og opnað verður fyrir félagaskipti á morgun, 2. janúar (janúarglugginn).

En, Tottenham menn eru næstir á sunnudaginn. Leikurinn er í beinni á Ölveri.

14 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Sorry en við eigum ekki séns fer 1-4 fyrir totteringham.

  2. Ari S skrifar:

    Við vinnum 4-1, Lukaku með þrennu og Ingvar Bærings étur hattinn sinn…. (þetta er jók Ingvar minn)

  3. Diddi skrifar:

    gleðilegt nýtt ár félagar, ég held að við töpum ekki fleiri leikjum í deildinni á þessu tímabili. Ég er sammála Elvari og held að við vinnum þennan leik 3 – 1. Koma svo !!!!!!

  4. Orri skrifar:

    Gleðilegt ár félagar.Ég ætla að vona að við vinnum leikinn,ég segji 2-1 fyrir Everton.

  5. Teddi skrifar:

    Gleðilegt EM ár.

    Spái skemmtilegum 0-0 leik. Ekki nokkur séns að ég hafi rétt fyrir mér þar sem heimaleikir okkar skila 4 mörkum að meðaltali.

    • Finnur skrifar:

      Mikið rétt. Þó úrslitin hafi ekki alltaf verið okkur að skapi þá er víst að leikir Everton eru alltaf fjörugir og vel þess virði að horfa á, fyrir alla áhorfendur
      – hlutlausa sem aðra.

  6. Gunnþór skrifar:

    Þvi miður 1-3 sorry vona svo að ég hafi rangt fyrir mér .

  7. Diddi skrifar:

    Robles verður í markinu spái ég 🙂