Newcastle – Everton 0-1

Mynd: Everton FC.

Svipuð formúla í þessum leik og undanförnum leikjum. Everton að vaða í færum, sérstaklega í fyrri hálfleik en svo dalaði þetta í seinni hálfleik og andstæðingurinn komst inn í leikinn og hefði hæglega getað stolið sigrinum. En ekki í dag! Loksins kom sigurinn sem við höfum verið að bíða eftir, í stað ósanngjarns jafnteflis eða jafnvel taps.

Uppstillingin: Howard, Baines, Mori, Stones, Coleman, Barry, Cleverley, Mirallas, Barkley, Lennon, Lukaku. Varamenn: Robles, Gibson, Kone, Besic, Deulofeu, Osman, Galloway.

Það var ákefð í leik Everton frá upphafi, þeir héldu boltanum vel og létu hann sömuleiðis ganga vel sín á milli og settu mjög góða pressu á vörn Newcastle. Hver Everton bylgjan á fætur annarri skall á vörn Newcastle og þegar Newcastle menn náðu að vinna boltann töpuðu þeir honum aftur jafn harðan.

Mirallas átti fyrsta færið eftir fyrirgjöf frá Coleman, náði skoti úr þröngu færi en varið í horn.

Everton opnaði vörn Newcastle upp tvisvar, fyrst á 9. mínútu og í bæði skiptin var Lukaku kominn upp hægra megin í teiginn og gaf fyrir. Í fyrra skiptið fann Lukaku ekki mann í dauðfæri en í seinna náði varnarmaður Newcastle að bjarga í horn áður en Mirallas náði að pota inn.

Mirallas átti svo skot á 19. mínútu en beint á Elliot, markvörð Newcastle.

Newcastle með fyrsta færið sitt í fyrri hálfleik á 25. mínútu, fyrirgjöf frá hægri en sóknarmaður þeirra náði ekki að stýra boltanum á markið. Öll færi þeirra í fyrri hálfleik nema eitt, ef mér skjátlast ekki, komu eftir fyrirgjöf frá hægri þar sem leikmenn Newcastle náðu að tvímenna á Baines þar sem Mirallas kom ekki að hjálpa til í varnarleiknum.

Everton með 180 sendingar í leiknum fram að því og 90% sendingar fundu samherja. Newcastle á móti með aðeins 60 sendingar. sem segir ákveðna sögu. Nær allir útileikmenn Everton að meirihluta á vallarhelmingi Newcastle og virtust Newcastle menn hamingjusamir með að sitja aftarlega og leyfa Everton að leita að glufum. Eitthvað skorti þá þó hraðann til að keyra á vörn Everton í sínum skyndisóknum.

Everton átti að fá víti á 27. mínútu þegar Collocini togaði augljóslega Lukaku, í dauðafæri, niður inni í teig en dómarinn dæmdi ekkert. Stuttu síðar komst Lukaku inn fyrir vörn Newcastle en Elliot varði vel frá honum.

Janmaat hjá Newcastle var þegar á gulu spjaldi og átti að fá rautt þegar hann augljóslega stoppaði skyndisókn Everton með því að hrinda Barkley í jörðina en Lee Mason dómari skorti kjarkinn. Ó. Þol. Andi.

Staðan 0-0 í hálfleik og Everton liðið á þeim tímapunkti átt að vera búið að fá allavega víti, skora mark og enda hálfleikinn manni fleiri. 7 skot á markið hjá Everton, þrjú rötuðu á rammann. Newcastle með 3 í átt að rammanum en allt framhjá.

Svipað uppi á teningnum í seinni hálfleik, til að byrja með allavega. Everton að skapa fín færi en náðu einfaldlega ekki að skora; miðverðir Newcastle að ná að vernda markvörð sinn, Elliot, mjög vel; oft. Þegar reyndi á Elliot sá hann við leikmönnum Everton, til dæmis með tveimur glæsilegum vörslum frá Lukaku og Lennon snemma í fyrri hálfleik og hélt Newcastle inni í leiknum.

Það dofnaði aðeins yfir leiknum fram að 70. mínútu þegar Everton gerði tvöfölda skiptingu á 70. mínútu: Besic og Deulofeu inn á fyrir Barkley og Lennon.

Það voru þó Newcastle sem færðu sig upp á skaftið og fengu tvö ágæt færi með stuttu millibili. Fyrst þegar þeir fengu óvart skotfæri utan teigs en skotið framhjá vinstri stönginni. Það næsta hefðu þeir átt að setja í netið þegar Mitrovic stökk hæst og skallaði framhjá stönginni.

Howard bjargaði Everton svo með ótrúlegri vörslu eftir fyrirgjöf og skalla af point blank range frá Newcastle manni. Það reyndist _eini_ bolti Newcastle á mark Everton í öllum leiknum (!).

Elliot reddaði Newcastle svo strax hinum megin þegar hann varði skalla frá Mori eftir horn. Frákastið fór til Lukaku en þetta gerðist allt svo hratt að hann náði bara að slengja fæti í átt að boltanum sem endaði út af.

Coleman átti svo fínt skot á 80. mínútu rétt utan teigs en framhjá. Örvæntingin að aukast með hverri mínútunni sem leið. Tvö töpuð stig blöstu við — enn á ný.

Osman kom inn á fyrir Mirallas á 85. mínútu og þremur mínútum var bætt við tímann undir lokin. Tíminn að renna út fyrir Everton að skora. Ekki bætti það heldur skapið hjá manni að Newcastle voru öllu þyngri í sókninni undir lokin en Everton náðu þó ágætlega útfærðri skyndisókn í andlitið á þeim. Lukaku og Deulofeu með samspil sín á milli sem endaði í dauðafæri inni í teig hjá Lukaku. Hann hlýtur að skora, hugsaði maður — en NEI! Með algjörlega ótrúlegum hætti náði varnarmaður Newcastle að renna sér fyrir skot Lukaku í algjöru dauðafæri. Tækling leiksins.

Sekúndurnar voru svo að renna út þegar Everton fékk horn og Elliot varði með því að slá boltann út úr teig þar sem Cleverley beið og skallaði boltann bara aftur á markið og í netið. 1-0 Everton og það reyndist síðasta atriði leiksins.

Þvílíkur léttir!! Loksins uppskáru leikmenn Everton eins og sáð var til!

Einkunnir Sky Sport: Howard (7), Baines (6), Funes Mori (6), Stones (7), Coleman (7), Barry (6), Cleverley (7), Mirallas (7), Barkley (5), Lennon (6), Lukaku (7).

Rob Elliot, markvörður Newcastle, maður leiksins — eðlilega, miðað við þessa frammistöðu. Verst að hann hafi náð að stoppa Lukaku — hefði verið gaman að sjá Lukaku gera atlögu að markameti Vardy.

28 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Við erum með algjöra yfirburði svo það væri alveg týpískt að við fengjum á okkur eitthvað bölvað suckerpunch mark.

 2. Ari S skrifar:

  Við erum miklu meira með boltann og mark Everton liggur í loftinu.

 3. Ari S skrifar:

  Þarna var óskabarnið Mirallas SOFANDI þegar hann fékk sendingu frá Lukaku sem að aftur kostaði það að Barry fékk gult spjald. Svona er lífið í boltanum.

  ÁframEverton!

 4. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég vil samt frekar hafa sofandi Mirallas inni á vellinum þar sem hann gæti vaknað og gert eitthvað, heldur en glaðvakandi Kone sem getur ekki blautan……..

 5. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Mér sýnist þessi seinni hálfleikur vera að fara á kunnuglegar slóðir.

 6. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Svekk!!

 7. Finnur skrifar:

  Veit ekki. Ég er alveg sáttur við þrjú stig. 🙂

 8. Teddi skrifar:

  Það er svo geggjað að geta hneggjað!!!! (Flosi Ólafs)

 9. Ari S skrifar:

  Fallegt 🙂 YESSSSS!!!!!

 10. Gestur skrifar:

  Mikið er ég sáttur að hafa rangt fyrir mér.

 11. Elvar Örn skrifar:

  Farðu úr bænum, hvað þetta var sætt. Everton miklu betri og virtist ekki okkar dagur frekar en venjulega. Þeirra markmaður varði 4 sinum mjög vel og þegar ekkert var að gerast þá kemur Cleverley og bjargar málunum. Ég öskraði úr mér lungun, jeminn.

 12. Einar Gunnar skrifar:

  Réttlætið sigrar að lokum en það verður að vinna fyrir því – góð 3 stig í húsi!

 13. Orri skrifar:

  Mest spennandi leikur sem ég hef horft á með mínum mönnum.Ég var gjörsamlega að fara yfir í lokin,en þrjú stig og ég er yfir mig sáttur.

 14. Ari S skrifar:

  Fínn leikur hjá Everton. Er það vitleysa í mér eða hafa menn bara ekkert að segja hérna á everton.is þegar við vinnum leiki og tökum þrjú stig? Nei ég bara segi svona… 🙂

  Strákar það hlýtur að vera hægt að kvarta yfir einvherju i dag… nú eða hæla mönnum. Mér fannst Lukaku góiður eins með þá Cleverley og Barry sem voru fínir á miðjunni. Mirallas var fínn miðað við litla spilamennsku að undannförnu, Baines er líflegri en á þó nokkuð í land og coleman var ágætur. Það var gaman að sjá Besic spila og vonandi er hann að koma til. Og eins með að þegar Osman spilar með þávinnum við, ekkert flóknara enþað…

  kær kveðja,

  Ari.

 15. þorri skrifar:

  sá ekki leikinn en frábær sigur vonandi koma nokkrir í röð við erum með gott lið og líka breidd. koma svo ÁFRAM EVERTON.

 16. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég verð að viðurkenna að þegar var komið fram í uppbótartíma þá var ég búinn að gefa upp alla von þar sem ekkert virtist ganga. En þá dúkkaði Cleverly upp með þetta mark sem færði okkur verðskulduð 3 stig.
  Þetta var bara gott og gaman að sjá að það var baráttuandi í liðinu en mér hefur fundist hann vanta undanfarið.

 17. Gunnþór skrifar:

  Sælir og gleðilega hátíð svona sigrar verða ekki sætari þó að við eigum að vera búnir að drepa þennan leik miklu fyrr gegn jafn slöku liði og Newcastle liðið er,en ekki miskilja frábær þrjú stig í dag.Verðum að kaupa Yarmelenko strax ef það er hægt,vitið þið stöðunna á honum hann er klárlega þessi x fagtor sem við þurfum.

 18. Teddi skrifar:

  Var að lenda aftur á móður jörð eftir þetta ótrúlega sigurmark. Væri til í að sjá Everton versla Rob Elliot í janúar, bara fyrir þessa jólagjöf að kýla boltann til Cleverley sigurmarkinu. 🙂

 19. Ari S skrifar:

  Gunnþór minn, við erum ekkert alltaf að keppa við slök lið þegar við vinnum. Hættum þessu væli. Þoli ekki þegar þetta er sagt. STAÐREYND!

  Gleðileg jól kæru vinir mínir 🙂

 20. Gunnþór skrifar:

  AMEN.Sæll Ari minn það vantar alla liðsheild í þetta Newcastle lið og hefur vantað í nokkur ár,það er fullt af flottum fótboltamönnum í þessu liði en þeir vinna ekki sem lið nægilega vel.Svo lýgur staða þerra í deildinni ekki.STAÐREYND.

  • Ari S skrifar:

   Viðunnum þá ekki bara vegna þess að þeir eru slakir, heldur einnig vegna þess að Everton voru góðir. Það er alltaf spurning hvort að þú einblínir á það neikvæða eða það jákvæða. Bara það sem ég átti við elsku drengurinn minn.

   kær kveðja, Ari

 21. Ari G skrifar:

  Flottur sigur. Ekki alveg sammála að Everton hafi verið góðir í dag. Ég hef séð marga mun betri leiki hjá Everton undanfarið nema vörnin var mun traustari núna. Ekki alveg sammála með einkunn Barkley hann stjórnar alveg ferðinni á miðjunni þótt hann hefði mátt taka meira af skarið framávið. Gott að hvíla Kone hefur sjaldan heillað mig en hann er samt betri úthvíldur. Vonandi byrjar Deloufey með Mirallas á morgun. Kone, Naismith og Lennon geta komið inná í seinni hálfleik. Vill dreifa álaginu meira núna um jólin. Hvenær kemur Jagielka?

  • Teddi skrifar:

   Jagielka er ekki lengur á meiðslalistanum svo það er líklega bara spurning um úthald.

 22. Georg skrifar:

  Það stefndi allt í að við ætluðum að eiga 5. leikinn í röð í deidinni sem við ættum að vinna en ekki náð því, en svo kom þetta mark eins og himnasending frá Cleverley.

  Gríðarlega mikilvægur sigur og heldur betur verðskuldaður, við vorum yfir á allri tölfræði (eins og í síðustu 4 leikjum á undan) og loksins 3 stig í hús.

  Það má segja að endurkoma Cleverley úr meðslum hafi komið á fullkomnum tíma þar sem hann hefur komið mjög vel inn í liðið í fjarveru McCarthy og hefur verið með betri leikmönnum síðustu leikjum.

  Ekki alveg sammála þessari einkunn hjá Barkley, hann var mjög flottur í að dreifa spilinu í leiknum og var til að mynda með 95% pass accuracy og var með 56 heppnaðar sendingar sem var hlutfallslega flerastar sendingar miðað við spilaðar míntúru af öllum leikmönnum í þessari umferð (hann spilaði 68 mín í leiknum). Hann er farinn að sína mjög mikinn þroska í sínum leik og er alveg himin og haf að sjá hann á þessari leiktíð miðað við þá síðustu. Hann er nú þegar kominn með 6 mörk og 7 stoðsendingar í deildinni miðað við 2 mörk og 3 stoðsendingar allt síðasta tímabil.

  Lukaku var fottur í leiknum og má segja að það er sé einnig allt annað að sjá hann á þessari leiktíð en þá síðustu, hann hefur bætt sig gríðarega mikið í að taka við boltanum, halda honum og koma honum frá sér sem hjálpar liðinu gríðarlega mikið í sóknarleiknum. Maður var svekktur fyrir hans hönd að ná ekki metinu þar sem hann var búinn að skora í 8 leikjum í röð (7 í deildinni) en það var ekki annað sjá en að hann væri himinlifandi með sigurinn þrátt fyrir að skora ekki.

  Svo er verðugt að nefna einnig Funes Mori og Stones saman í vörninnin, þeir voru gríðarlega flottir saman. Vil svo ekki sleppa að nefna Barry sem hefur heldur betur komið vel inn í þetta tímabil eftir að hafa átt arfaslakt síðasta tímabil og hélt maður að kallinn væri alveg búinn á því. Hann hefur hlaupið næstmest í deildinni sem segir helling um drifkarftinn sem er ennþá í honum (sem vantaði á síðasta tímabili).

  Ég vona innilega að Mirallas fari að fá fleiri leiki. Mér finnst alltaf mikil hætta af honum en sást vel þegar leið á seinni hálfleik að hann væri ekki match fit þar sem hann hefur spilað mjög lítið á leiktíðinni. Smá tölfræði um hann í leiknum þá var hann með 94% pass accuracy og átti 6 skot í leiknum, 3 inn í teig og 3 fyrir utan teig, þar af voru 4 á rammann. Hann átti flest skot í þessari umferð ásamt Bony hjá City og átti flest skot á rammann af öllum í umferðinni. Lukaku átti til samanburðar 4 skot í leiknum þar af 2 á markið.

  Nú er bara að halda áfram á sigurbraut og vinna Stoke á morgun.
  Áfram Everton!

%d bloggers like this: