Everton vs. Leicester

Mynd: Everton FC.

Everton mætir spútnik-liði Leicester í 17. umferð en þeir hafa aldeilis komið á óvart í vetur og sitja á toppi Úrvalsdeildarinnar með tveggja stiga forskot á næsta lið. Everton er í 10. sæti, 6 stigum á eftir United og markmiðið að komast í eitt af efstu fjórum sætunum, sem er raunhæft að mati Lukaku. Það verður þó enginn hægðarleikur að ná þremur stigum á móti Leicester, sem hafa unnið 10 af 16 leikjum tímabilsins, ekki síst vegna frammistöðu Riyad Mahrez (með 12 mörk og 7 stoðsendingar) og Jamie Vardy (með 15 mörk og tvær stoðsendinar). Vardy er markahæsti leikmaður Úrvalsdeildarinnar en Lukaku fylgir honum fast á eftir með 12 mörk og fjórar stoðsendingar. Þess má geta að Jamie Vardy hefur skorað jafn mikið og Ronaldo og Messi hafa samanlagt skorað fyrir sín lið en aðeins nánari samanburður hans við Lukaku, sem NSNO tóku saman, er okkar manni alls ekki óhagstæður.

Browning, varnarmaðurinn ungi, er meiddur og missir af næstu leikjum en það styttist í endurkomu Phil Jagielka. Ekki er hægt að útiloka McCarthy og Pienaar frá þessum leik og John Stones er heill en óttast var að hann hefði meiðst í leiknum gegn Norwich. Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Mori, Stones, Coleman, Barry, Cleverley, Kone, Barkley, Deulofeu, Lukaku.

Hjá Leicester er Robert Huth í banni en Danny Drinkwater, Jeff Schlupp, Ritchie De Laet og Matty James meiddir.

Eina tap Everton gegn Leicester í deild var árið 1998 en þeir hafa ekki unnið á Goodison Park í 30 ár. Undanfarið hafa leikir gegn þeim endað með jafntefli sem er ekki ólíkleg niðurstaða á morgun en Leicester hafa ekki tapað á útivelli síðan í mars.

Í öðrum fréttum er það helst að Sky tóku saman 10 mestu kostakaup Úrvalsdeildarliða frá stofnun Úrvalsdeildarinnar og er Everton með tvo leikmenn á þeim lista, Tim Cahill og Seamus Coleman. Segir það kannski ákveðna sögu af afrekum njósnanets klúbbsins.

Einnig er rétt að geta þess að Everton mætir Dagenham and Redbridge í FA bikarnum en þeir unnu utandeildarlið Whitehawk á dögunum.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U18 eru úr leik í FA Youth Cup eftir 0-1 tap gegn Aston Villa U18 en, líkt og aðallið Everton gegn Norwich, áttu þeir skot í bæði stöng og slá en tókst þó ekki að gera það sem Lukaku gerði í þeim leik — að setja mark. Everton U21 gerði 1-1 jafntefli við Tottenham U21 en mark Everton skoraði Liam Walsh.

Einnig var láni David Henen hjá Fleetwood framlengt til 2. janúar.

En… topplið Leicester næstir á Goodison Park. Ykkar spá?

21 Athugasemdir

 1. Gunni D skrifar:

  Ekkert helvítis jafntefli, þetta er ekki skák. Einfalt; skorum fleiri mörk en þeir.

 2. Ari S skrifar:

  1-2 tap. Leicester eru með besta liðið í dag og engin skömm að tapa fyrir þeim.

  góða helgi allir/öll

  kær kveðja, einn neikvæður.

  • Orri skrifar:

   Sæll Ari.Ert þú alveg í lagi.

   • Elvar Örn skrifar:

    Nei hættu nú alveg. Ari í ruglinu. Er nú rosalega hræddur um að við vinnum þennan leik, finn það bara á mér.

    Það er reyndar lyginni líkast að við höfum ekki unnið amk einn af seinustu þremur jafnteflisleikjum í deildinni. Vorum með sigur gegn Bournmouth þegar 96 mínútur voru á klukkunni og bara 5 mínútur í viðbótartíma. Skutum í stangir og þverslár gegn Palace, af hverju fór ekki einn af þessum boltum inn og yfirburðir Everton gegn Norwich í fyrri hálfleik í seinasta leik með eindæmum og ótrúlegt að Everton hafi ekki verið amk með 3-0 í hálfleik. Daprir jafnan í seinni hálfleik sem er óvanalegt hjá Everton miðað við undanfarin misseri.

    Best kannski að búast við sem minnstu en ég held bara að það sé komið að fyrsta tapi Leicester á útivelli að ég held síðan í Mars.

    • Orri skrifar:

     Sæll Elvar.Ari er greinilega að borða eitthvað sem við höfum ekki fengið að borða í dag.

 3. Halldór Sig skrifar:

  Enga meðal mennsku, auðvitað vinnum við 3:1 og blaðran sprungin hjá Leicester!

 4. Tryggvi Már skrifar:

  Tek undir með bjartsýnismönnum og spái 4-0 og Lukaku með þrennu 😉

 5. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Leicester vinnur 2-4 og öll þeirra mörk koma eftir föst leikatriði.
  Að öðru leyti verðum við með nokkra yfirburði í leiknum en þar sem við getum ekki varist föstum leikatriðum þá töpum við.

 6. Ari S skrifar:

  Nei strákar ég var að grínast, við vinnum þetta 2-1 með mörkum frá Lukaku og Naismith.

 7. Teddi skrifar:

  Sammála greinarhöfundi, spái 2-2 jafntefli og hef alveg pottþétt rangt fyrir mér. 🙂

 8. Orri skrifar:

  Ég geri ráð fyrir sigri hjá okkur mönnum.Ég segji 2-0 fyrir Everton.

 9. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Kone???????

 10. Einar Gunnar skrifar:

  Taka Kone út af núna! Hann er ekki lengur í klassa fyrir Everton!

 11. Gunni D skrifar:

  Þetta Leicester lið er ekkert sérstakt í dag. Kannski slæmar aðstæður. Getum alveg unnið, með sömu spilamennsku hefst það. Erum betri það sem af er.

 12. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Cleverly má líka fara út af fyrir Gibson eða Best.

 13. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þetta er fáránlegt!! Af hverju sér maðurinn ekki að þetta er ekki að ganga???? Hann er annað hvort blindur eða fífl.

 14. Einar Gunnar skrifar:

  Jæja, jólagjafirnar bornar út snemma þessi jólin.

 15. Gestur skrifar:

  Þessi Dualufo getur ekki spilað nema 60-70 mín. Lélegt það

%d bloggers like this: