Everton – Crystal Palace 1-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Crystal Palace í mánudagsleiknum og var liðið óheppið að vinna ekki leikinn en þrisvar í leiknum reddaði tréverkið Crystal Palace. Palace menn komust yfir í leiknum, þvert gegn gangi leiksins, á 76. mínútu eftir hornspyrnu en Everton hafði dómineraði seinni hálfleikinn og hefðu auðveldlega getað unnið leikinn með þriggja marka mun. Svo fór þó ekki í kvöld.

Uppstillingin: Howard, Galloway, Mori, Stones, Coleman, Barry (fyrirliði), Cleverley, Kone, Deulofeu, Barkley, Lukaku. Bekkurinn: Robles, Baines, Gibson, Mirallas, Lennon, Naismith, Osman.

Því miður náði McCarthy ekki að jafna sig af sínum meiðslum því hann er gríðarlega mikilvægur fyrir varnarvinnuna (Bournemouth skoruðu þrjú eftir að hann fór út af) en þetta er ágætis tækifæri fyrir Cleverley; hann var í fínu formi í upphafi leiktíðar og (þangað til hann meiddist) leit hann út fyrir að vera búinn að tryggja sér sæti í aðalliðinu.

Crystal Palace byrjuðu leikinn vel, Conor Wickham með fyrsta skot á mark á fyrstu mínútunni sem Howard varði en greinilegt að þeirra dagskipun var að liggja djúpt, treysta á skyndisóknir og dæla boltum inn í teig. Þetta tókst þeim vel á fyrsta korterinu og fór um mann um tíma því á endanum skapar þetta alltaf gott færi, sem það og gerði en Everton skrapp með sleppinn.

Everton voru ekki mikið í fyrirgjöfum fyrir mark, heldur meira að nýta víddina á köntunum og reyna að komast framhjá bakvörðunum eða þríhyrningaspil í gegnum vörn Palace. Og það heppnaðist öðru hverju, til dæmis á 7. mínútu þegar Barkley og Lukaku náðu vel saman sem endaði með því að Barkley var kominn einn inn fyrir vörnina utarlega í teignum vinstra megin og tók skot en boltinn fór í sveig yfir samskeytin hægra megin.

Everton fékk líka sínar skyndisóknir eins og til dæmis á 10. mínútu þegar Palace töpuðu boltanum og Everton keyrðu á þá. Lukaku náði að flikka boltann í hlaupaleiðina hjá Deulofeu sem setti boltann næstum framhjá síðasta varnarmanni Palace en Deulofeu missti boltann of langt frá sér og hleypti varnarmanninum í boltann. Greinilega töluverð hraðari en varnarmaðurinn en lagði boltann bara ekki nógu vel fyrir sig.

Á 15. mínútu var Everton liðið stálheppið að lenda ekki undir eftir enn eina fyrirgjöfina frá Bolasie. Palace menn fengu point blank skalla (Connor Wickham) sem Howard varði glæsilega. Þar hefði staðan átt að vera 0-1 fyrir Palace.

Everton fékk líka gullið tækifæri til að komast yfir þegar Lukaku spilaði sig í gegnum vörn Palace. Hann missti boltann en fékk hann strax aftur frá varnarmanni, dálítið heppinn, tók nokkur skref með boltann í átt að D-inu á vítateignum og hlóð í skot en í innanverða stöngina vinstri og rúllaði eftir marklínu og endalínu. Millimetraspursmál og Everton hefði komist yfir.

Staðan 0-0 hálfleik. Cleverley eitthvað að kveinka sér í lærvöðva undir lokin, vonandi ekkert alvarlegt.
Allt áfram í járnum í seinni hálfleik framan af en leikurinn alltaf spennandi. Everton settu mun meiri pressu á Palace og sköpuðu fín færi. En Palace menn alltaf hættulegir í skyndisóknum.

Howard átti til dæmis flotta markvörslu þegar Bolasie komst í skyndisókn og steig til hliðar við Stones og náði skoti.

Connor Wickham var svo stálheppinn að skora ekki sjálfsmark eftir aukaspyrnu Everton, þegar hann skallaði í neðanverða slána og næstum inn fyrir marklínu. Aftur reddar tréverkið Palace. Baines inn á fyrir Galloway á 62. mínútu stuttu síðar.

Cleverley var mjög óheppinn að skora ekki á 64. mínútu eftir að boltinn féll vel fyrir hann rétt utan teigs. Glæsilegt skot frá honum sem markvörður varði ótrúlega vel.

Pressan jókst og jókst á Palace en hún skilaði Palace næstum því marki úr skyndisókn. En mark þeirra kom svo stuttu síðar, skalli úr horni, þvert gegn gangi leiksins. 0-1 Palace, sem höfðu legið í vörn mestan part seinni hálfleiks.

Everton jók pressuna og Lukaku átti skot í slá rétt utan teigs. Í þriðja skiptið bjargaði tréverkið Palace mönnum.

En jöfnunarmarkið kom aðeins nokkrum mínútum síðar. Loksins, loksins, loksins tókst Everton að brjóta á bak aftur varnarmúr Palace. Deulofeu með stoðsendinguna eftir flott hlaup hægra megin aftur fyrir vinstri bakvörð Palace og sendingu fyrir mark, beint fyrir framan markvörð þeirra sem Lukaku þurfti bara að pota inn. Staðan 1-1 og Lukaku búinn að skora 50 mörk fyrir Everton í 100 leikjum.

Bæði lið reyndu að taka þrjú stig í lokinn sem leiddi til þess að leikurinn varð enn skemmtilegri fyrir vikið en hvorugu liðinu tókst það. Palace menn klárlega sáttari við 1 stig úr leiknum og töfðu endalaust í lokin. Everton var næstum búið að stela sigrinum á lokamínútunum með skyndisókn en skot frá Kone blokkerað í horn og þar með flautaði dómarinn leikinn af.

1-1 jafntefli niðurstaðan.

Einkunnir Sky Sports: Howard (7), Galloway (5), Funes Mori (6), Stones (6), Coleman (6), Barry (5), Cleverley (5), Deulofeu (6), Barkley (6), Kone (6), Lukaku (8). Varamaður: Baines (5).

Þess má líka geta að dregið var í FA bikarnum í dag og Everton fékk heimaleik gegn annaðhvort Dagenham and Redbridge (úr D deildinni) eða Whitehawk (úr F deildinni).

17 Athugasemdir

 1. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Jæja nú finnst mér kominn tími á að taka Kone út af fyrir Mirallas.

 2. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Here we go again

 3. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Af hverju getur þetta fífl ekki séð það sem er augljóst???

 4. Gestur skrifar:

  Alveg óskiljanlegt afhverju stjórinn notar ekki allar skiftingar , miðju hnoð framundan

 5. Diddi skrifar:

  jæja, markið sem við fengum á okkur á ekki að sjást í deild þeirra bestu, og ég er steinhissa á Martinez að hressa ekki pínulítið uppá sóknarleikinn á 60 min með Kone/Mirallas skiptingu. Enn eitt drullujafnteflið gegn liði sem við eigum að vinna alla daga með þeim mönnum sem við höfðum úr að spila

 6. Eiríkur skrifar:

  Ótrúlegt að nota ekki skiptingarnar okkar.Frekar furðulegt að sjá að það sé bara hægt að sækja upp vinstri vænginn. Annað sem mér fannst undarlegt að í þessum prúða leik sá ágætur dómari ástæðu til að spjalda þrisvar. Við bara verðum að vinna leiki.
  Það hefði verið skárra að tapa fyrir Bournemouth og vinna þennan frekar enn tvö jafntefli.Best hefði nátúruleg verið að vinna báða 🙂

 7. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Það er bara stórfurðulegt að vera með mann á bekknum sem getur unnið leiki upp á eigin spýtur og setja hann ekki inn á.
  Enn furðulegra er þó kannski að láta mann sem er ekki að spila vel klára leikinn.
  Ég er að sjálfsögðu að tala um Mirallas og Kone.

 8. Georg skrifar:

  Þetta var gríðarlega svekkjandi jafntefli. Tvö sláarskot og 1 í stöng. Sammála mönnum hér að Mirallas átti að koma inn fyrir Kone, hefði alveg mátt fá 30 mín.

  Mirallas stóð við innganginn í hálfleik þegar leikmenn komu inn úr búningsklefanum og var að klappa þá áfram, fannst hann sína flottan karakter með þessu, þar sem flestir leikmenn í hans stöðu væru í fílum að fá ekki að spila. Vona innilega að hann fáí sénsinn í næstu leikjum þar sem það væru slæmt að missa hann í janúar. Hann er bara á fá 5-10 mín í leikjum og erfitt að gera mikið á þeim tíma.

  Cleverley fannst mér koma flott inn í leikinn í fjarveru McCarthy og var óheppinn að skora ekki.

  Nú er það bara skyldusigur næstu helgi gegn Norwich

 9. Teddi skrifar:

  Hádegisleikur gegn Norwich, hvað segja tölfræðingar með þá tímasetningu, getum við búist við góðu?

  • Ingvar Bæringsson skrifar:

   Ég er ekki tölfræðingur en ef ég man rétt hafa síðustu þrír leikir okkar þarna endað með jafntefli. Það verður varla mikið meira en stig sem við tökum með okkur frá Norwich.

   • Teddi skrifar:

    Með fullri virðingu fyrir Norwich þá á Everton að vinna sannfærandi sigur.
    Vonum að þetta verði meira stöngin inn en gegn Palace.

 10. Ari S skrifar:

  Það er alveg hreint brandari að lesa þessi innlegg hjá ykkur. Segið mé reitt, er NEIKVÆÐI klúbburinn kominn með kennitölu eða hvað? Farnir að hittast á laun?

  kær kveðja, Ari.

 11. thor skrifar:

  Ingvar, ertu að kalla Martinez fífl?

  Mátt vera ósammála honum mín vegna en þetta er lágkúrlegt.

  • Ingvar Bæringsson skrifar:

   Mér þykir það allavega fíflalegt að reyna ekki einu sinni að gera eitthvað til að hafa áhrif á gang mála þegar það er hægt.
   Það var augljóst að það þurfti að fríska upp á sóknarleikinn, hann var með menn á bekknum sem hefðu getað gert það en í staðinn gerði hann ekki neitt.

%d bloggers like this: