Everton vs. Crystal Palace

Mynd: Everton FC.

Lokaleikur 15. umferðar Úrvalsdeildarinnar er viðureign Everton og Crystal Palace en flautað verður til leiks kl. 20:00 annað kvöld (mánudag). 15. umferðin reyndist liðunum sem byrjuðu umferðina fyrir ofan Everton alls ekki drjúg — ef frá eru talin efstu tvö liðin í deild (Chelsea og… ha, nei… Leicester (!) og Arsenal) því þau gerðu öll jafntefli fyrir utan Man City og Liverpool, sem töpuðu bæði 2-0. Sigur í leiknum myndi færa Everton upp um 5 sæti í deild, upp í það 6. en það verður ekkert gefið í þessum leik enda Crystal Palace reynst okkur mjög skeinuhættir á Goodison Park undanfarin ár.

Crystal Palace menn hafa fengið fleiri stig á útivelli en heimavelli og því rétt að hafa góðar gætur á þeim en síðan stjóri þeirra, Alan Pardew, tók við hefur aðeins eitt lið (Arsenal) náð fleiri stigum á útivelli í Úrvalsdeildinni en Crystal Palace. Þeir eru mjög óútreiknanlegir — unnu Newcastle mjög stórt (heima reyndar) í síðasta leik, 5-1, og sigruðu Liverpool á útivelli 1-2 í byrjun mánaðar en þess á milli töpuðu þeir á heimavelli fyrir Sunderland. Yannick Bolasie er í smá ham núna hjá þeim, með þrjú mörk í síðustu þremur leikjum en hann er, ásamt Yohan Cabaye og Dwight Gayle, þeirra markahæsti maður með fjögur mörk (Gayle hefur reyndar aðeins skoraði í Deildarbikarnum). Þess má líka geta að Bolasie skoraði sigurmarkið fyrir Palace gegn Everton þegar liðin mættust síðast á Goodison Park í leik sem endaði 2-3.

En, það má heldur ekki gleyma því að liðin hafa mæst síðan (á heimavelli Palace) og þá skoraði Romelo nokkur Lukaku sigurmarkið en sá er aldeilis búinn að vera í sjóðandi heitu formi, með 6 mörk í síðustu 5 leikjum (í öllum keppnum) og 8 mörk í síðustu 8 Úrvalsdeildarleikjum. Hann situr nú í öðru sæti markatöflunnar með samtals 13 mörk á tímabilinu (og fjórar stoðsendingar að auki). Aðeins James Vardy hefur skorað fleiri mörk en Lukaku.

Barkley er einnig með þrjú mörk í þremur síðustu leikjum (samtals 7 mörk og 5 stoðsendingar á tímabilinu) en stoðsendingakóngurinn í liðinu er þó Deulofeu, með 6 stykki — aðeins Mezut Özil, leikmaður Arsenal, er með fleiri stoðsendingar á tímabilinu. Ef þessir þrír leikmenn Everton spila af eðlilegri getu á morgun þurfum við engar áhyggjur að hafa. Leikurinn verður örugglega góð skemmtun en áhorfendur á Goodison Park hafa fengið að sjá 10 mörk Everton í síðustu tveimur leikjum (15 mörk í síðustu þremur ef við teljum Deildarbikarinn og vítaspyrnukeppnina með). Þessi samantekt er líka áhugaverð ef þið fenguð ekki nóg af tölfræðinni hér að ofan.

„We have a large attacking threat and a very balanced squad, and I am pleased with the way we have coped with injuries – at one time we had five defenders out of the squad and as a team we always cope with everything which is thrown at us. You have players waiting for their opportunities and that is why you see players performing so well – no-one can drop their standards or take it easy in games.“

– Roberto Martinez

James McCarthy er tæpur fyrir leikinn og verður líklega metinn á leikdegi og í óstaðfestum fregnum var Tiyas Browning sagður hafa meiðst með Everton U21 liðinu. Líkleg uppstilling: Howard, Galloway, Mori, Stones, Coleman, Barry, McCarthy/Cleverley, Kone, Deulofeu, Barkley, Lukaku.

Hjá Palace er kantmaðurinn Wilfried Zaha í banni hjá Palace og miðjumaður þeirra, Bakary Sako, meiddur.

Af ungliðum Everton er það að frétta að tvö mini-derby voru í gangi um helgina en Everton U18 og Everton U21 mættu Liverpool jafnöldrum sínum. Everton U18 liðið tapaði 2-1; lentu 2-0 undir í fyrri hálfleik en Delial Brewster minnkaði muninn á 55. mínútu (11. mark hans á tímabilinu). Everton átti seinni hálfleikinn og voru mjög nálægt því að jafna en tréverkið reddaði Liverpool sem náðu að hanga á sigrinum. Everton liðið er í öðru sæti deildarinnar eftir leikinn, með jafn mörg stig og Man City í efsta sæti en eiga leik til góða á þá.

Everton U21 unnu Liverpool U21 3-1 með mörkum frá Antony Evans, Calum Connolly og Kieran Dowell. Everton U21 eru í fjórða sæti deildarinnar eftr leikinn en Liverpool U21 eru eftir sem áður á botninum.

Í lokin má geta þess að Conor Grant framlengdi lán sitt hjá Doncaster fram yfir áramót (og er enn að skora fyrir þá) en Russell Griffiths og James Graham kláruðu sína lánssamninga og eru komnir aftur til móðurskipsins.

En, Crystal Palace eru næstir á mánudagskvöld. Leikurinn er í beinni á Ölveri — ekki missa af honum!

10 Athugasemdir

 1. Hallur skrifar:

  því miður fer þetta 2-2 þar sem það er venjan þegar við eigum séns að koma okkur í betri stöðu þá klikkar það
  vona samt að ég hafi rangt fyrir mér

 2. Diddi skrifar:

  hef trú á að við vinnum þennan leik og segi 3-1

 3. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég held að Crystal Palace sé orðið svona bogey team fyrir okkur allavega á Goodison því þeir hafa unnið okkur þar tvö tímabil í röð og ég reikna með þriðja sigri þeirra á morgun.

 4. halli skrifar:

  Everton hefur ekki tapað manudagsleik í deildinni í síðustu 15 monday night leikjum og vinnum við í kvöld 3-1

 5. Halldór Sig skrifar:

  Af því að síðustu úrslit voru mjög svekkjandi held ég að við tökum þennan leik 2:0 Lukaku með bæði

 6. Orri skrifar:

  Ég er nú ekki vanur að spá okkar mönnum tapi.Ég held að við vinnum 3-0.

 7. Teddi skrifar:

  Hallur er því miður að spá þessu alveg hárrétt.

 8. Gunni D skrifar:

  Höldum hreinu og skorum eitt eða fleiri mörk, og málið er dautt.

 9. Einar Gunnar skrifar:

  Ef veðrið verður eins og spár gera ráð fyrir, þá þætti mér mjög gaman að fá 5-1 – myndi bera hlýju og yl í kot 🙂

 10. Elvar Örn skrifar:

  Sigur í dag kæmi Everton úr neðri hluta deildarinnar (11 sæti) upp í það sjötta og einungis 6 stigum frá öðru sæti. Ég tel þetta mjög mikilvægan leik með hliðsjón af þessum staðreyndum en jafntefli kemur okkur í 9 sæti.
  Þess má einnig geta að Everton er með 8 mörk í plús en næstu lið fyrir ofan okkur eru með mun óhagstæðara markahlutfall. Ég tel í raun að Everton eigi skilið að vera ofan en raun ber vitni.

  Þess heldur þá er Norwich í næsta leik og svo léttur heimaleikur gegn Leicester áður en við mætum döpru liði Newcastle svo Everton ætti nú að geta krækt í eitthvað af stigum í næstu leikjum.

  Sóknarlega þá er þrenningin Lukaku, Barkley og Deulofeu að ná fanta vel saman og Kone kemur sterkur inn á milli. Spurning hvort við getum eflt vinstri kantinn t.d. með Baines eða jafnvel Mirallas, finnst sá síðarnefndi eiga skilið að leika meira.

  Spái 3-0 slátrun í kvöld, ég er bara ekki þessi svartsýna týpa hehe.

%d bloggers like this: