West Ham vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Á laugardaginn kl. 15:00 mætir Everton á heimavöll West Ham í 12. umferð Úrvalsdeildarinnar. West Ham menn fengu góða innspýtingu fyrir tímabilið með kaupum á franska landsliðsmanninum Dimitri Payet en hann hefur leikið „í holunni“ og hefur skorað fimm mörk í 11 leikjum fyrir þá. West Ham hafa jafnframt verið í ágætum gír á tímabilinu, sitja nú í 6. sæti með 20 stig, fjórum stigum á undan Everton og virtust óstöðvandi á útivelli í deild — alveg þangað til þeir töpuðu gegn Watford í síðustu umferð sem var þeirra fyrsta tap í átta leikjum. Fram að því höfðu þeir unnið Arsenal, City, Liverpool og Palace og gert jafntefli við Sunderland (af öllum liðum). Heimaleikjaform þeirra, aftur á móti, var aðeins lakara: töp fyrir Leicester og Bournemouth, jafntefli gegn Norwich og fullt hús stiga gegn liðunum sem öll hin liðin í deild virðast vera að sigra þessa dagana, Newcastle og Chelsea. Það er kannski ágætt að Everton mæti þeim á útivelli í þessari viku, því útileikjaform Everton (í öllum keppnum) hefur verið afar gott hingað til, fjórir sigrar, tvö jafntefli og aðeins eitt tap.

Góðar fréttir bárust af meiðslum Oviedo en hann meiddist á lærvöðva í síðasta leik og leit jafnvel út fyrir löng meiðsli en gefið var út að hann yrði aðeins frá í tvær til þrjár vikur. Baines er jafnframt ekki langt frá endurkomu en Everton mun spila vináttuleik fyrir luktum dyrum í landsleikjahléinu til að koma honum í betra leikform fyrir þá leiki sem framundan eru.  Muhamed Besic og Tom Cleverley hafa verið að æfa með aðalliðinu undanfarið en Steven Pienaar og Tony Hibbert missa af West Ham leiknum vegna meiðsla. Líkleg uppstilling því: Howard, Galloway, Mori, Stones, Coleman, Barry, McCarthy, Barkley, Deulofeu, Kone, Lukaku.

Hjá West Ham eru Diafra Sakho og Pedro Obiang metnir tæpir og (uppfært 6. 11) James Collins í banni.

Í öðrum fréttum er það helst að samningur Kone framlengdist sjálfkrafa til júní 2017 eftir leikinn við Sunderland, Martinez sagði að hann væri líklegri til að nota sumarið til að bæta við leikmönnum en janúargluggann og að Mirallas væri ekki á förum.

Barkley og Stones eru í hópi Englands fyrir næstu landsleiki þeirra, Galloway og Browning í hópi U21 árs leikmanna, Russell Griffiths og Mason Holgate í U20 ára hópnum og Ryan Ledson, Jonjoe Kenny og Callum Connolly í U19 ára hópnum.

Af öðrum ungliðum er það að frétta að áðurnefndur Russell Griffiths fór að láni til Halifax í einn mánuð (líklega til að byrja með).

Að lokum má svo geta þess að Everton U21 lenti undir á móti Blackburn U21 í fjórðungsúrslitum Lancashire Senior Cup en náðu að snúa leiknum sér í vil og hafa sigur, 1-2 á útivelli. Mörk Everton skoruðu Courtney Duffus og David Henen.

En, West Ham næstir á laugardaginn. Leikurinn er sýndur í beinni á Ölveri.

6 Athugasemdir

 1. Teddi skrifar:

  3-3 (1-1)
  Enjoy!

 2. Diddi skrifar:

  1-3……ekki málið 🙂

 3. Finnur skrifar:

  Uppstillingin komin:
  http://everton.is/?p=10174

 4. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég verð mjög hissa ef við vinnum þennan leik. Það er kannski bara asnaleg hjátrú í mér en þetta er síðasti leikur fyrir landsleikjahlé + að við getum hoppað upp fyrir þessa leiðinda nágranna okkar, og venjulega þýðir þetta tap eða í besta falli jafntefli.

 5. Diddi skrifar:

  X factorinn ekki að sýna mikið í þessum leik frekar en aðrir, helst sendingin hjá Delllafoj og markið hjá Lukaku sem var meistaraverk, annað neðan við miðju 🙂

%d bloggers like this: