Everton vs. Sunderland

Mynd: Everton FC.

Everton á leik við Sundarland í elleftu umferð ensku Úrvalsdeildarinnar en leikið verður á Goodison Park á sunnudag kl. 13:30. Þess má geta að á fjórðu mínútu leiksins munu stuðningsmenn með lófataki og söngvum heiðra minningu Howard Kendall sem féll frá á dögunum en hann lék í treyju númer 4.

Everton hafði gott tak á Sunderland fyrir ekki svo löngu síðan en hefur gengið heldur brösulega gegn þeim í síðustu 5 deildarleikjum — aðeins einn sigur, eitt jafntefli og þrjú töp. Sunderland eru með nýjan stjóra, Sam Allardyce, og eru nýbúnir að vinna erkiféndur sína Newcastle 3-0, þó þeir hafi þótt ósannfærandi á löngum köflum í leiknum — þrátt fyrir að vera manni fleiri. Þetta var fyrsti sigur Sunderland í 13 leikjum í deild.

Nú er spurning hvort nýr stjóri færi Sunderland aukinn kraft en tölfræði Sam Allardyce gegn Everton er afar slök. Hann hefur tapað öllum 6 leikjum með West Ham gegn Everton og tapað í síðustu 5 deildarleikjum á Goodison (með Bolton, Blackburn og West Ham). Vonum að það haldi áfram.

Baines og Besic eru farnir að æfa á fullu með liðinu en þurfa meiri tíma áður en þeir koma til greina í byrjunarliðið. Coleman er líklega frá en hann missti af deildarbikarleiknum vegna magapestar. Annars eru allir, sem voru heilir eftir síðasta deildarleik, einnig heilir fyrir þennan leik.

Líkleg uppstilling: Howard, Galloway/Oviedo, Mori, Stones, Browning, McCarthy, Barry, Deulofeu, Mirallas, Barkley, Lukaku. Hjá Sunderland eru John O’Shea, Younes Kaboul, Ola Toivonen og Fabio Borini allir tæpir.

Í öðrum fréttum er það helst að frétta að Íslendingaferðin í desember fellur því miður niður vegna ónægrar þátttöku. Það var greinilegt að fólki leist ekki nógu vel á að taka mánudagsleik með tilheyrandi röskun á ferðaplani þannig að við reynum bara aftur eftir áramót. Við biðjumst velvirðingar á þessu — en ítrekum að við getum enn reddað miðum fyrir þau ykkar sem vilja ferðast á eigin vegum og sjá leikinn. Miðarnir fara í sölu á allra næstu dögum, þannig að endilega hafið samband sem allra fyrst.

Af ungliðunum er það að frétta að hinn tvítugi miðjumaður Connor Grant var lánaður í einn mánuð til Doncaster og hinn 27 ára hægri bakvörður, Felipe Mattioni, sem nýlega skrifaði undir samning við Everton til loka tímabils, var einnig lánaður til Doncaster.

Everton U21 liðið vann svo Southampton U21 0-2 (sjá vídeó) með mörkum frá David Henen og Harry Charsley. Stjóri þeirra, David Unsworth, var að vonum kátur og sagði þetta vera bestu frammistöðu þeirra á tímabilinu hingað til.

En, Sundarland næstir á sunnudag. Ykkar uppstilling/spá?

8 Athugasemdir

 1. Teddi skrifar:

  Þetta verður strembið með vængbrotna vörn, óvænt 0-1 tap.

 2. Diddi skrifar:

  4-0 fyrir okkur 🙂

 3. Finnur skrifar:

  Uppstillingin komin:
  http://everton.is/?p=10149

 4. Gunni D skrifar:

  Að fá á sig mark á 48:03, hvaða rugl er það?Eru menn komnir í te?

%d bloggers like this: