Everton – Norwich 1-1 (5-4 eftir vítaspyrnukeppni)

Mynd: Everton FC.

Ekki besti leikur Everton á tímabilinu og enn á ný lendir liðið undir í bikarkeppninni en kemst samt áfram. Mann er farið að gruna að þeir séu að gera þetta viljandi!

Uppstillingin: Robles, Oviedo, Mori, Stones, Browning, Gibson, McCarthy, Mirallas, Osman, Kone, Lukaku. Varamenn: Howard, McGeady, Lennon, Naismith, Deulofeu, Barkley, Galloway.

Þó nokkrar breytingar á liðinu og það þarf ekki að fara mörgum orðum um fyrri hálfleik því það var nánast ekkert að frétta. Everton betri í reitaboltanum en Norwich með yfirhöndina í fjölda hornspyrna. Liðin skiptust á að bera boltann vítateiga á milli en almennileg færi skorti. Við komum líklega ekki til með að kaupa DVD af þessum leik og Sky valdi greinilega réttan leik til að sýna beint því Sheffield Wednesday eru að vinna Arsenal 2-0 í hálfleik.

Fyrsta markverða atvik leiksins gerðist á 51. mínútu (já, nákvæmlega) og það var að sjálfsögðu mark frá Norwich. Fyrirgjöf inn í teig frá hægri og Bassong potað inn framhjá varnarmanni og markverði. Alveg eftir forskrift.

Barkley var skipt inn á á 61. mínútu fyrir Browning og Deulofeu inn á fyrir Kone. Sem sagt: Tveir miðjumenn fyrir varnarmann og sóknarmann. Og örfáum mínútum síðar var Everton liðið búið að jafna. Markið var ekki ósvipað marki Norwich, lág fyrirgjöf frá vinstri frá Oviedo sem Osman potaði inn óvaldaður fyrir framan markvörð, stöngin inn. Staðan 1-1.

Lukaku var ekki langt frá því að bæta við marki stuttu síðar en varnarmaður hreinsaði frá áður en Lukaku náði að pota boltanum í netið.

Robles varði svo glæsilega skalla á mark í horn á 72. mínútu og hinum megin skallaði Lukaku rétt yfir á 78. mínútu, aðeins markvörðinn eftir til varnar.

Mirallas var ekki langt frá því að skora á 87. mínútu beint úr aukaspyrnu en markvörður Norwich sló yfir í horn. Hinum megin vann svo Robles fyrir kaupi sínu með flottri vörslu í lokin frá skalla eftir fyrirgjöf á 89. mínútu.

1-1 staðan eftir venjulegan leiktíma. Framlengt.

Mirallas átti að klára leikinn á 96. mínútu þegar hann fékk glæsilega stungu inn fyrir vörn Norwich en boltinn í sveig utan við stöngina vinstra megin og út af. Óheppinn þar en honum var svo kippt út af fyrir Naismith örskömmu síðar (98. mínútu).

Jarvis fékk ágætis skallafæri fyrir Norwich á 101. mínútu en skallaði yfir samskeytin.

Staðan því 1-1 eftir fyrri hálfleik framlengingar.

Funes Mori fékk tvö ágætis tækifæri til að skora í seinni hálfleik framlengindar, fyrst eftir aukaspyrnu en skalli undir pressu frá varnarmanni fór yfir á 117. mínútu og svo úr horni á 119. en yfir markið. Í millitíðinni fékk Lukaku færi inni í teig en skaut í varnarmann og út af.

Rétt fyrir lokaflautuna fengu Oviedo og Barkley einnig tækifæri til að klára leikinn en skot þess fyrrnefnda vel varið og frákastið fór til Barkley sem skaut yfir.

1-1 því lokastaðan. Vítaspyrnukeppni!

Norwich fyrstir á vítapunktinn. Harris á móti Robles en skoraði örugglega, sendi Robles í vitlaust horn og skoraði hægra megin. 1-2 Norwich.

Deulofo svaraði að bragði, nákvæmlega eins. 2-2.

Whitaker næstur fyrir Norwich og skoraði auðveldlega vinstra megin, Robles giskaði rétt en varði ekki. 2-3 Norwich.

Barkley öryggið uppmálað næst. Í hægra hornið, markvörður í það vinstra. Staðan 3-3.

Hoolahan næstur fyrir Norwich en Robles sá við honum og varði. Staðan 3-3 ennþá.

Lukaku var næstur og þrumaði í mitt markið og staðan því 4-3 fyrir Everton. Komnir með yfirhöndina.

Norwich menn svöruðu með öruggu víti frá Grabban upp í samskeytin vinstra megin. 4.4.

Gibson með svipað víti, en aðeins lægra. 5-4. Norwich urðu að skora næst ef þeir eiga ekki að tapa.

En Nathan Redmond steig á vítapunktinn og þrumaði hátt yfir.

Everton því komið áfram í 8 liða úrslit deildarbikarsins og þær fregnir bárust að Arsenal, Chelsea og Leicester eru öll úr leik eftir töp í kvöld. Ekki grátum við það.

Ekki eru gefnar einkunnir fyrir bikarleikina en þið megið gjarnan gefa ykkar álit.

13 Athugasemdir

 1. Diddi skrifar:

  það er hroðalegt að horfa á þessi ósköp hjá okkar mönnum. Hreinlega ekki á tánum og leikmenn norwich fá að hringsnúast með boltann algjörlega frjálsir. Vil Naismith inná í hálfleik fyrir Kone og athuga hvort hann láti þá ekki hafa fyrir hlutunum 🙂

 2. Einar Gunnar skrifar:

  Ég finn ekkert stream nema á frönsku, að ég held 🙁

 3. Diddi skrifar:

  sami leikur og ekki verra að heyra frönskuna en ruglið í Gaupa

 4. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Helvítis hörmung er þetta.

 5. Einar Gunnar skrifar:

  Yess!!

 6. Diddi skrifar:

  komnir áfram. Jibbí. 🙂

 7. ólafur már skrifar:

  geggjaður sigur og Joel flottur í markinu vorum slakir mest allan leikinn fannst mér hálfþreyttir og já eins og enginn væri áhuginn en flottur sigur í vítakeppninni en mitt mat er að Joel á að vera áfram í markinu yrði fínt að hvíla Howard aðeins eðða hvað finnst ykkur ??

 8. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Við getum þakkað Robles það að vera komnir áfram. Liðið var voðalega slappt í kvöld, eiginlega bara skítlélegt.

 9. ólafur már skrifar:

  get verið sammála þér Ingvar hrein hörmung sko

 10. Halldór Sig skrifar:

  Svakalega dæmigerður bikarleikur. Mikil barátta í Norwich og voru í raun að sýna flotta takta. Ég vill ekki meina að Everton hafi verið drullu lélegt og sér til skammar, svona þegar maður lítur á leikinn í heild sinni. Það voru margir þarna inná sem eru nánast ekkert búnir að spila eða hafa byrjað mikið á bekknum. Til að mynda Arsenal og Chelsea voru með mjög sterk lið í gær en enduðu samt í algeri skitu, hversu pirraðir eru þeirra stuðningsmenn. En þegar tvöfalda skiptingin kemur lifnar við þessu. Mér fannst Barkley reyndar ekkert vera gera nein kraftaverk en Deulofeu mjög ógnandi. Robles var mjög góður og virkaði öruggur með sig. Hann mætti alveg fara að fá fleiri sénsa.

 11. þorri skrifar:

  það sem ég sá þá voru okkar menn ekki með í Bikarleiknum í gær. Og er sammála því að Joel eigi að fá fleir tækifæri með Everton liðinu

 12. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Ég hef ekki verið mikill aðdáandi Robles síðan hann kom til okkar en miðað við hvernig Howard er búin að vera á síðasta tímabili og í nokkrum leikjum á þessu, þá skil ég bara ekki af hverju Robles fær ekki séns í deildarleikjunum líka.
  Aumingja Robles hlýtur að vera að velta því fyrir sér hvað hann þurfi að gera til að fá að spila meira.

%d bloggers like this: