Everton vs. Norwich

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að 16 liða úrslitum enska deildarbikarsins en annað kvöld, kl. 19:45, leiða Everton og Norwich saman hesta sína á Goodison Park. Þetta er kærkomið tækifæri til að dreifa huganum, hætta aðeins að hugsa um ensku deildina eftir þrjá frústrerandi leiki í röð án sigurs og ekki ólíklegt að Norwich hugsi það sama en ekki má þó gleyma því að þetta er bikarkeppnin sem elskar að hata Everton. Kannski hefur ekki verið lögð nægileg áhersla á hana í gegnum tíðina og hún heldur því áfram að vera eini stóri innlendi titillinn sem Everton á eftir að landa og löngu kominn tími til að breyta því. Barkley er sammála því.

Þetta er fyrsti leikur Everton við Norwich á þessu tímabili og ekki hefur leikur tapast fyrir þeim á Goodison Park síðan 1993 en það skýrist að nokkru leyti af því að Norwich féllu niður um deild 1995 og hafa jafnan ekki stoppað mjög lengi við í efstu deild frá þeim tíma. Eftir að þeir komust upp 2003 hefur Everton unnið þrjá leiki gegn þeim á heimavelli og tvisvar gert jafntefli, en í síðasta leik (árið 2014) fóru leikar 2-0 fyrir Everton með mörkum frá Barry og Mirallas.

Barry er í banni fyrir leikinn en Jagielka er meiddur á hné og verður því frá næstu 8-9 vikurnar. Allir aðrir, sem voru heilir fyrir Arsenal leikinn, eru einnig heilir fyrir þennan leik en Martinez gaf það út fyrir leik að Robles myndi byrja leikinn. Þessi leikur kemur aðeins of snemma fyrir Baines, Hibbert og Pienaar en Cleverley, Oviedo og Mirallas gætu látið sjá sig. Líkleg uppstilling: Robles, Galloway/Oviedo, Mori, Stones, Coleman, McCarthy, Osman, Cleverley, Mirallas, Deulofeu, Lukaku.

Til gamans eru hér hinar viðureignirnar í 16 liða úrslitum (uppfært eftir fyrri helming 16 liða úrslita):

Hull vs Leicester
Sheff Wed vs Arsenal
Stoke vs Chelsea
Liverpool vs Bournemouth
Man City vs Crystal Palace
Southampton vs Aston Villa
Man Utd vs Middlesbrough

Líklegt má þykja að leikur Sheffield Wednesday og Arsenal verði eini leikurinn sem sýndur verði í beinni hér á landi, allavega ef marka má dagskrána á Ölveri.

Af ungliðunum er það svo að frétta að U18 ára liðið vann enn einn sigurinn, í þetta skiptið 0-3 sigur gegn WBA U18, en Nathan Broadhead skoraði þrennu í leiknum, eitt með skalla, eitt með langskoti og eitt úr víti (sjá vídeó). Everton U18 eru því í öðru sæti norðurriðils, einu stigi á eftir Man City U18 en eiga leik til góða.

3 Athugasemdir

  1. Gunni D skrifar:

    Dolla er dolla. Gerum atlögu að henni.

  2. þorri skrifar:

    Veit einhver hvar hægt sé að fylgjast með leiknum hjá okkar mönnum

  3. Finnur skrifar:

    Uppstillingin komin:
    http://everton.is/?p=10102