Arsenal – Everton 2-1

Mynd: Everton FC.

Heimavöllur Arsenal hefur ekki reynst okkur drjúgur undanfarna tvo áratugi og það hélt áfram í kvöld — naumt 2-1 tap staðreynd.

Uppstillingin fyrir leikinn: Howard, Galloway, Jagielka, Stones, Coleman, Barry, McCarthy, Lennon, Deulofeu, Barkley, Lukaku. Varamenn: Robles, Kone, Mirallas, Naismith, Cleverley, Osman, Funes Mori.

Leikurinn byrjaði rólega, Arsenal meira með boltann og stjórnuðu leiknum meira en engin færi litu dagsins ljós fyrsta hálftímann — fyrir utan hálffæri úr hornum Arsenal.

Everton fékk ágætt færi upp úr horni á 27. mínútu, Cech varði bolta út í teig til John Stones en skotið hjá honum framhjá þegar Cech var að standa upp.

Arsenal menn sköpuðu tvö færi eftir rúmlega hálftíma leik, Özil sendi inn á teig á 35. mínútu, beint á kollinn á Giroud sem skallaði inn. Stones fylgdi ekki Giroud inn í teig, leyfði Jagielka að glíma við hann, sem líklega var röng ákvörðun og vörnin uppskar eftir því. Og áður en Everton liðið náði að átta sig á hvað hefði gerst voru gestgjafarnir búnir að bæta við öðru marki og það var eiginlega alveg eins. Í þetta skipti upp úr aukaspyrnu af vinstri kanti á 37. mínútu frá Cazorla, beint á kollinn á Koscielny og inn. Howard líklega mátt gera betur þar í úthlaupinu. 2-0 Arsenal.

Everton liðið brást þó nokkuð vel við og komust betur inn í leikinn. Og á 44. mínútu minnkaði Barkley muninn í eitt mark. Skyndisókn, frábær bolti frá Deulofeu af miðju yfir á vinstri kant á Barkley sem hljóp með boltann, steig skrefið til vinstri innan teigs til að losa sig við einn varnarmann og tók skot af löngu. Boltinn breytti um stefnu af aftasta manni Arsenal og í netið, framhjá Cech sem var á leiðinni í hitt hornið. Staðan 2-1 fyrir Arsenal og allt í einu leit þetta miklu betur út fyrir Everton liðið sem höfðu verið vaxandi eftir mörk Arsenal fram að hálfleik.

Í seinni hálfleik varði Howard tvisvar vel frá Sanchez þegar boltinn barst óvart til hans eftir stungu á annan Arsenal mann og svo skot innan teigs frá vinstri.

Í millitíðinni missti Everton Jagielka af velli með meiðsli og Mori kom inn á á 52. mínútu.

Giroud átti tvö færi, fyrst skot (reyndar rangstæður) sem var varið í horn og var svo ekki langt frá því að tengja við fyrirgjöf frá hægri. Þurfti bara að pota inn.

Barkley átt skot af löngu á 65. en beint á Cech, full máttlaust og Arsenal svaraði með skoti í slá frá Giroud á 69. mínútu.

Lennon var skipt út af fyrir Mirallas í kjölfarið og Lukaku átti skot af löngu færi á 70. en beint á Cech í marki Arsenal.

Everton fékk nokkur góð færi til að jafna í lokin, fyrst Galloway í dauðafæri sem fékk frían skalla eftir fyrirgjöf á 72. mínútu frá McCarthy en skallaði framhjá. Lukaku átti skalla í slá 6 mínútum síðar og Cech reddaði þeim tvisvar með vörslum eftir skot innan teigs, fyrst frá Deulofeu og svo Mirallas.

Kone kom inn á á 89. mínútu fyrir Coleman á 89. mínútu en náði ekki að breyta gangi leiksins.

Özil var ekki langt frá því að bæta við í lokin eftir skot í utanverða stöng á 90. mínútu og þegar leiktíminn var að renna út fékk Barry sitt seinna gula spjald og því rautt.

Einkunnir Sky Sports: Howard (5), Coleman (6), Galloway (6), Jagielka (5), Stones (6), Barry (4), McCarthy (5), Lennon (5), Deulofeu (6), Barkley (7), Lukaku (4). Varamenn: Kone (5), Mirallas (5), Funes Mori (5).

12 Athugasemdir

 1. Diddi skrifar:

  það er sóknarþungi í þessari uppstillingu hjá okkar manni. Líst vel á það.

 2. Gestur skrifar:

  Martinez mjög hugaður í dag

 3. Ari S skrifar:

  Deulofeu átti að fá aukaspyrnuá 33. mín… eftir góða syrpu…

 4. Ari S skrifar:

  og ennþá meiri aukaspyrna á 45. mín!¨!!!!!!!!!!!!

 5. Ari S skrifar:

  nei annars… var að sjá endursýninguna… heppinn að fá ekki gult en samt góðtilraun hjá honum

 6. Gunni D skrifar:

  Fáum við ekki einhvern dramatískan endi á þetta?

 7. Tryggvi Már skrifar:

  Emirates-leikvangurinn er reyndar bara 9 ára gamall 😉 Annars kaflaskiptur leikur. Töpuðum þessu á slæmum 2 mínútna kafla í fyrri hálfleik en hefðum vel getað jafnað. Fannst Galloway vera flottur og stoppa hverja sóknina á fætur annarri – kom því svolítið á óvart að hann var með lægstu einkunn á Fótbolti.net … er ég kannski í ruglinu?

 8. Matti skrifar:

  okkar menn voru fínir. enn fyrra markið er howard þvi miður það kemur hik a hann og frekar lélegt. er tími hanns búinn? villja fleiri fríska þarna næst eða er þetta bara tap tuð í mér? robles inn? svei mér þá!! óóoooooojjjjjjj hvað eg hata að tapa fyrir arsenal svipað og liverpool alltof margir rassenal menn i kringum mig 🙂

 9. Einar Gunnar skrifar:

  Jæja, Jagielka verður frá í átta til níu vikur. Verðum að vona það besta og að maður komi í manns stað!

 10. Gestur skrifar:

  Nú reynir á menn að taka sig saman á meðan fyrirliðin er utan vallar. Það verður gaman að sjá hvort hann setji Barry eða Galloway í miðvörð og þá Oviedo í vinstri og hver leysi þá Barry af kannski Cleverley. Mér finnst liðið sterkara með Mirallas inná frekar en Lonnon og vona að það fari að nást sættir á milli Mirallas og Martinez. Howard virðist frjósa á línunni þegar boltin kemur fyrir það er ekki nógu gott.

 11. Diddi skrifar:

  Mori er náttúrulega maðurinn fyrir Jagielka, hann er búinn að standa sig mjög vel þegar á hann hefur reynt finnst mér. Barry er sem betur fer kominn í bann og leysir því engan af í bili. Howard er búinn að kosta okkur nokkur stig það sem af er leiktíðinni og tími til kominn að blógða Robles almennilega. Það hafa allir sinn vitjunartíma 🙂

%d bloggers like this: