Everton vs. Liverpool

Mynd: Everton FC.

Á morgun (sunnudag) kl. 12:30 tekur Everton á móti nágrönnum sínum, Liverpool, í heima-derby-leik tímabilsins. Everton situr í augnablikinu í 5. sæti með tólf stig eftir 7 leiki, og eru aðeins fjögur stig í toppsætið. Þetta er staða sem maður átti síður en svo von á þegar maður sá uppröðunina á leikjaplaninu fyrir tímabilið en að baki eru leikir sem við hefðum líklega fyrirfram ekki gert ráð fyrir mörgum stigum úr — leikir við Englandsmeistara Chelsea og Manchester City og útileikir gegn Tottenham og Southampton (sem báðir hafa reynst okkar mönnum erfiðir vellir heim að sækja). Það er því nokkuð létt yfir hjá okkar mönnum, liðið náði að styrkja sig ágætlega í síðastu gluggum, halda öllum lykilmönnunum og aðeins tapað einum leik á tímabilinu, gegn Manchester City sem flestir spá líklega titlinum í ár. Fimmta sæti bara nokkuð ásættanlegur árangur miðað við leikjauppröðunina sem er að baki.

Óveðursskýin eru öll staðsett hinum megin við Stanley Park þessar vikurnar en Liverpool sitja í 9. sæti og logar glatt undir sæti Brendan Rodgers, stjóra Liverpool. Tveir ósannfærandi sigrar Liverpool í upphafi tímabils (gegn Stoke og Bournemouth, sem báðir enduðu 1-0) hjálpuðu til við að veggfóðra yfir sprungurnar sem annars blöstu við og er margbúið að ræða. Eftir þetta hvorki gekk né rak hjá þeim að hala inn stigum, sama hvaða keppni var um að ræða og Liverpool fékk slæma skelli í deild á móti United og West Ham og voru svo í bullandi vandræðum með Norwich, D-deildarlið Carlisle og FC Sion. 3-2 sigurleikur þeirra í síðustu umferð, heima gegn Aston Villa — liði í botnbaráttunni, tók smá af pressunni á Rodgers en það þarf að fara ískyggilega langt aftur í tímann til að finna síðasta sannfærandi sigurleik hjá Liverpool. Þetta er því líklega ágætis tími til að mæta þeim.

Martinez vildi meina að pressan á sigur væri öll Liverpool megin: „… if you look at it in terms of the amount of money Liverpool spent over the last three seasons, clearly they need to be the favourites and the ones carrying expectations.“ – RM.

Það er með ólíkindum að hugsa til þess að Liverpool hafi eytt eitthvað um 290 millj­ón­um punda í leik­menn á und­an­för­um þrem­ur árum og árangurinn láti ekki bara enn á sér standa heldur virðist liðið jafnvel veikjast með hverju misserinu. Brendan Rodgers gagnrýndi Tottenham fyrir að vera ekki í titilbaráttu eftir að hafa eytt 100M punda en ætti kannski að líta sér nær.

Hinn mikli meistari, Howard Kendall, benti á það í dálki sínum í Liverpool Echo blaðinu að liðsuppstilling Liverpool gegn Sion sýndi þá virðingu sem Rodgers ber fyrir Everton og þá merkingu sem derby leikurinn hefur fyrir bæði lið. Hann bætti svo við:

„But without a shadow of a doubt, the whole feel of the derby is different now that Steven Gerrard is not playing. He has been a major factor for Liverpool in these games over the years and has been a great leader for them. The absence of Jordan Henderson, who looks like he could be a replacement for Gerrard, is another blow to Liverpool.“

Mikið rétt. Sú var tíðin að það voru fjölmargir leikmenn í liði Liverpool sem þurfti að hafa sérstakar gætur á… Gerrard, Suarez, Sterling, Sturridge, svo einhverjir séu nefndir. Það var ekki gaman að mæta svoleiðis framlínu en einhverra hluta vegna fengu/vildu þessir leikmenn allir að fara frá liðinu (að Sturridge undanskildum, sem þarf að sýna að hann geti spilað heilt tímabil ómeiddur).

Everton liðinu hefur gengið betur að halda í sína lykilmenn og hafa einfaldlega bara sagt nei þegar kom að því að selja þá leikmenn sem klúbburinn vildi halda og ætlar að byggja á til framtíðar. John Stones þar gott dæmi og liðið hefur verið að styrkjast með hverjum félagaskiptaglugga sem líður. Það eru jafnframt flottir ungliðar að koma upp og að mínu mati er nú komið að Barkley að vera skærasta „local“ stjarnan í þessum Merseyside derby leikjum, bæði núna og á næstu áratugum.

Martinez sagði í viðtali í gær að hópurinn væri sá sami og fyrir sigurleikinn gegn West Brom, og engin hafi bæst á meiðslalistann. Oviedo er mjög nálægt endurkomu en hann lék í 90 mínútur með Everton U21 í sigurleik þeirra gegn Norwich U21. Á langtímalegunni eru svo: Pienaar, Baines, Cleverley og Hibbert en endurhæfingaprógrammið hjá þeim tekur stig upp á við eftir landsliðshlé. Besic missir af leiknum en ekki langt í hann og bæði Coleman og Stones eiga séns (verða metnir á leikdegi).

Líkleg uppstilling: Howard, Galloway, Funes Mori, Jagielka, Browning/Lennon, McCarthy, Barry, Barkley, Deulofeu, Naismith, Lukaku. Ég set Lennon sem vara í hægri bakvörð, kæmi mér ekki á óvart þó hann taki leik þar; hann var notaður í hægri bakverði á dögunum og komst mjög vel frá því. Helst myndi ég vilja sjá Stones og Coleman í liðinu líka en alltaf spurning hvað maður á að fikta í formúlu sem skilar þremur stigum og hætta á menn sem eru ekki 100% heilir. Það er jú landsleikjahlé framundan og þeir gætu haft gott af smá aukinni hvíld. Þrír nýliðar er ekki beint það sem maður óskar sér í vörninni fyrir derby leikinn, en þeir hafa svo sem átt fína innkomu í liðið hingað til.

Hjá Liverpool eru Jordan Henderson, Roberto Firmino og Dejan Lovren meiddir en Christian Benteke tæpur (hefur misst af síðustu þremur leikjum hjá þeim).

Martinez sagði einnig í viðtali að þetta væri sterkasti hópurinn sem hann hefði unnið með og að samkeppnin um stöður innan liðsins sé farin að harðna mikið, sem væri að skila sér í mjög flottum innkomum varamanna í síðustu leikjum. Naismith slátraði til dæmis Englandsmeisturunum í okkar síðasta heimaleik, Kone jafnaði gegn West Brom og Deulofeu sneri Barnsley leiknum algjörlega á haus, en Everton lenti 2-0 undir í báðum þessum síðarnefndu leikjum en landaði samt sigri. Liðið hefur sannarlega sýnt það nokkrum sinnum á tímabilinu að það neitar að gefast upp við mótlæti.

Þetta verður þó gríðarlega erfiður leikur og kæmi ekki á óvart þó annaðhvort Lukaku eða Sturridge muni reynast herslumunurinn í leiknum. Lukaku var sjóðandi heitur í síðasta leik og Liverpool Echo bentu á að aðeins Sergio Aguero, Luis Suarez og Robin van Persie væru með fleiri skoruð mörk í Úrvalsdeildinni síðan 2012. Gengi Everton gegn Liverpool á Gerrard-tímabilinu er arfaslakt en á móti kemur að gengi Liverpool er ekkert í síðustu 6 leikjum er ekkert til að hrópa húrra fyrir heldur þannig að það virðist sem að það sé minna á milli liðanna nú en oft áður.

„Brendan is on a path to success“, sagði Martinez í viðtali á dögunum, en þar átti hann við Brendan Galloway, varnarmann okkar unga sem hefur átt frábæra innkomu í vinstri bakverði í fjarveru Baines. Brendan var nefnilega verlaunaður fyrir frammistöðu sína á tímabilinu með kalli frá enska U21 árs landsliðinu.

Bíð spenntur eftir sunnudeginum. Hver er ykkar spá?

5 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    ef Martinez hefur pung og stillir upp sóknarþenkjandi liði þá rasskellum við nágranna okkar, ekki nokkur spurning. Ég segi 3-0.

  2. Teddi skrifar:

    Spáí 1-1.
    Barkley og Coutinho með mörkin.

  3. Finnur skrifar:

    Þetta vídeó er náttúrulega derby klassík…
    http://www.evertonfc.com/news/2015/10/02/classic-highlights-aj
    Vandræðagangur í vörn Liverpool… markvörðurinn út á þekju… history repeating itself?

  4. Gestur skrifar:

    0-0

  5. Finnur skrifar:

    Ágætis viðtal hér…
    http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/everton-v-liverpool-jamie-redknapps-10187580?

    Af leiknum er allt sem ég bið um…
    … engan dómaraskandal.
    … engin meiðsli.
    … almennilega baráttu frá okkar mönnum.
    … og svo helst nokkur mörk. 🙂

    … og náttúrulega skemmtilegan leik.