West Brom vs. Everton (mán, kl. 19.00)

Mynd: Everton FC.

Áður en við fjöllum um West Brom leikinn er rétt að minna á árgjald félagsins og Íslendingaferðina á Crystal Palace leikinn í desember. Ekki missa af því.

Lokaleikur 7. umferðar verður á Hawthorns leikvanginum annað kvöld kl. 19:00 þegar Everton mætir West Brom á heimavelli þeirra síðarnefndu. West Brom geta með sigri stokkið upp um fimm sæti, upp fyrir Everton (sem eru í 9. sæti fyrir leikinn) en Everton gæti með sigri náð upp í 5. sæti, upp fyrir Tottenham.

Everton liðið er taplaust á útivelli á tímabilinu (og ekki fengið á sig mark á útivelli í deild!) en síðustu tveir útileikir Everton hafa endað með jafntefli sem er það sama og segja má um þrjá af síðustu fjórum leikjum Everton og West Brom. West Brom eru sigurlausir á heimavelli á tímabilinu og hafa átt í erfiðleikum með að skora en fyrir umferðina höfðu aðeins Newcastle menn skorað færri mörk í deildinni. Tony Pulis, aftur á móti, hefur flikkað upp á vörn þeirra frá því hann tók við (í janúar), en síðan þá hefur ekkert lið í Úrvalsdeildinni fengið færri mörk á sig.

John Stones og Seamus Coleman eru metnir tæpir fyrir leikinn en eiga séns. Bryan Oviedo, Aiden McGeady, Steven Pienaar, Leighton Baines, Tom Cleverley og Tony Hibbert verða frá vegna meiðsla og Mirallas er í banni.

Líkleg uppstilling: Howard, Galloway, Stones (/Funes Mori), Jagielka, Coleman (/Browning), Barry, McCarthy, Barkley, Lennon, Kone, Lukaku. Einnig er séns að Lennon taki að sér stöðu hægri bakvarðar/wingback eins og í síðasta leik, en það verður að koma í ljós.  Allra augu verða á Lukaku sem hefur ekki skorað í deildinni síðan hann setti tvö á Southampton í 0-3 sigri Everton á útivelli en það er vart hægt að hugsa sér betri stað til að bæta upp fyrir skort á mörkum frá Lukaku en á Hawthornes leikvanginum, en hann þekkir þann völl út og inn eftir að hafa leikið með þeim sem lánsmaður fyrir ekki svo löngu.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U18 liðið tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu, manni færri á útivelli gegn Blackburn U18, 2-1. Þeir eru eins og er í þriðja sæti síns riðils en eiga einn leik til góða á liðið í öðru sæti (Blackburn U18) og tvo leiki á liðið í efsta sæti (Man City U18).

Til gamans má svo nefna að klúbburinn rifjaði upp 0-2 sigur gegn West Brom á síðasta tímabili (sjá vídeó).

Hver er ykkar spá fyrir leikinn?

3 Athugasemdir

 1. Robert E skrifar:

  Upp fyrir Liverpool* En annars er þetta öruggur sigur hjá Everton

 2. halli skrifar:

  Þetta er bara svona 0-2 leikur og þađ eru Lukaku og Lennon með mörkin

 3. Finnur skrifar:

  Uppstillingin komin:
  http://everton.is/?p=9943

%d bloggers like this: