Reading – Everton 1-2

Mynd: Everton FC.

Reading liðið var betra liðið í fyrri hálfleik og það skilaði þeim marki en Everton klárlega betra liðið í seinni og gerðu nákvæmlega nægilega mikið til að komast áfram, en ekkert mikið meira en það. Svo sem ekki hægt að biðja um meira.

Uppstillingin: Robles, Funes Mori, Stones, Jagielka, McCarthy, Osman, Barkley, Lennon, Deulofeu, Kone, Lukaku. Bekkurinn: Howard, Gibson, Galloway, Browning, Naismith, Barry, Leandro.

Fyrsta leikur Funes Mori í byrjunarliðinu en Leandro fékk ekki tækifæri í dag. Það reyndist eftir allt saman hægt að horfa á leikinn á netinu en í frekar slæmum gæðum og stundum höktandi þannig að maður missti af stuttum köflum af leiknum. En beggars can’t be choosers, eins og sagt er.

Fyrri hálfleikurinn nokkuð rólegur, fyrsta almennilega færið á 11. mínútu þegar Reading menn reyndu skot rétt utan vítateigs sem Robles varði glæsilega yfir markið. Everton annars meira með boltann og meira að leita að glufum en hættan á skyndisóknum frá Reading alltaf til staðar.

Everton náðu góðri pressu á Reading á um 20. mínútu – Deulofeu fór mjög illa með vinstri bakvörð Reading og sendi flotta sendingu á Kone fyrir framan markið en ekkert kom úr því færi.

Reading náðu svo dauðafæri á 21. mínútu þegar þeir spiluðu sig í vel gegnum vörnina en Robles vandanum vaxinn og varði frábærlega. Viðvörunarbjöllurnar farnar að hringja og ekki kom á óvart að Reading reyndust skeinuhættir í næstu hornspyrnu.

Því mark Reading lá í loftinu og það kom svo úr skyndisókn á 37. mínútu eftir flott spil þeirra upp vinstri kant, og frábæra fyrirgjöf frá vinstri, Funes Mori náði ekki að dekka sinn mann nógu vel sem setti boltann í netið alveg upp við markið. 1-0 Reading.

Lukaku ekki langt frá því að jafna strax upp úr hornspyrnu en varið í horn. Tvö horn Everton í röð fylgdu en ekkert kom úr því. Deulofeu vildi svo víti rétt fyrir lok hálfleiks þegar leikmaður Reading kastaði sér eiginlega í hlaupaleiðina hans. Hálf undarlegt allt saman. Dómarinn ekki viss í sinni sök og dæmdi ekkert. Líkurnar ekki með Deulofeu þar og flautað til loka fyrri hálfleiks stuttu síðar.

Annan deildarbikarleikinn í röð er Everton undir í hálfleik, í þetta skiptið 1-0 gegn Reading og Reading menn vel að því komnir enda betra liðið í fyrri hálfleik. Nú var spurning hvort Everton liðið gæti unnið upp eins marks forskot. Þeir gátu unnið upp tveggja marka forskot á móti Barnsley og gott betur, þannig að það er allt hægt.

Barry kom inn á fyrir Kone í hálfleik og allt annað að sjá til liðsins í seinni hálfleiks, að hluta til Barry að þakka en einnig meiri ákefð frá Everton sem höfðu verið slakir í fyrri hálfleik.

Stones þurfti reyndar að fara út af á 48. mínútu vegna meiðsla. Leit ekki mjög alvarlega út en inn á kom Brendan Galloway sem átti flottan leik í seinni hálfleik.

Viðsnúningurinn var algjör í seinni hálfleik því Reading skópu voðalega lítið og bara spurning hvenær jöfnunarmark Everton kæmi. Deulofeu fékk flotta sendingu upp hægri kant sem setti hann einan á móti markverði, sem hann komst auðveldlega framhjá, en dæmdur rangstæður í undirbúningnum um það leyti sem hann var að fara að setja boltann í autt markið.

En Everton jafnaði svo leikinn með stæl. Fín pressa skilaði horni og þegar hreinsun frá marki kom var Barkley mættur og þrumaði inn með vinstri. Glæsimark og staðan 1-1. Og Everton liðið var ekki hætt því þeir komust yfir á 73. mínútu. Barkley átti eitt af sínu „trademark powerhouse“ hlaupum á vörn andstæðinga var klipptur niður utan vítateigs. Gult og aukaspyrna og beint úr aukaspyrnuninni skoraði Deulofeu. Al Habsi reyndar með mistök í markinu, sló boltann í stöngina og inn en það telur líka. Everton komið 1-2 yfir.

Lukaku komst í dauðafæri eftir stungusendingu frá Deulofeu á 78. mínútu en Al Habsi bætti fyrir mistökin og náði að verja boltann við jaðar vítateigs frá Lukaku sem var kominn einn inn fyrir.

Robles vann svo fyrir kaupinu sínu þegar hann varði fyrirgjöf vel á 88. mínútu en þar með rann tækifæri Reading út í sandinn og hefði verið ansi hart ef þeir hefðu jafnað.

1-2 sigur Everton í höfn og í fyrsta skiptið í, líklega 4 ár, kemst liðið í 4. umferð deildarbikarsins, sem er bikarkeppni sem hefur hatað okkar lið í gegnum tíðina. Sky Sports gefur ekki út einkunnir fyrir bikarleikina en hér er mín tillaga:

Robles 7 – verður ekki kennt um markið og átti nokkrar flottar vörslur.

Funes Mori 6 – átti fínan leik í sínum fyrsta byrjunarliðsleik. Ekki nógu vel staðsettur í marki Reading en stóð fyrir sínu að öðru leyti.

Stones 7 – Flottur fyrri hálfleikur hjá honum

Jagielka 7 – Sama með Jagielka, hann og Stones stigu varla feilspor í vörninni.

McCarthy 7 – Algjör vinnuhestur á miðjunni, frábær barátta og flottar sendingar.

Osman 6 – Lét ekki mikið fyrir sér fara.

Barkley 9 – Lykilmaður Everton í leiknum, skoraði jöfnunarmarkið með glæsilegum hætti og átti oft flottar sendingar og flott hlaup, eitt af þeim skilaði aukaspyrnu og marki frá Deulofeu.

Lennon 7 – Ágætis leikur.

Deulofeu 6 – Freistaði mín að gefa honum 5 þar sem þetta var ekki hans dagur en hann átti nokkra góða spretti og skoraði mark — þó markvörður hefði gert mistök þar.

Kone 5 – Gekk ekkert upp hjá honum í kvöld.

Lukaku 4 – Sama þar. Fannst hann skelfilegur. Leandro Rodriguez hefði átt að fá nokkrar mínútur í lokin í hans stað.

Varamenn:

Galloway 6 og Barry 7, báðir með flotta innkomu.

Ykkar skoðun?

8 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    prófið þetta félagar 🙂 http://cricfree.tv/football-live-stream

  2. Gestur skrifar:

    Hvað á þetta að þýða að breyta bæði uppstillingu og hálfu liðinu.

  3. Elvar Örn skrifar:

    Everton með 1 skot á rammann í öllum fyrri hálfleik. Reading betra liðið í þeim fyrri.

  4. Ari S skrifar:

    Barkley með glæsimark, 1-1

  5. Elvar Örn skrifar:

    Jæja þetta hafðist. Everton efldist þegar á leið leikinn og náði tveimur mörkum og eftir það drógu þeir sig of mikið aftur.
    Fallegt mark hjá Barkley og aukaspyrnan hjá Deulofeu langt fyrir utan teig var mjög góð en flestir markmenn í úrvalsdeild væru að verja þetta skot held ég.
    Deulofeu átti einnig stungusendingu inn á Lukaku en markvörður REading náði að renna sér í boltann. Deulofeu klárlega stórhættulegur og skapar annaðhvort marktækifærin sjálfur eða leggur þau upp.
    Annars frekar dapur leikur af okkar hálfu og 3 skot á ramman segir allt hjá Everton.
    En sigur er sigur og oft erfitt að spila góðan leik gegn liði eins og Reading sem gefur allt í leikinn.
    Everton komnir áfram amk og gaman að sjá hverjum við mætum næst, ætli við fáum enn og aftur útileik?

  6. ólafur már skrifar:

    vona að við fáum heimaleik núna í þessari keppni

  7. Ari S skrifar:

    Gaman að sjá Osman á ný og flott að hafa orðið meiri breidd í liðinu. Gott að geta breytt hálfu liðinu og unnið.

  8. Finnur skrifar:

    Everton fá Norwich í heimsókn í 16 liða úrslitum League Cup. Drátturinn í heild sinni er hér:

    Everton vs Norwich
    Hull vs Leicester
    Liverpool vs Bournemouth
    Man City vs Crystal Palace
    Man Utd vs Middlesbrough
    Sheff Wed vs Arsenal
    Southampton vs Aston Villa
    Stoke vs Chelsea

    Umferðin verður spiluð í lok október.