Barnsley – Everton 3-5 (deildarbikar)

Mynd: Everton FC.

Magnaður bikarleikur að baki, sem leit illa út í byrjun en endaði sem betur fer vel. Everton gerði sér erfitt fyrir gegn spræku liði Barnsley en þeir lentu tveimur mörkum undir en náði af harðfylgni að jafna tvisvar og komast yfir.

Uppstillingin fyrir deildarbikarleikinn: Robles, Oviedo, Stones, Jagielka, Pennington, Besic, Cleverley, McGeady, Naismith, Mirallas, Lukaku. Varamenn: Howard, Browning, Holgate, Deulofeu, McCarthy, Barkley, Kone.

Sem sagt, blanda af kjúklingum, leikmönnum á jaðrinum og fyrstu valkostum í aðalliðið.

Stjóri Barnsley var spurður hvað væri helsti veikleiki Everton sem hann ætlaði að reyna að nýta sér og hann benti á að þeir væru að fara að mæta hópi sem hefði ekki spilað mikið saman og að það ætti mögulega eftir að koma sér vel. Það reyndist rétt því oft var spilið stirt, leikmenn virkuðu ryðgaðir og ekki allir á sömu bylgjulengd.

Everton áttu þó fyrstu færin í leiknum, fyrst McGeady á 8. mínútu þegar boltinn barst til hans hægra megin í teig, markvörður nýbúinn að verja skot og að stíga upp. Skotið, hins vegar, ekki nógu gott frá McGeady og varið. Illa farið með gott færi.

10 mínútum síðar átti Pennington, sem var að leika sinn fyrsta leik með aðalliðinu, flotta fyrirgjöf frá hægri á ská inn í teig á fjærstöng. Naismith kastaði sér en rétt náði ekki að skalla og Lukaku slengdi fæti að bolta en náði ekki að pota inn.

Barnsley náðu marki á 21. mínútu eftir nokkurn pinball leik í Everton teignum þar sem boltinn hrökk af mönnum hægri vinstri þangað til hann barst til leikmanns Barnsley sem setti hann í hornið. Fyrsta skotið á rammann frá Barnsley og 30M+ punda skotmark Chelsea, John nokkur Stones, hoppaði yfir boltann í stað þess að blokkera. Frábær varnarleikur… eða þannig.

Everton vildi víti þegar Mirallas var keyrður niður tveimur mínútum síðar en endursýning sýndi að líklega var rétt að dæma ekkert.

Og Barnsley gengu þar með á lagið og skoruðu úr sínu öðru skoti sem rataði on target. Þetta mark skrifaðist þó á Robles, sem var ekki nógu ákveðinn og eignaði sér ekki teiginn og einhvern veginn náðu þeir að pota framhjá honum. Everton komið 2-0 undir gegn Barcelo…  nei Barnsley.

Naismith náði af harðfylgni að vinna boltann inni í teig á 33. mínútu, komast upp að marki í færi en náði ekki skoti. Gaf í staðinn út í teig á Lukaku, en skotið frá honum blokkerað. 2-0 í hálfleik.

Pennington og McGeady út af í hálfleik, Deulofeu og Barkley inn á.

Breytingarnar skiluðu strax töluverðum árangri því pressan og ákefðin jókst og var allt annað að sjá til liðsins. Markið lá í loftinu hjá Everton og það kom loks á 50. mínútu eða svo, þegar Oviedo gaf háa sendingu frá vinstri fyrir á Lukaku, sem Lukaku náði ekki að skalla. Varnarmaður Barnsley, hins vegar, skallaði boltann beint á Mirallas sem stóð óvaldaður í miðjum teignum og þrumaði honum í netið. 2-1, game on!

Deulofeu náði flottu þríhhyrningaspili við Lukaku á 53. mínútu sem setti þann fyrrnefnda innfyrir vörnina og upp að marki en vel varið. En nokkrum mínútum síðar var Everton búið að jafna. Deulofeu tók til sín tvo varnarmenn á hægri kanti við teig á 59. mínútu, plataði þá, komst upp að endalínu og náði fyrirgjöf sem Naismith skallaði í netið. Everton búið að jafna 2-2.

En einhverjum sekúndum síðar komust Barnsley aftur yfir. Boltinn á hægri kanti og Besic trakkaði ekki mann Barnsley sem hljóp aftur fyrir vörnina, fékk sendingu og framlengdi fyrir markið þar sem sóknarmaður þrumaði inn. 3-2 Barnsley og útlitið aftur orðið svart.

Everton settu mjög stífa pressu á mark Barnsley, og á 62. mínútu björguðu Barnsley á línu. Deulofeu (enn á ný) upp hægri kant, reyndi fyrirgjöf en í varnarmann og boltinn næstum farinn í netið en varnarmaður Barnsley bjargaði á línu.

Oviedo var óheppinn að fá ekki víti á 68. mínútu þegar hann fékk olnbogaskot í hálsinn um það bil þegar hann var að komast aftur fyrir bakvörð Barnsley. Ekkert dæmt.

Jöfnunarmarkið kom hins vegar á 78. mínútu og aftur var Deulofeu aðalmaðurinn. Átti fyrirgjöf af hægri kanti, beint á Lukaku sem potaði inn. 3-3 og allt að gerast.

Fjögur góð færi hjá Everton litu dagsins ljós, Barkley átti skot á 79. mínútu en sleikti stöngina og Naismith lék sama leik aðeins þremur mínútum síðar. Báðir óheppnir að skora ekki. Mirallas átti svo fínan skalla rétt yfir markið á 89. mínútu. Deulofeu var ekki langt frá því að gulltryggja þetta með skoti rétt yfir slá sekúndum fyrir lok venjulegs leiktíma en allt kom fyrir ekki.

Leikur framlengdur.

Deulofeu náði þriðju stoðsendingu sinni í leiknum þegar hann plataði vinstri bakvörð Barnsley og náði að senda frábæran bolta fyrir mark sem Lukaku þurfti bara að pota inn. Það kom þó ekki til því varnarmaður Barnsley gerði það fyrir hann. Everton komið yfir í fyrsta skipti í leiknum. Staðan 3-4.

Mirallas hefði getað gulltryggt þetta þegar hann komst upp að marki (löng sending inn í teig) en skaut yfir.

3-4 í hálfleik framlengingar.

Barnsley voru ekki langt frá því að jafna í upphafi seinni hálfleiks þegar þeir áttu skot í utanverð samskeytin. Þar skall aldeilis hurð nærri hælum!

McCarthy inn á fyrir Mirallas á 20. mínútu framlengingar.

Barnsley settu allt í sóknina til að freista þess að jafn en Everton refsuðu þeim. McCarthy framlengdi á Barkley sem tók á hlaupið, þrír á móti tveimur varnarmönnum Barnsley og Barkley að gera árás. Barkley með mjög góða sendingu til hliðar á Lukaku sem afgreiddi færið snyrtilega. 3-5 Everton.

Barnsley voru þó ekki af baki dottnir og settu pressu á Everton í lokin. Lukaku var næstum búinn að refsa þeim grimmilega þegar hann vann af þeim boltann á miðju og brunaði upp völlinn. Þrír á móti einum varnarmanni — hlýtur að vera mark en nei. Lukaku reyndi að senda en fékk boltann bara aftur inni í teig og reyndi sendingu fyrir mark í stað þess að skjóta. Illa farið með gott færi.

Lokastaðan: 3-5 og Everton mætir Reading í næstu umferð. Tottenham um helgina.

19 Athugasemdir

 1. Einar G skrifar:

  63. Mínúta og ég gefst upp.

 2. Einar G skrifar:

  Jæja nú er mér öllum lokið. Hættur að horfa á 69. mín þetta átti að vera víti

 3. Diddi skrifar:

  misstir af markinu hjá Lukaku 🙂 ha ha

 4. Einar G skrifar:

  Hehe þetta er svona sálfræði sjáðu 🙂

 5. Einar G skrifar:

  Jæja ekki jöfnun strax takk…7 mín i framl. Hva þeir bara þvælast fyrir hver öðrum

 6. Gunni D skrifar:

  Tek ofan fyrir þessu Barnsley liði.

 7. Einar G skrifar:

  Þetta var leikur sem ég slökkti á (í huganum) nokkrum sinnum. En þetta Barnsley lið var hrikalega gaman að horfa á. Þó svo að okkar menn væru meira með boltann þá gáfu þeir ekkert eftir. Gaman að sjá fyrirgjafirnar hjá Deulofeu, en þær eru eitraðar 🙂 Nú kemur þetta allt… er það ekki?

 8. Elvar Örn skrifar:

  Jesús Pétur hvað þetta var stressandi leikur. Hellings vesen hjá Everton í seinni hálfleik, vel gert þó að jafna eftir að hafa lent 2-0 undir, ekki sjálfgefið að Everton komi til baka eftir að lenda undir og hvað þá að lenda undir aftur eftir að þeir komust í 3-2.
  Þvílík breyting á liðinu við innkomu Deulofeu og Barkley og Deulofeu klárlega að bjarga okkur í dag.
  Lukaku flottur að klára skotin í lokinn og klára þennan leik og þrátt fyrir margt slæmt í þessum leik þá verður maður að vera sáttur við að vinna 3-5 eftir að lenda tvisvar undir.
  Everton að spila með þriggja manna vörn sem þeir voru bara í barsli með verð ég að segja.

  Ekki oft sem maður er svona stressaður í deildarbikar gegn c-deildar liði en þetta var samt sem áður frábær skemmtun og margir leikmenn höfðu bara gott af 120 mínútum. Mætum Reading næst á útivelli, minnir að dagsetning hafi verið kringum 21 sept (æi nenni ekki að fletta því upp er svo örmagna).

  Alveg klárt að Everton mun byrja með Deulofeu inná í næsta leik og jafnvel Mirallas líka en gott að sjá Mirallas spila amk 90 mín sem gerist satt best að segja of sjaldan.
  Ekki alveg sannfærður með Robles, maður er alltaf í stressi þegar hann er á milli stanganna, finnst hann ekki betri en Howard enn sem komið er amk.

  Kone ónotaður, Barry líka, McCarthy spilaði lítið svo við við erum ekki í allt of slæmum málum fyrir leikinn gegn Tottenham næstu helgi.

  Komnir áfram og það skiptir öllu.

 9. Elvar Örn skrifar:

  Áhugavert viðtal við Martinez eftir leikinn og þá sérstaklega varðandi Stones. Hann segir blákalt að Stones verði ekki seldur, punktur. Sjáum hvað setur, skoðið endilega viðtalið á heimasíðu EvertonFC.

 10. Ari S skrifar:

  http://www.evertonfc.com/news/2015/08/26/martinez-firm-on-stones-future

  Algerlega sammála viðtalið er flott. Sjáum hvað setur á morgun….

  Sá seinni hálfelikinn og þvílík innkoma frá Barkley og Deulofeu og meistarinn sjálfur Lukaku spilaði allann leikinn var besti maðurinn að mínu mati þót Deulofeu og Barkley hafi veirð gríðarlega góðir líka… það er umdeilt hver þeirra þriggja hafi veirð bestur í kvöld….

  kær kveðja,

  Ari

 11. Finnur skrifar:

  Skondin setning af umfjöllun Moggans um leikinn:
  „Evert­on var 2:0 und­ir í hálfleik og síðar 3:3 eft­ir venju­leg­an leiktíma.“

 12. Elvar Örn skrifar:

  STones verður ekki seldur og Everton kaupir Yarmolenko og Mori, þá er ég bara sáttur, takk fyrir.

 13. Gestur skrifar:

  Everton tímir aldrei að kaupa Yarmolenko

 14. Elvar Örn skrifar:

  Svona svona, þeir splæstu 28mills í Lukaku og hafna tilboði uppá 30-40mills í Stones svo það er engin ástæða að útiloka kaup á Yarmolenko fyrir td um 18mills.
  Everton með Bill Kenwright í fararbroddi voru rétt í þessu að gefa út statement á heimasíðunni að Everton hafi bæði hafnað tilboðum í Stones og einnig hafnað transfer request frá Stones sjálfum.
  Varnarmaðurinn Mori bíður bara eftir work permit svo hann er gott sem kominn.
  Þetta er bara að verða spennandi gluggi eftir allt saman.

 15. Gestur skrifar:

  Það eru töggur í stjórnarformanni Everton

%d bloggers like this: