Southampton vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Everton mætir Southampton á heimavelli þeirra síðarnefndu á laugardaginn kl. 11:45. Bæði lið gerðu 2-2 jafntefli í fyrstu umferð en það er ekki laust við að maður hefði viljað annan völl fyrir Everton að mæta á nú en St. Mary’s, sem hefur reynst leikmönnum Everton erfiður ljár í þúfu í gegnum tíðina. Síðasti sigur þar var fyrir sjö leikjum síðan og síðustu þrír leikir þar hafa tapast (þar af með þremur sjálfsmörkum). Ekki mikið betra tekur við þegar lengra er farið aftur í tímann en kominn tími til að breyta þar til.

Stóru fréttir dagsins eru þær að Baines fór í uppskurð og verður frá allavega næstu 3-4 mánuðina. Þetta er mikið áfall, bæði fyrir varnarleik liðsins sem og sóknarleikinn en Baines hefur verið duglegur að skapa færi fyrir liðið. Við héldum að við værum með ofgnótt af góðum vinstri bakvörðum en Luke Garbutt, sem fór að láni, meiddist (eins og áður hefur komið fram) og þetta er því væntanlega risastór séns fyrir Bryan Oviedo, ef hann er loksins orðinn 100% heill af sínum meiðslum. Ef ekki má gera ráð fyrir ungliðunum Galloway/Browning í þeirri stöðu — nema Martinez stilli upp Kone í framlínunni með Lukaku, eins og síðast (og setji þá Barry í bakvörðinn), en það verður að teljast ólíklegt.

Þær góðu fréttir bárust þó að Gerard Deulofeu, Aiden McGeady, Muhamed Besic og Kevin Mirallas væru allir byrjaðir að æfa aftur og ættu því allir að vera heilir fyrir leikinn. Líkleg uppstilling: Howard, Oviedo, Stones, Jagielka, Coleman, Barry, McCarthy, Mirallas (vonandi), Cleverley, Barkley, Lukaku. Hjá Southampton eru Gaston Ramirez, Ryan Bertrand, Florin Gardos, Jordie Clasie, Fraser Forster og Steven Caulker frá.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U21 töpuðu 4-1 fyrir Tottenham U21 í fyrsta leik tímabils þeirra og John Lundstram fór á frjálsri sölu til Oxford. Mark Everton gegn Tottenham skoraði Sam Byrne.

Í öðrum fréttum er það helst Everton mætir Barnsley í 2. umferð deildarbikarsins eftir um tvær vikur (nánari tímasetning auglýst síðar).

 

4 Athugasemdir

 1. Elvar Örn skrifar:

  Það virðist sem leikur Barnsley og Everton í deildarbikarnum verði sýndur beint á SKY en margoft hefur leikjum í þessum bikar ekki verið sjónvarpað beint. Gott mál þetta.
  http://www.nsno.co.uk/everton-news/2015/08/league-cup-tie-set-live-tv-coverage/?

 2. Elvar Örn skrifar:

  Já og leikurinn gegn Barnsley verður þann 26 ágúst, miðvikudag, kl 19:45 að staðartíma, 18:45 hér.

 3. halli skrifar:

  Verđum viđ ekki ađ vera bjartsýnír og skjóta á 1-3 sigur okkar manna. Þar sem ég er staddur norðan heiđa þá kemst maður ekki à Ölver en ætla í stađinn ađ heimsækja meistara Elvar og horfa með þeim bræðrum

 4. Ari S skrifar:

  Það hefur nú örugglega verið stuð í Everton stofunni fyrir norðan í dag 🙂

%d bloggers like this: