Everton vs. Watford og helstu fréttir

Mynd: Everton FC.

Fyrsti leikur Everton á tímabilinu nálgast nú óðum en á laugardaginn kl. 14:00 takast nýliðar Watford á við Everton á Goodison Park. Við fengum þær gleðifréttir aðeins tveimur dögum fyrir leik að James McCarthy hefði skrifað undir nýjan 5 ára samning við Everton en stöðugur orðrómur hafði verið uppi um að hann væri á leiðinni annað. Hann er aðeins 24ra ára gamall og hefur aldeilis náð að festa sig í sessi hjá Everton og hans bestu ár væntanlega framundan. Martinez og McCarthy voru báðir kátir í viðtali í tilefni þess að búið sé að skrifa undir.

Martinez sagði í viðtali að hann ætti von á að Stones og Mirallas verði heilir fyrir leikinn og að Deulofeu eigi smá séns einnig. Hibbert og Pienaar missa þó báðir af leiknum, eins og búist var við, auk þess sem Gibson verður frá í a.m.k. tvær vikur í viðbót en hann fór í „smávægilegan uppskurð“ á abductor vöðva. Besic og McGeady stefna á að vera orðnir heilir fyrir Southampton leikinn um næstu helgi. Martinez lét einnig hafa eftir sér að stefnan væri að kaupa þrjá leikmenn áður en leikmannaskiptaglugginn lokar þannig að það verður fróðlegt að sjá hvað gerist.

Líkleg uppstilling fyrir Watford leikinn: Howard, Baines, Stones, Jagielka, Coleman, Mirallas, McCarthy, Barry, Osman, Barkley, Lukaku.

Hvað skal segja um Watford…?? Þrátt fyrir að úrslitin væru þeim mjög hagstæð á síðasta tímabili fóru þeir í gegnum fjóra mismunandi stjóra. Sá fyrsti (Beppe Sannino) sagði upp þegar liðið var í öðru sæti Championship deildarinnar, þar sem leikmenn voru (sagðir) búnir að fá nóg af hans aðferðum. Sá sem tók við (Óscar Garcia) þurfti að segja upp vegna heilsubrests en sá sem tók við af honum (Billy McKinlay) entist aðeins í átta daga í starfi og gerðist mánuði síðar aðstoðarmaður David Moyes í spænsku deildinni. Slaviša Jokanović tók við og kom þeim upp (enduðu í öðru sæti, stigi á eftir Bournemouth) en samningar náðust ekki um áframhaldandi veru þannig að fimmti stjórinn, Quique Flores, núverandi stjóri þeirra, var ráðinn eftir að þeir komust upp í Úrvalsdeildina. Liðið sem Everton mætir er einnig svolítið spurningamerki, því þeir hafa verið að safna til sín leikmönnum og ekki margir sem maður þekkir, en Capoue kannski einna þekktastur:

Étienne Ca­poue (frá Totten­ham)
Steven Berg­huis (AZ Alk­ma­ar, Hollandi)
José Jura­do (Spar­tak Moskvu, Rússlandi)
Migu­el Britos (Na­polí, Ítal­íu)
All­an Nyom (Udinese, Ítal­íu)
Valon Behrami (Hamburger SV, Þýskalandi)
José Hola­bas (Roma, Ítal­íu)
Matej Vydra (Udinese, Ítal­íu)
Giedrius Arlauskis (Steaua Búkarest, Rúm­en­íu)
Sebastian Prödl (Wer­der Bremen, Þýskalandi)

Af þeim sem fyrir voru reyndust Troy Deeney (27 ára) og Odion Ighalo (26 ára) þeirra markahæstu menn á síðasta tímabili, báðir með yfir 20 mörk í Championship deildinni. Þeir hafa auk þess báðir verið iðnir við kolann á undirbúningstímabilinu þannig að rétt er að hafa á þeim góðar gætur. Meiðslalistinn er ekki langur hjá þeim en þeir Joel Ekstrand og Lloyd Doyley verða frá.

Watford áttu nokkur góð úrslit í byrjun undirbúningstímabilsins sem var að ljúka en þeir náðu sigrum gegn St. Albans City, SC Verl, Paderborn 07 og Dundee United auk þess að gera jafntefli við AFC Wimbledon. Ekki gegn jafn vel gegn Cardiff City og Sevilla en báðir leikirnir töpuðust.

Af ungliðunum er það að frétta að Garbutt byrjaði ekki lánssamning sinn hjá Fulham vel en hann meiddist og verður frá í um 6 vikur.

Tomas Andrade frá River Plate er að æfa með U21 árs liðinu og verður mögulega fenginn að láni. Martinez sagði um hann í viðtali: „Tomas has got that raw natural talent to use in attacking play. He is left-footed and can play in between the lines. He has a very interesting profile“. Gaman að því.

U18 ára liðið tók þátt í alþjóðlegu móti í Þýskalandi á dögunum. Þeir gerðu 1-1 jafntefli við Schalke, eins og áður hefur komið fram hér, en unnu svo Fluminese 1-0 í næsta leik (Nathan Holland með sigurmarkið). Þeir töpuðu svo fyrir FC Mainz 4-1 (með marki frá Daniel Bramall) en náðu þrátt fyrir það að komast í undanúrslitin í mótinu. Þar mættu þeir Inter Milan og voru óheppnir að tapa naumlega, 1-0, með marki frá Inter á lokasekúndunum en Everton átti tvö skot í slá og tvisvar vildu þeir fá víti. Stuttu fyrir leikslok fengu þeir reyndar dæmt víti en dómarinn breytti því víti í aukaspyrnu eftir að hafa ráðfært sig við línuvörð  en sú ákvörðun þótti mjög vafasöm. Liðið lét tapið þó ekki á sig fá og sigraði lið Schwarzwald 1-0 , með marki frá Shayne Lavery, og endaði því með brons á mótinu.

En, senn líður að fyrsta leik, gegn Watford. Á meðan við bíðum er hér skemmtilegt vídeó frá klúbbnum af fyrsta leik Andy Johnson með Everton, gegn Watford (sjá vídeó). Hver er ykkar spá?

8 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Þori ekki að spá, vona það besta en hlakka mikið til 🙂

 2. Gunni D skrifar:

  Við bara verðum að fá gott start.

 3. Orri skrifar:

  Ég er sammála Gunna D.Ekkert jafnteflisrugl í byrjun eins oft hefur verið hjá okkur.Sigur og ekkert annað kemur til greina.

 4. Georg skrifar:

  Frábærar fréttir með McCarthy. Svo var verið að staðfesta að Mirallas var að gera nýjan 3 ára samning sem er líka frábærar fréttir.

  Ég segi 2-0 á morgun. Lukaku og Mirallas með mörkin. Þetta er að bresta á

  • Finnur skrifar:

   Hvaðan hefur þú það, Georg? Hef ekki séð það staðfest…
   (Everton síðan niðri í augnablikinu)

 5. Teddi skrifar:

  1-1 verður útkoman kl.15:54 samkvæmt öruggum heimildum.

  Góða skemmtun. 🙂

 6. Finnur skrifar:

  Uppstillingin fyrir fyrsta leik komin:
  http://everton.is/?p=9680

  Þetta er að bresta á!

%d bloggers like this: