Dundee – Everton 0-2 (vináttuleikur)

Mynd: Everton FC.

Dundee reyndust sterkari andstæðingar en Hearts, en líkt og með Hearts reyndist Everton þeim þó of stór biti að kyngja. Öruggur 2-0 sigur í höfn og ekki reyndi mikið á markvörð Everton, enda náði Everton að eyða hættunni strax af sóknum Dundee og bara spurning um hversu stór sigurinn yrði.

Uppstillingin í fyrri hálfleik: Robles, Baines, Browning, Stones, Coleman, McCarthy, Cleverley, Barkley, Naismith, McAleny, Lukaku.

Everton fékk óskabyrjun á leiknum með marki á fyrstu mínútu frá Conor McAleny en boltinn barst til hans rétt utan teigs og hann smellti honum í hliðarnetið hægra megin. Staðan 0-1 fyrir Everton.Naismith fékk ekki löngu síðar fína stungusendingu og komst einn inn fyrir vörn Dundee en varnarmaður tók hann niður. Dómari hefði dregið upp rautt spjald ef um keppnisleik hefði verið að ræða, þar sem Naismith var kominn einn á móti markverði, en dómari lét gult og aukaspyrnu nægja. Barkley tók aukaspyrnuna og átti fína spyrnu sem markvörður sló yfir mark og í horn.

Dundee voru ekki langt frá því að jafna á 20. mínútu þegar þeir fengu boltann óvænt rétt fyrir utan vítateig en áttu skot í slá.

Kieran Dowell kom inn á fyrir Lukaku á 31. mínútu en sá síðarnefndi virtist kenna sér meins í lærvöðva (vonandi bara varúðarráðstöfun að skipta honum út af). Varamaðurinn Dowell átti, hins vegar, strax flott skot rétt utan teigs sem markvörður þurfti að slá frá marki en Dowell sýndi flotta takta það sem eftir lifði leiks, eins og allir ungliðarnir í leiknum, sem voru orðnir ansi margir þegar flautað var til leiksloka.

Staðan 0-1 í hálfleik og Martinez gerði þó nokkuð af breytingum. Uppstillingin í seinni hálfleik: Robles, Oviedo, Stones, Browning, Pennington, McCarthy, Cleverly, Barkley. McAleny, Dowell, Naismith.

Cleverly var ekki langt frá því að skora á 56. mínútu, þegar hann spilaði sig í gegnum vörn Dundee hægra megin og komst einn á móti markverði en skotið framhjá.

Dowell hefði svo átt að fá víti á 58. mínútu þegar hann var klipptur niður af varnarmanni inni í teig en ekkert dæmt. Barkley var svo klipptur niður í teig aðeins mínútu síðar og þá var dæmt víti. Barkley tók vítið sjálfur, sendi markvörðinn í vitlaust horn og setti boltann í netið niðri hægra megin. Staðan 0-2 Everton.

Dundee menn áttu flott skot frá hægri innan teigs á 64. mínútu, en boltinn rétt framhjá fjærstöng.

Galloway var svo skipt inn á fyrir Stones og McAleny kom inn á fyrir Mirallas á 70. mínútu. Örskömmu síðar

komst Naismith inn fyrir vörn Dundee en varnarmaður náði að blokkera skotið frá honum í horn.Ógnunin var nánast öll frá Everton í seinni hálfleik, Barkley komst í færi upp við endalínu en varnarmaður rétt náði að hreinsa áður en Barkley náði skoti á mark.

McCarthy var skipt út af fyrir Ryan Ledson á 80. mínútu og stuttu síðar átti Oviedo skot rétt yfir slána. Mirallas fékk færi einn á móti markverði á 83. mínútu en markvörður varði vel. Naismith átti svo skot innan teigs undir pressu á 87. mínútu en blokkerað.

Lokaniðurstaðan 0-2 Everton í vil — tveir sigrar af tveimur mögulegum í Skotlandsheimsókninni á undirbúningstímabilinu. Leeds næstir á laugardaginn en svo er bara örstutt í að enska deildin byrji aftur! 🙂

1 athugasemd

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Jæja þetta var annar æfingaleikurinn sem ég hef séð í sumar.
    Þrátt fyrir að hafa bara skorað tvö mörk þá virtist þetta vera nokkuð auðvelt hjá okkar mönnum.

%d bloggers like this: