Hearts – Everton 1-3 (vináttuleikur)

Mynd: Everton FC.

Fjörugur leikur við Hearts að baki eftir sannfærandi tveggja marka sigur þar sem Lukaku skoraði þrennu og virkaði almennt séð heitur. Markamunurinn helst lítill miðað við yfirburði Everton í leiknum.

Uppstillingin fyrir leikinn við Hearts: Howard, Baines, Stones, Jagielka, Coleman, Barry, McCarthy, Mirallas, Osman, Kone, Lukaku.

Robles var á leikskýrslu fyrir leik en þegar leikurinn hófst var Howard kominn í markið. Vonandi vegna meiðsla þess fyrrnefnda. En leikurinn byrjaði rólega og Everton náðu góðri pressu frá upphafi, héldu boltanum mjög vel innan liðsins og voru stöðugt að leita að glufum. Þar mættu þeir þykkum varnarmúr Hearts liðsins og fyrir vikið lítið að gerast hjá Heartst í sókninni þangað til á 9. mínútu þegar þeir fengu horn og miðvörður þeirra, Peterson, skallaði boltann í markið. Allt of einfalt og auðvelt, sérstaklega í ljósi þess að þrír leikmenn Everton voru í kringum markaskorarann en leyfðu honum bara að skalla inn. Augnabliks skortur á einbeitningu og Hearts menn komnir 1-0 yfir.

Skömmu síðar gerðist umdeilt atvik. Coleman gaf fyrir mark frá hægri, Lukaku átti algjörlega frábæran skalla sem markvörður varði glæsilega, sló boltann til hægri (frá sér séð) þar sem Barry var mættur. Barry lagði boltann fyrir sig og skaut í bringuna/höndina á varnarmanni sem stóð á línu (markvörður enn á fjórum fótum). Dómarinn viss í sinni sök að um víti væri að ræða. Hearts menn og áhorfendur mjög ósáttir. Lukaku fór á punktinn, sendi markvörð í vitlaust horn og skoraði auðveldlega. 1-1 og í raun ekki minna en Everton átti skilið.

Kone náði að koma boltanum í netið á 25. mínútu eftir flotta stungusendingu frá Lukaku, fór kringum markvörð og setti boltann í autt markið en réttileg dæmdur hárfínt rangstæður. Flott hlaup hjá Kone og ef Lukaku hefði sent boltann sekúndubroti fyrr þá hefði markið staðið.

Osman var svo ekki langt frá því að skora eftir um hálftíma leik eftir fyrirgjöf frá Baines úr horni en boltinn rétt framhjá stönginni.

Kone fékk stuttu síðar boltann óvænt og komst inn í teig vinstra megin. Hann hefði átt að skjóta en ákvað í staðinn að gefa boltann í miðjan teiginn á Lukaku sem náði ekki góðu skoti og fór þar með gott færi forgörðum.

Lukaku brást þó ekki bogalistin í næsta færi á 34. mínútu, Mirallas sendi Coleman upp að endalínu inni í teig hægra megin en í staðinn fyrir að senda háan bolta fyrir mark sendi Coleman lágan bolta stutt út í teig þar sem Lukaku beið og þrumaði boltann auðveldlega í netið. 1-2 fyrir Everton.

Lukaku átti svo frábært skot rétt utan teigs hægra megin skömmu síðar, boltinn stefndi í sveigju upp í samskeytin vinstra megin en bara aðeins of hátt. Hefði verið glæsilegt þriðja mark hans í leiknum.

Lukaku komst í skyndisókn á 43. mínútu þegar miðvörður Hearts hitti ekki boltann í hreinsun og Lukaku brunaði í staðinn með hann upp völlinn, beið eftir hlaupi frá Mirallas inn í teig og sendi svo flotta stunguendingu inn fyrir hægra megin. Mirallas lyfti boltanum í fyrstu snertingu yfir markvörðinn en boltinn sleikti utanverða stöngina vinstra megin.

Hearts menn svo áttu, rétt fyrir lok hálfleiks, skot langt utan af velli, beint á Howard í markinu en stuttu síðar flautaði dómari til loka fyrri hálfleiks. Staðan 1-2 í hálfleik og aðeins ein breyting hjá Everton í hálfleik: Cleverly inn á fyrir McCarthy.

Everton byrjaði seinni hálfleik með látum en Mirallas fékk víti strax á 48. mínútu og þar var enginn vafi, hann komst auðveldlega framhjá bakverði Hearts sem felldi hann inni í teig. Allan daginn víti. Lukaku tók það og gerði nánast það sama og í fyrra vítinu — sendi markvörð í sama vitlausa hornið og skoraði auðveldlega. 1-3 fyrir Everton.

Kone átti glæsilegt hlaup upp hægri kantinn, stakk varnarmann Hearts af og komst inn í teig. Sendi á Mirallas sem kom á hlaupinu inn í teig, en Mirallas missti af boltanum. Lukaku var þó beint fyrir aftan hann á auðum sjó… en skaut nokkuð hátt yfir. Illa farið með gott færi.

Barry setti Lukaku inn fyrir með flottri stungusendingu vinstra megin í teiginn, Lukaku tók skotið en markvörður varði vel. Boltinn barst út í teig en þar var aðeins Hearts maður sem hreinsaði boltann í innkast.

Lukaku komst einn inn fyrir hægra megin, komst í ákjósanlegt færi en ákvað að senda á Osman sem kom á hlaupinu og var í ennþá betra færi en skotið hjá Osman blokkerað af varnarmanni sem kom á skriðtæklingu til að bjarga markverðinum.

Oviedo skipt inn á fyrir Baines á 64. mínútu. Gott að sjá Oviedo loks á velli eftir löng og erfið meiðsli. Mirallas átti stuttu síðar flott skot innan teigs en varið.

Kone kom sér aftur í gott færi með flottum spretti upp hægri kantinn, sendi fyrir markið og boltinn endaði hjá Lukaku sem átti gott skot á mark sem markvörður varði glæsilega. Þulurinn hafði á orði að Lukaku hefði getað verið búinn að skora 6 mörk í leiknum miðað við færin sem hann fékk.

Naismith og Barkley inn á á 78. mínútu fyrir Kone og Lukaku. Naismith fékk hressilegt baul þegar nafn hans var tilkynnt, enda verið duglegur að skora á móti Hearts.

Cleverly átti flott hlaup í gegnum vörn Hearts, átti flott skot frá hægri innan teigs en rétt yfir. Óheppinn þar. Mirallas var svo skipt út af fyrir ungliðann Kieran Dowell á 82. mínútu.

Besta færi Hearts í leiknum kom rétt fyrir leikslok, fyrst kom skot rétt utan teigs frá þeim sem Howard sló út í teig hægra megin (frá okkur séð) en boltinn barst til sóknarmanns Hearts sem tók skot, eiginlega hálf óvænt, en boltinn rétt yfir slána.

Naismith splundraði vörn Hearts með frábærri stungu á Barkley sem kom á hlaupinu. Varnarmaður Hearts stjakaði við honum þegar Barkley var um það bil að fara að skjóta en dómarinn sá ekkert athugavert við það. Barkley náði næstum að launa Naismith greiðann með flottri stungusendingu en Hearts maður náði að stoppa sendinguna.

Dómarinn flautaði svo til leiksloka eftir 90 mínútur og hefði sigur Everton getað verið mikið stærri. En góð æfing engu að síður.

Howard hafði lítið að gera í markinu en vörnin stóð alveg fyrir sínu, fyrir utan eitt einbeitingarleysi í horninu sem Hearts skoruðu úr. Jagielka, Stones, Baines og Coleman litu allir mjög vel út og tóku virkan þátt í sóknarleiknum. Oviedo leit sömuleiðis vel út eftir að hafa komið inn á fyrir Baines. Lukaku virkar mjög heitur en hefði átt að ná fleiri mörkum en bara þrennunni. Barry og Kone virkuðu hins vegar mistækir, allavega til að byrja með, sérstaklega í sendingum en uxu er á leið. Kone átti til dæmis nokkur flott hlaup upp kantinn þar sem hann fór illa með bakvörð Hearts og Barry átti bæði flottar stungusendingar gegnum vörn Hearts og stóð sig vel í að brjóta niður sóknir andstæðinganna. Mirallas auk þess alltaf beittur á kantinum, fiskaði víti og hefði vel getað skorað. Allir úr aðalliðinu (sem heilir voru) tóku þátt og líklega enginn sem maður varð fyrir vonbrigðum með í leiknum, margt gott úr honum að taka. Einu neikvæðu fréttirnar meiðsli á Pienaar (lærvöðvi), sem tilkynnt var í dag, og svo veit maður ekki hvað gerðist með Robles, sem skv. leikskýrslu átti að byrja leikinn.

Comments are closed.