Everton – Arsenal 1-3 (Asíubikar)

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Arsenal í dag í úrslitum Asíubikarsins. Þetta var í fyrsta skipti sem Everton leikur í nýju útibúningunum og fyrsti leikur Petr Cech með Arsenal sem stilltu upp sterku liði.

Uppstillingin: Robles, Garbutt, Jagielka, Stones, Coleman, McCarthy, Barry, Deulofeu, Cleverly, Naismith, Kone. Enginn Howard í markinu og enginn Lukaku frammi. Athyglisvert.

Bæði lið léku áþekkan fótbolta, héldu knettinum vel og minna um sendingar í fyrstu snertingu eins og í Stoke leiknum. Fyrir vikið var leikurinn rólegri og kannski minna fyrir augað.

Við höfum séð skemmtilega leiki gegn Arsenal undanfarin ár þar sem Everton liðið yfirspilaði þá á löngum köflum en slíkt var ekki uppi á teningnum í dag og Everton liðið sá eiginlega aldrei til sólar í leiknum, átti erfitt með að halda boltanum vel í fyrri hálfleik og skapaði lítið af færum.

Fyrsta markið hefði þó hæglega getað verið frá Everton því Deulofeu náði að stinga Arsenal vörnina af, bruna upp hægri kantinn og komast einn inn í teig, hann missti boltann aðeins og langt frá sér — næstum aftur fyrir endalínu en hélt honum inn á, reyndi sendingu á Kone en færið fór forgörðum.

Walcott komst einn í gegn en var dæmdur (mjög) rangstæður — og Robles varði skotið frá honum hvort eð er. Walcott brást þó ekki bogalistin þegar færi gafst næst. Cazorla sá sprett hjá Walcott inn í teig og sendi frábæra stungusendingu fram, sem Walcott náði í fyrstu snertingu að koma framhjá Robles sem kom hlaupandi út á móti honum.

Everton kom þó boltanum á endanum í netið eftir aukaspyrnu frá Garbutt af hægri kanti. Naismith náði skalla fyrirgjöfina meistaralega og boltinn stefndi í neðanverða stöngina og inn en Cech varði glæsilega. Boltinn barst þó til Kone sem náði skoti sem breytti um stefnu og endaði í netinu en Naismith hafði þegar verið dæmdur rangstæður í undirbúningunum.

1-0 fyrir Arsenal í hálfleik sem höfðu verið sterkari aðilinn, þó ekki hafi verið mikið um færi hjá liðunum. Miðjuspilið (og þar af leiðandi sóknin) ekki að virka sem skildi hjá okkar mönnum.

Nokkuð um breytingar í hálfleik, Mirallas og Barkley inn á.

Walcott átti fyrsta skotið í seinni hálfleik, fór í Coleman og breytti um stefnu, fór rétt framhjá stönginni.

Barkley átti svo langskot sem var varið og Cazorla svaraði með langskoti hinum megin. Einnig varið.

Walcott ekki langt frá því að skora eftir smá random pinball inni í teig, en skotið rétt framhjá stönginni. Giroud í skallafæri en hitti ekki boltann, hefði skorað ef hann hefði hitt boltann.

Cazorla bætti svo öðru marki við fyrir Arsenal stuttu síðar, tók tvær gabbhreyfingar á McCarthy og skaut föstu skoti meðfram jörðu alveg út við stöng. Óverjandi fyrir Robles og staðan orðin 2-0.

Jagielka átti frábæra sendingu fyrir mark og Kone komst aftur fyrir vörnina en skallaði yfir úr ákjósanlegu færi. Það reyndist hans síðasta framlag í leiknum því Lukaku kom inn á fyrir hann og Osman inn á fyrir McCarthy.

Cazorla náði glæsilegri stungusendingu á Özil sem bætti við þriðja markinu stuttu síðar. Staðan orðin 3-0. Cazorla afgerandi besti maðurinn á vellinum; kominn með tvær stungusendingar og eitt mark.

Barkley svaraði þó með glæsimarki. Arsenal náðu boltanum og ætluðu að bruna í sókn en Barry stal boltanum af þeim og sendi stutt á Barkley sem tók boltann að vítateig og þrumaði honum upp í hægra hornið framhjá Cech. Staðan orðin 3-1.

Barry átti svo skalla eftir aukaspyrnu en boltinn beint á Cech.

Browning og Hibbert komu inn á sem miðverðir fyrir Stones og Jagielka þegar innan við tíu mínútur voru eftir.

Mirallas átti svo skot innan teigs rétt undir lok leiks en beint á Chec. Það reyndist lokaframlag Everton í sókninni og stuttu síðar var leikurinn flautaður af. Hefði verið gaman að sjá sigur en svo fór ekki í dag. Næsti æfingaleikur er gegn Hearts á sunnudaginn eftir viku.

4 Athugasemdir

  1. Elvar Örn skrifar:

    Leikurinn var sýndur beint á Sky Sports eins og allir leikirnir í þessu móti. Hann er síðan í boði á um 2 pund 4 klst eftir leik á EvertonTV, en veit ekki betur en að highlights sé frítt.
    Sá brot úr fyrri hálfleik og þann seinni í heild.
    Ekki okkar sterkasta lið sem byrjaði inná en ágætis leikur af okkar hálfu en ekki meira en það.
    Magnað magn hjá Barkley lagaði stöðuna eilítið eftir að hafa lent undir 3-0.
    Kone virtist ekki geta blautann og maður farinn að efast verulega að hann muni skila einhverju en hann náði þó að skora en um rangstöðu var að ræða (samt grís, boltinn á leiðinni útaf og lenti í samherja og inn). Everton var meira með boltann í seinni hálfleik og skapaði hættu við og við en Arsenal vann sanngjarnt í dag.
    Martinez skipti Stones og Jagielka útaf fyrir Hibbert og Browning þegar um 8 mín voru eftir svo hann var klárlega að gefa mörgum séns að fá að spila.
    Þá er það bara næsti leikur……

  2. Ari S skrifar:

    Ég sá markið hjá Barkley, virkilega fallega gert hjá honum. Mikill kraftur í skotinu og þetta gefur honum sjálfstraust.

  3. Finnur skrifar:

    Sammála með Barkley. Magnað mark. Tek undir með áhyggjurnar af Kone — og ég hef reyndar áhyggur af McCarthy líka, eftir þessa undirbúningsleiki. Þeir tveir síðastnefndu virka báðir hálf utangátta og sóknirnar brotna alltof oft niður þar sem sendingar þeirra eru ekki að finna samherja. Hef horft á alla undirbúningsleikina og finnst þeir vera áberandi slakastir undanfarið. Ég á líka erfitt með að sjá hvað Cleverly hefur upp á að bjóða — fannst hann týnast í þessum leik. Hann kom náttúrulega á free transfer þannig að það er ekki hægt að kvarta mikið en kannski þarf að finna honum rétt hlutverk í skipulaginu eða hann er ryðgaður eftir sumarfrí. Er enn til í að gefa honum séns, en Kone — verður að viðurkennast — að er að kominn á allra síðasta séns. Hann einfaldlega verður að fara að sýna meira.

    Aðrir leikmenn líta þó bara nokkuð vel út, verð ég að segja…

  4. Elvar Örn skrifar:

    Horfði á fyrri hálfleik og var búinn að sjá þann seinni (horfði samt á hann aftur að mestu leiti).
    Kaflaskiptur leikur þar sem Everton var að spila vel fram að fyrsta marki Arsenal og eftir það seinasta en ekkert sérstaklega þar á milli.
    Kone ekkert sérstakur, McCarthy ekkert sérstakur og í raun var Barkley ekkert sérstakur en þetta mark reddaði þessu nú alveg.
    Naismith alltaf á fullu og maður leiksins að mínu mati er Gareth Barry, hann átti fanta leik fyrir utan 1-2 slow kæruleysis moment.

    Í fyrsta markinu sem Walcott skoraði finnst mér að markmaðurinn hefði átt að taka og spurning hvað Howard hefði gert. Í öðru markinu var McCarthy eins og hringekja þar sem Cazorla plataði hann amk 2svar og skoraði. Þriðja markið var bara vel gert hjá þeim og erfitt að ætlast til að Robles eigi að skora.

    Spurning hvað hefði gerst ef Howard, Mirallas og Lukaku amk hefðu byrjað.

    Veit ekki betur en að Arsenal hafi byrjað með 9 af 11 mönnum sínum sem tóku ekki þátt í fyrri leiknum á mótinu en meiri hluti Everton hafði tekið þátt í fyrri leiknum og því eðlilegt að Everton hafi verið þreyttara í þessum leik.
    Gríðarlega erfiðar aðstæður vegna hita og raka en heilt yfir góð æfing fyrir Everton.

    Verður gaman að sjá hvað þeir gera í leikjunum tveimur í Skotlandi um og eftir helgi.