Swindon Town – Everton 0-4 (vináttuleikur)

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin í fyrri hálfleik: Howard, Galloway, Browning, Jagielka, Coleman, McCarthy, Barkley, Deulofeu, Pienaar,  Naismith, Kone. Restin af aðalliðinu á bekknum.

Strákarnir okkar virkuðu mjög ryðgaðir í byrjun og á fyrstu mínútunum litu þeir skelfilega út. Coleman gaf þeim næstum því mark strax á fyrstu mínútunni þegar sending hans aftur á Howard var alltof stutt og sóknarmaður þeirra komst einn á móti markverði en Howard vel á verði. En Everton óx ásmegin er á leið og komust betur inn í leikinn og setti á köflum góða pressu á mark Swindon.

Dagsskipunin hjá Everton greinilega að senda á samherja í fyrstu snertingu, ef hægt væri, og reyna í mesta lagi að leggja boltann einu sinni fyrir sig áður en honum væri komið á næsta mann. Bæði lið léttleikandi, en ég verð að segja að þetta Swindon lið kom skemmtilega á óvart.

Everton fékk ágætt færi á 10. mínútu þegar Coleman sendi fram völlinn á Deulofeu sem stöðvaði boltann við endalínu og sendi flotta sendingu inn í teig aftur á Coleman sem kom á hlaupinu inn í teig en skotið frá honum framhjá.

Deulofeu var næstum kominn einn gegn markverði þegar hann stakk vinstri bakvörð Swindon af en snerting hans við boltann of þung og markvörður náði fyrst til hans.

Flott samspil milli leikmanna Everton endaði með því að Kone (rétt utan teigs) stakk boltanum inn fyrir vörn Swindon þar sem Naismith kom á hlaupinu og endaði í góðu færi en markvörður varði skotið í horn.

Deulofeu skapaði sér ágætt færi á 28. mínútu, tók skrefið til hægri og skildi vinstri bakvörð þeirra eftir og náði skoti á mark en varið í horn.

Swindon sendu flotta sendingu inn fyrir vörn Everton á 40. mínútu og ef fyrsta snerting sóknarmannsins hefði verið betri hefði hann verið í dauðafæri upp við mark en boltinn framhjá honum og í fanginu á Howard. Deulofeu svaraði strax með flotti skoti á mark innan teigs hinum megin, en aftur varið í horn.

Everton sterkari aðilinn í fyrri háfleik og þó Swindon næði að skapa einhver vandamál í vörninni hjá okkur var ekki svakalega mikið að gera hjá Howard í markinu. Everton líklegri til að skora.

Dómarinn flautaði svo fyrri hálfleikinn af eftir 43 mínútur. Frekar skondið þar sem aðalatriðið í þessum leikjum er að menn fái spilatíma. 🙂

Nánast alveg nýtt lið inná í seinni hálfleik. Uppstillingin: Robles, Galloway, Barry (í miðverðinum), Browning, Hibbert, Besic, Osman, Cleverly, McAleny, Mirallas, Lukaku.

Everton byrjaði seinni hálfleikinn með látum en Conor McAleny, sem átti algjörlega frábæran leik í dag, sendi glæsilega stungusendingu inn fyrir vörn Swindon sem setti Mirallas, sem kom á hlaupinu inn teiginn, einan inn fyrir á móti markverði Swindon og Mirallas átti ekki í neinum vandræðum, fór framhjá markverðinum vinstra megin og sendi í autt markið. 0-1 Everton.

McAleny var aftur að verki á 51. mínútu þegar hann sendi Lukaku inn fyrir vörn Swindon vinstra megin. Varnarmaður náði honum þó en Lukaku sendi þá bara sendingu fyrir mark eftir jörðinni þar sem Mirallas var aftur mættur og fór (aftur) framhjá markverði vinstra megin og skoraði í autt markið. 0-2 Everton.

McAleny var svo ekki langt frá því að skora á 54. mínútu þegar hann átti flott skot af löngu færi sem fór rétt framhjá markinu.

Everton átti þrjú skot í sömu sókninni á 64. mínútu sem öll voru blokkeruð (Lukaku, McAleny og Osman) en það síðasta með snúningi sem leiddi til þess að boltin var við það að rúlla yfir línuna en markvörður náði að standa nógu fljótt upp og kasta sér á boltann til að koma í veg fyrir mark.

Swindon svöruðu strax með langri sendingu inn í teig Everton og sóknarmaður náði skoti sem Robles varði í horn — þó að boltinn hafi líklega verið á leiðinni út af.

Besic var svo skipt út af á 65. mínútu eftir að hafa haltrað af velli. Vonandi ekkert alvarlegt en Jonjoe Kenny kom inn á fyrir hann.

Swindon áttu svo skot framhjá á 69. mínútu þar sem sóknarmaður þeirra reyndi að setja boltann í sveig framhjá Robles en of langt til hægri.

Browning átti svo fínt skallafæri fyrir Everton á 78. mínutu en blokkerað af varnarmanni.

Lukaku átti tvö færi í röð, í fyrra skiptið sólaði hann bakvörð Swindon og komst með boltann upp að marki en ætlaði líka að reyna að komast framhjá markverði í stað þess að skjóta en markvörður náði að slengja hendi í boltann og stoppa það. Í seinna skiptið var svo Lukaku næstum búinn að pota fyrirgjöf í netið en vantaði einhverja sentimetra í að ná til knattarins.

McAleny var einnig lykilmaður í þriðja markinu, hljóp inn í teig hægra megin, fékk boltann til sín og sendi frábæra sendingu á Lukaku sem afgreiddi hann í netið. 0-3 Everton!

McAleny skoraði svo fjórða og síðasta markið í leiknum á 92. mínútu. Lukaku framlengdi á hann hægra megin í teignum og hann tók bara skotið og McAleny setti boltann í hliðarnetið vinstra megin. 0-4 Everton!

Dómarinn bætti svo við tveimur mínútunum sem hann sleppti úr fyrri hálfleik en ekki voru fleiri mörk skoruð. 4-0 sigur í fyrsta undirbúningsleiknum staðreynd og ekki hægt að segja annað en að þetta líti bara nokkuð vel út til að byrja með.

Hvað einstaka leikmann varðar varð ég fyrir pínulitlum vonbrigðum með þrjá:

McCarthy – gerði of mikið af feilsendingum, sumar bara beint á andstæðinga án pressu.
Kone – virkaði afskaplega ryðgaður og bitlaus frammi.
Barry – ekki í sinni bestu stöðu (í miðverði) og virkaði svifaseinn og braut oft klaufalega af sér.

Aðrir:
Cleverly – hans fyrsti leikur með nýju liði og erfitt að dæma út frá því en var svo sem allt í lagi. Hvorki frábær né slæmur. Gef honum séns áfram.
Jonjoe Kenny – ekki lengi inn á en stóð sig ágætlega.
Jagielka, Pienaar, Naismith, Hibbert, Besic, Osman — stóðu allir fyrir sínu.
Nýliðarnir Galloway og Browning í vörninni komust vel frá leiknum og sömu sögu er að segja af Howard og Robles: gerðu engin sjáanleg mistök, héldu báðir hreinu og höfðu ekki of mikið að gera í leiknum.

Hvaða leikmenn standa svo upp úr í dag?

Conor McAleny er klárlega maður leiksins en hann átti þátt í öllum fjórum mörkunum (þar af tvær stoðsendingar og eitt mark sem hann skoraði sjálfur).
Kevin Mirallas er næstur á blað, með tvö mörk og mjög líflega innkomu í seinni hálfleik.
Varla hægt að minnast á þátt Romelu Lukaku heldur, með mark og stoðsendingu.
Barkley, Coleman og Deulofeu litu líka vel út í fyrri hálfleik.

Næsti leikur er svo á miðvikudaginn kl. 10:00 um morguninn við Stoke en þar sem það er fyrsti leikurinn í Asíukeppninni verður vídeóið ekki aðgengilegt okkur fyrr en kl. 14:00.

Hvað fannst ykkur annars um leikinn og leikmenn (þau ykkar sem sáu hann)?

7 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  0-0 í hálfleik. Dómarinn flautaði af þegar klukkann sýndi 43. og eitthvað… og eðlilega fór Duncan Ferguson til hans og lét hann vita…. 🙂

 2. Finnur skrifar:

  Gaman að þessu… 🙂

  Ég heyrði hann lesa upp íslenskt nafn en framburðurinn bjagaður. Heyrði einhver hvaða nafn og staður það var?

  • Elvar Örn skrifar:

   Það kom eitthvað á þessa leið „Elvar and Georg watching from a cabin in Iceland, what about that? “
   Ég sendi tweet kveðju 🙂

   • Finnur skrifar:

    Það var seinni kveðjan, það eins sem ég heyrði (af fyrri kveðjunni) var „(bjagað) from (bjagað)eyri, Iceland“, held það hafi ekki verið Akureyri en er ekki viss… 🙂

 3. Ari S skrifar:

  Ég missti af því.. mér heyrðist hann segja poet from Iceland… Skáld frá Íslandi….???????????????????????

 4. Finnur skrifar:

  Ótengt vináttuleiknum: Það er athyglisvert að sjá að okkar fyrrverandi, Jose Baxter, hefur ekki bætt ráð sitt… http://www.bbc.com/sport/0/football/33523681 :/

  Ég hafði trú á því að það að vera leystur undan samningi myndi gera það að verkum að hann myndi sjá að sér og gera eitthvað í sínum málum en svo virðist ekki vera. (yppir öxlum)

%d bloggers like this: