Tímabilið gert upp

Mynd: Everton FC.

Formaður Everton klúbbsins á Íslandi, Haraldur Örn, leit yfir farinn veg og gerði upp tímabilið sem nú er á enda. Gefum honum orðið:

Sælir félagar.

Mig langar til að taka stutta yfirferð um nýliðið tímabil eins og það hefur spilast og fara aðeins yfir leikmannamál. Hér er að sjálfsögðu aðeins mín eigin skoðun á þessum málum og væri gaman að sjá hvort menn hafi aðrar skoðanir á málefninu.

Þetta tímabil hefur verið algjör rússíbani, allt frá því að spila frábæra leiki, yfir í það að spila leiki sem ekki eru í gæðaflokki ensku úrvalsdeildarinnar og allt þar á milli.

Ég var fenginn til að spá fyrir um gengi Everton á fótbolta.net í haust og var fullur bjartsýni. Þá spáði ég Everton 4. sæti í deild og sigri í einni af 3 bikarkeppnum sem liðið tæki þátt í en vonaðist þar helst eftir sigri í Evrópukeppninni. Það gekk heldur betur ekki eftir.

League cup: Í fyrstu umferð fáum við Swansea á útivelli og það er fátt um þennan leik sem og þessa keppni að segja í ár: 3-0 tap og Everton úr leik.

FA cup: Í fyrstu umferð fáum við West Ham á heimavelli og gerum jafntefli 1-1 þar sem Lukaku tryggir okkur endurtekinn leik með marki á 92. mín. Í seinni leiknum gerum við aftur jafntefli 1-1 í venjulegum leiktíma þar sem Mirallas jafnar fyrir okkur seint í leiknum. Lukaku kemur okkur svo yfir í framlengingu en við missum leikinn í jafntefli, 2-2, og í vítaspyrnukeppni þar sem bæði Naismith og Robles mistekst að skora úr sínum spyrnum og leikurinn tapast því. Það er ekki hægt að tapa með minni mun, en tap engu að síður og Everton þar með úr leik í báðum ensku bikarkeppnunum í fyrstu umferð — langt frá því að vera ásættanlegt.

UEFA Europa league: Í þessari keppni spilaði liðið sennilega sína bestu leiki á tímabilinu. Everton vann báða leikina örugglega á móti Wolfsburg en Wolfsburg er það lið sem spilaði einna best í Þýskalandi (á eftir Bayern) og unnu þá meðal annars 4-0 á útivelli. Leikurinn heima við Krasnodar gáfu okkar menn nánast enda Everton búið að vinna riðilinn og hafði að engu að keppa í þeim leik. Ekki má heldur gleyma fjórum stigum í riðlakeppninni á móti Lille sem voru hæst skrifaðir af öllum liðum riðilsins. Flottur árangur þar.

Í 32ja liða úrslitum mætti Everton Young Boys frá Sviss og voru þeir nákvæmlega engin fyrirstaða: 7-2 samanlagt og allt leit mjög vel út. Í 16 liða úrslitum mætum við Dynamo Kiev og vinnum fyrri leikinn með minnsta mun 2-1 og hættulegt mark sem Dynamo seta á okkur á heimavelli en samt góður séns þarna. Þegar kemur að seinni leiknum þá þá eru öll ensku liðin dottin út úr Evrópukeppnum og sagði góður maður fyrir þennan leik að þarna færi stolt Englands í Evrópu í sinn leik. Hvað gerist? Liðið spilar einn sinn lélegasta leik í vetur og tapar 5-2 og er þar með úr leik í þeirri keppni sem við áttum hvað mestan séns í.

Mitt mat á þessum leik er að Martinez stillti liðinu rangt upp í leiknum á undan (gegn Newcastle) sem Everton vann 3-0. Barry var í banni í þeim leik og því spilaði Gibson og var algjörlega kóngurinn á miðjunni og Martinez stillti upp með 2 sóknarmenn — bæði Lukaku og Kone. En svo þegar kemur að Evrópuleiknum hendir hann Kone og Gibson út og í staðinn koma Barry (sem átti sennilega sinn lélegasta leik í Evertontreyjunni) og Atsu sem hafði ekkert fram að færa til að verðskulda byrjunarsæti í þessum leik. Ég ætla af virðingu minni fyrir leikmönnum Everton að ræða ekki frammistöðu Alcaraz. Mitt mat hér er að Roberto Martinez guggnaði við undirbúninginn fyrir þennan leik og þorði ekki að fara og sækja sigur þarna og ætlaði að láta heimaleikinn duga. Gríðarleg vonbrigði.

Undirbúningstímabilið og Úrvalsdeildin

Það að fara í fjögurra leikja undirbúningstímabil og hafa í engum þeirra allan mannskapinn er bara ekki í lagi — og sýndi sig þegar á reyndi að menn voru ekki klárir í upphafi móts, áttu enn eftir að koma sér í stand og stilla sig saman.

Það að enda tímabilið í 47 stigum á móti 72 í fyrra segir okkur allt sem segja þarf. Menn þurfa að reyna að vinna upp öll þessi jafntefli í sigurleiki enda er Everton alltaf á meðal þeirra liða sem gerir flest jafntefli. En það var ekki allt vont, því margir leikir okkar voru fínir og annað árið í röð velja umsjónarmenn Messunnar á Stöð 2 Sport leik á Goodison sem leik ársins. Í fyrra var það leikurinn á móti Liverpool en núna völdu þeir 3-6 leikinn á móti Chelsea og þó mér finnist aldrei gaman að horfa á Everton tapa þá er erfitt að vera ósammála þar sem þessi leikur var fyrir hlutlausa gargandi snilld. Tveir leikmenn settu jafnframt met í Úrvalsdeildinni: Barry er kominn með 105 gul spjöld (sem ekki er til eftirbreytni) og Baines er kominn með flestar stoðsendingar varnarmanna frá stofnun deildar eða 42.

Að mínu mati er leikur ársins klárlega leikurinn við Manchester United. Mark ársins er screamer-inn hjá JAGS undir lok leiks á móti litlu rauðu köllunum (sjá vídeó). Leikmaður ársins er jafnframt fyrirliðinn okkar, Phil Jagielka, og ungi leikmaður ársins er John Stones.

Leikmannamál

Rennum aðeins stuttlega yfir einstaka leikmenn:

Tim Howard: 36 ára, búinn að vera fínn markmaður en hefur ekki átt sitt besta tímabil og væri til í að fara sjá yngri mann.

Joel Robles: 24 ára, ég var ekki hrifinn af honum til að byrja með en hann vann mig í vetur og ég hefði viljað hafa hann áfram í búrinu þegar Howard kom úr meiðslum.

Alcaraz: 32 ára, ekki nógu góður.

Baines: 30 ára, allan tímann já.

Browning: 20 ára, framtíðarmaður.

Coleman: 26 ára, sá besti í sinni stöðu á Englandi.

Distin: 37 ára, takk fyrir allt en þetta er búið.

Garbutt: 22 ára, þarna verður að finna leið til að halda honum (þangað til Baines velur að hætta), frábær.

Galloway: 19 ára, framtíðarmaður.

Hibbert: 34 ára, hversu lengi getum við notað hann sem cover fyrir Coleman en það ýtir enginn Hibbo út.

Jagielka: 32 ára, lykilleikmaður.

Oviedo: 25 ára, hann getur leyst svo margar stöður — flottur leikmaður.

Stones: 20 ára, allan tímann já, framtíðarfyrirliði.

Barkley: 21 árs, Lykilleikmaður til framtíðar.

Barry: 34 ára, vil halda honum en bara í aukahlutverki.

Besic: 22 ára, sé hann leysa Barry af.

Gibson: 27 ára, hann er (ef heill) einn besti direct miðjumaðurinn sem við eigum, svo já.

McCarthy: 24 ára, lykilleikmaður.

McGeady: 29 ára, nú veit ég ekki hvort hann sé nógu góður og hef hann á „kannski“-vagninum.

Mirallas: 27 ára, mitt mat er að hann sé besti fótboltamaðurinn í liðinu.

Osman: 34 ára, það á alltaf að vera pláss fyrir Osman.

Pienaar: 33 ára, hann hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér í gegnum tíðina en er búinn að vera of mikið meiddur og spurning hvort ekki sé kominn tími á ferskari fætur.

Kone: 31 árs, ekki nógu góður.

Lukaku: 22 ára, yes! Alltof langt síðan við höfum haft leikmann sem nær að skora 20 mörk á tímabili.

Naismith: 28 ára, flottur leikmaður, gefur mikið af sér.

Hvað innkaup varðar sýnist mér að Everton vanti ca. 4 leikmenn: Markmann, hafsent, leikstjónanda/framherja, framherja.

Góðar stundir.

Með bestu kveðju,
Haraldur Hannesson
Formaður

2 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Nokkuð sammála þessu öllu. Nokkrir random punktar sem ég hripaði niður við lesturinn:

    – Ég held að HM þreyta hafi spilað inn í hjá mörgum, til dæmis Lukaku, Jagielka og Mirallas, svo einhverjir séu nefndir. Howard, jafnframt, hefur varla náð sér niður á jörðina aftur eftir frammistöðu sína gegn Belgum og símtalið frá Obama. 🙂

    – Það sást á liðsuppstillingu að Martinez lagði nákvæmlega enga áherslu á League Cup keppnina og nánast gaf hana bara. Lítið um það að segja.

    – Sammála með leikmann ársins (Jagielka) sem og unga leikmann ársins (Stones) og mark ársins (Jagielka).

    – Finnst Kone eiga skilið annan séns — allavega fram að áramótum. Væri gaman að sjá hvað hann getur með Lukaku sér við hlið og eftir almennilegt undirbúningstímabil.

  2. þorri skrifar:

    Sælir félagar nú er komið sumarfrí í enska boltanum. Nú fara menn að spá og spekulera. Það er nokkuð til í þessu sem Finnur segir. Jú það er rétt það má fara að stokka hjá okkar liði. En ég ætla ekki að nefna nein nöfn. Það fyrsta sem þarf að gera er að fá meiri breydd í liðið. Það er líka fínt að sleppa League Cup. Þá geta menn gert enn þá betra á næst tímabili. Svo mætti líka aðeins að yngja upp í liðinu. Og skoða og gá hvort einhver Íslendingur sé laus og þá að skoða það dæmi. Við eigum nokkra flínka í boltanum. Og endilega hinir í klúbbnum að tjá sína skoðanir og hinna líka. Og skoða líka ungu strákana sem Everton hefur alið upp. Þetta er nóg í bili heyrumst síðar.