Everton – Tottenham 0-1

Mynd: Everton FC.

Haraldur Örn skrifaði þessa skýrslu þar sem ritari var á pöllunum á Goodison ásamt fríðu föruneyti að styðja okkar menn. Kunnum honum bestu þakkir fyrir og gefum honum orðið…

Þá er komið að skýrslu lokaleiks tímabilsins en þetta er 51. keppnisleikur Everton á þessu tímabili. Enn einu sinni í vetur eigum við í Everton klúbbnum á Íslandi okkar fulltrúa á pöllunum á Goodison Park.

Roberto Martinez stillti liðinu svona upp: Howard, Galloway, Stones, Jagielka, Coleman, McCarthy, Barry, Mirallas, Barkley, Osman og Lukaku. Á bekknum sátu svo Robles, McGeady, Kone, Naismith, Distin, Besic og Atsu. Enginn Lennon í hóp þar sem hann er/var lánsmaður Tottenham og því ekki löglegur í þessum leik.

Tottenham byrjuðu leikinn mun betur en okkar menn og voru mun líklegri til að ná einhverju út úr leiknum. Eftir um það bil 10 mín henti Ryan Mason sér niður í teignum og vildi vítaspyrnu en ágætur flautuleikari sá við honum og gaf ekki víti á þetta. Stuttu seinna missti Galloway boltann við miðju vallarins og tók Erikson boltann og gaf flotta sendingu í gegnum vörnina þar sem Lamela var kominn í gegn hægra megin í teignum og átti gott skot sem Howard varði meistaralega.

Á 20. mín eru Tottenham enn í færi og átti Chadli skot sem Jagielka blokkaði og eru okkar menn að ströggla við að koma sér inn í leikinn. Og á 24. mín kom svo mark í andlitið á okkur — Erik Dier átti sendingu inn í boxið og þar kom Kane og skallaði boltann í netið. 0-1 fyrir Tottenham.

Eftir markið lifnaði aðeins yfir okkar mönnum en flestar sendingar okkar voru slakar og fóru yfirleitt á mótherja. Eins voru varnarmenn Tottenham búnir að lesa okkar leikskipulag vel og gáfu ekki mörg færi á sér. Mirallas komst svo í gegnum vörnina og átti ömurlegt skot upp í stúku þar sem hann hefði betur gefið boltann á Lukaku sem var einn fyrir miðju marki og í ákjósanlegu færi. Þarna var Mirallas of eigingjarn. Hann átti svo aftur frábært skot rétt yfir markið stuttu seinna á síðustu mínútu hálfleiksins sendi Galloway boltann í gegnum vörnina og var Mirallas kominn í gegn og fór markmaðurinn þeirra út í hann. Mirallas þurfti því að spila sig frá markinu en losaði sig við hann og vippaði svo í átt að mark en því miður fór boltinn rétt yfir.

Staðan 0-1 í hálfleik og heyrði ég ekki betur en að stuðningsmenn Everton púuðu á sína leikmenn á leiðinni til búningsklefa.

Martinez gerði eina breytingu í hálfleiknum: tók Barkley út og setti Besic inn.

Besic byrjaði af miklum krafti og átti skot sem fór rétt framhjá. Stuttu seinna kom Galloway upp miðjuna með boltann og ætlaði að senda hann í gegn á Lukaku en varnarmaður komst fyrir. Boltinn datt til baka á Galloway sem var við það að komast í gegn — einn á móti markverði — en markmaður þeirra bjargaði með góðu úthlaupi.

Seinni hálfleikurinn betri hjá okkar mönnum. Besic kom með mikinn kraft inn í þetta en þeir Lukaku og Mirallas voru að rembast við að búa eitthvað til þarna fremst en gekk ekki vel. Það munaði alltaf einni sendingu og var svona ekki alveg að gera sig.

Á 73. mínútu gerir Martinez aðra breytingu: tekur Mirallas af velli og hendir inn Naismith. Á 80. mínútu átti svo Stones skalla yfir eftir sendingu frá Besic. Á 83. mínútu fögnuðu stuðningmenn Everton mest í öllum leiknum þegar Sylvain Distin var skipt inn á í væntanlega sínum síðasta leik sínum fyrir félagið — inn á fyrir unglinginn Galloway. Á síðustu 10 mínútunum voru okkar menn að reyna að ná einhverju út úr leiknum sem ekki tókst. Leikurinn endaði 0-1 og er það fyrsti sigur Tottenham á Goodison park síðan 2007.

Í þessum leik áttum við ekki mikið skilið — Tottenham liðið einfaldlega betra í leiknum og fannst Vertonghen þeirra besti maður og hjá okkur var Mirallas líflegastur.

Niðurstaðan er er 11 sætið í deildinni sem eru að mínu mati mikil vonbrygði.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Galloway 7, Stones 7, Jagielka 6, Coleman 6, Barry 6, McCarthy 6, Mirallas 7, Barkley 5, Osman 7, Lukaku 6. Varamenn: Naismith 7, Distin 5, Besic 7.

4 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Í guðanna bænum taktu Barkley út af.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta var……skítsæmilegur seinni hálfleikur að öðru leyti var þetta ömurleg frammistaða hjá Everton ekki það að maður hafi búist við miklu.

  3. Gestur skrifar:

    Loksins búið þetta skelfilega lélega tímabil

  4. Finnur skrifar:

    Úrslitin voru okkur ekki að skapi en við Íslendingarnir á pöllunum höfðum gaman af leiknum eins og af ferðinni allri. Gaman að fá að kveðja bæði leikmennina eftir tímabilið sem og Distin í síðasta skipti en hann er búinn að vera klúbbnum frábær þjónn gegnum tíðina — og einfaldlega sé komið að kynslóðaskiptum. Takk fyrir allar minningarnar, Distin.